Ísland og valdajafnvægið á Atlanthafi

Norður-Ameríka og Ástralía eru byggð afkomendum innflytjenda frá Evrópu. Engum kemur til hugar að Bandaríkin, Kanada og Ástralía eigi heima í Evrópusambandinu. Stjórnarfarsleg og menningarleg rök nægja ekki fyrir aðild að ESB. Ísland liggur landfræðilega á mörkum Evrópu og Ameríku. En landafræðin skiptir heldur ekki sköpum. Grænland, sem er allt í Norður-Ameríku, fór inn í Evrópusambandið með Dönum en ákvað að ganga þaðan út og er eina landið sem komist hefur upp með það.

Evrópusambandið lítur á sig sem summu þeirra ríkja sem mynda sambandið að virðisauka viðbættum, sem er skilgreindur í samræmi við stórveldahagsmuni öflugustu ríkja álfunnar. Vegna andstöðu Frakka og Þjóðverja, sem frá dögum Karlamagnúsar hafa barist við veldi múslíma, verður Tyrkjum ekki hleypt inn í ESB. Í austri önnur þjóð sem ekki fær boðskort um inngöngu frá Brussel. Rússar eru gróið stórveldi sem Frakkar og Þjóðverjar vilja halda utan klúbbsins.

Stórveldahagsmunir Evrópu á Atlantshafi voru prófaðir í seinni heimsstyrjöld. Þjóðverjar náðu Noregi á sitt vald en Bretar Íslandi. Noregur reyndist þýskum baggi. Fjölmennt hernámsliðið þar skóp ekki sóknarstöðu á Atlantshafi og var ekki til taks í afgerandi landorrustum í austri og vestri. Hernám Breta á Íslandi var þeim ofviða og þeir gerðu kaup við Bandaríkin um að taka við Íslandi.

Evrópuveldin voru ekki nægilega öflug til forræðis á Atlantshafi fyrir mannsaldri og var það staðfesting á valdapólitískri þróun. Þegar fyrir 200 árum voru meginlandsríkjum Evrópu reistar skorður á hafsvæðinu.  Monroe yfirlýsingin á þriðja áratug 19. aldar sagði að Bandaríkjamenn litu á það sem ógn við sína hagsmuni að gömlu nýlenduveldi Evrópu seildust til valda á ný í Vesturheimi. 

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu gengur þvert á sögulegt valdapólitískt jafnvægi á Atlantshafi. Næsta stórveldatogstreita verður um norðurslóðirnar. Hagsmunir sem þar eru í húfi lúta að siglingum og olíu og öðrum náttúruauðæfum.

Í dagblaðinu Nordlys, sem er stærsta dagblað Norður-Noregs, er vakin athygli á því í fréttaskýringu að Evrópusambandið virðist ætla að breyta um stefnu í málefnum norðurslóða. Í stað þess að krefjast nýrra sáttmála þokast Evrópusambandið nær þeirri afstöðu að gildandi hafréttarsáttmálar skuli vera grunvöllur að málefnum norðurslóða.

Gangi Ísland inn í Evrópusambandið framselur Ísland hagsmuni sína sem strandríkis til valdhafanna í Brussel. Evrópusambandið lítur á Ísland sem ESB-fleyg á norðurslóðir.

Íslenskum hagsmunum er illa þjónað með því að gera landið að verkfæri Evrópusambandsins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband