Fríverslun við Breta, fordæmi gagnvart ESB

Fríverslunarsamningar eru gerðir á milli fullvalda þjóða til að auðvelda viðskipti. Samningurinn við Bretland sýnir að fullgerlegt er að eiga ,,náin viðskipta­tengsl", eins og segir fréttatilkynningu stjórnarráðsins, án fullveldisframsals.

Fyrir aldarfjórðungi var íslensku þjóðinni talin trú um að fríverslunarsamningar væru liðin tíð, ekki væri lengur til siðs að gera slíka samninga. Nei, nú yrði að framselja fullveldið til útlanda svo að Íslendingar gætu áfram verið þjóð meðal þjóða.

Undir þessum formerkjum gekk Ísland Evrópusambandinu á hönd, með ESS-samningnum um miðjan tíuunda áratug síðustu aldar.

Endalaus vandræði eru af EES-samningnum, með hvað skýrustu birtingarmyndinni í orkupökkum sem reglulega eru sendir frá Brussel og veita framkvæmdastjórn Evrópusambandsins íhlutunarrétt í íslensk orkumál.

Ísland er sögulega og menningarlega til muna nánari Bretlandi en meginlandi Evrópu. Ef fríverslunarsamningur er nægilegur til að eiga samskipti við Bretland er augljóst að tvíhliða samningur við ESB um fríverslun er kappnóg til að mæta þörfum okkar.

Stofnað var til EES-svæðisins af hálfu Evrópusambandsins með það fyrir augum að EES-samningurinn væri áfangi á leið inn í sambandið. Íslendingar tóku umræðuna 2009-2012, þegar aðildarumsókn Samfylkingar var á dagskrá, og niðurstaðan varð ótvíræð: Ísland er ekki á leið inn í ESB.

Eftir úrsögn Breta, Brexit, 2016 má öllum vera ljóst hvorki er Ísland á leið inn í ESB í fyrirsjáanlegri framtíð né hentar okkur aðildin að EES-samningnum. Bretar litu ekki við EES-aðild eftir Brexit. Fullvalda þjóðir gera einfaldlega ekki slíka samninga.

Löngu tímabært er að segja upp EES-samningnum og gera fríverslunarsamning við Evrópusambandið.


mbl.is Fríverslunarsamningurinn formlega genginn í gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband