Nató, ásýnd og reynd

Úkraína er í reynd Nató-ríki, segir varnarmálaráðherra landsins. Í Úkraínu berjast rússneskir hermenn í reynd við Nató, segja yfirvöld í Rússlandi.

Reynd í merkingunni raunveruleiki er eitt en annað er ímyndin um reynd. Aðild Svíþjóðar og Finnlands að Nató er nær reynd raunveruleikans en aðild Úkraínu. Eina sem stendur í vegi aðildar norðurlandaþjóðanna að bandalaginu er neitun Tyrklands.

Um leið og Erdogan segir já eru Svíþjóð og Finnland orðin Nató-ríki að öllu leyti nema að forminu til. Aðeins vantar undirskriftir. Hver er ástæðan? Jú, Rússar segja að norðurlöndin tvö séu þegar Nató-ríki - í reynd.

Svolítið villandi þetta með sýnd og reynd. Á bakvið glittir í grjótharðan veruleika alþjóðastjórnmála.

Nató er hernaðarbandalag. Ríki innan bandalagsins styrkjast en ríki utan bandalagsins veikjast í réttu hlutfalli við styrk bandalagsríkjanna. Eftir upplausn Sovétríkjanna 1991 styrkist Nató jafnt og þétt, með fjölgun aðildarríkja er eiga landamæri að Rússlandi.

Lögmálið um hlutfallslegan styrk gildir á milli nágranna. Það breytir engu fyrir Kína hvort Úkraína er aðili að Nató eða ekki. Aftur breytir aðildin öllu fyrir Rússland. 

Rússum var aldrei boðin aðild að Nató. Hernaðarbandalög þurfa óvin til að réttlæta tilveru sína. Ef enginn er andstæðingurinn er bandalag um hernað óþarft.

Stækkun Nató í austurátt var bein ögrun við öryggishagsmuni rússneska ríkisins. Eftir tilboð Nató til Úkraínu og Georgíu vorið 2008 um aðild gerðu Rússar innrás í Georgíu, sem er smáríki, til að undirstrika að öryggi Rússlands yrði varið með vopnavaldi.

Frá 2008 mátti semja við Rússland um að Úkraína yrði hlutlaust land utan hernaðarbandalaga. Tíminn var ekki notaður til samninga. Í staðinn hófst Natóvæðing Úkraínu á bakvið tjöldin. Ásýndin var að Úkraína sé hlutlaust land en í reynd var landið jafnt og þétt gert að Nató-ríki.

Rússar stóðu frammi fyrir tveim kostum, báðum slæmum. Í fyrsta lagi að leyfa Úkraínu aðildina að Nató og standa andspænis fullum herstyrk Bandaríkjanna í fyrirsjáanlegum deilum um stöðu Rússa í austurhluta Úkraínu. Í öðru lagi að hefja stríðsaðgerðir áður en Úkraína yrði fullgildur aðili að hernaðarbandalaginu.

Ráðandi öfl í Washington og Brussel veðjuðu á að Rússar tækju fyrri kostinn en töldu sig fullbúin undir þann seinni. Stríð eru aftur óútreiknanleg. Atburðir á vígvellinum ráða ferðinni hvað sem líður undirbúningi.

Ungir menn í blóma lífsins deyja í þúsundavís á meðan valdamenn tala um sýnd og reynd. Villimennska mannfórna í nafni siðmenningar. 

  

 


mbl.is Úkraína í raun og veru aðili að NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband