RSK-miðlar, brotin sál og yfirhylmingin

,,Lögreglan er með töluvert af símasamskiptum, tölvupóstum og annars konar samskiptum X við ákveðna fjölmiðlamenn. [...] Í gögnum málsins er tölvupóstur frá X, m.a. til Aðalsteins Kjartanssonar þar sem hann ræðir væntanlega skýrslutöku hjá lögreglu og fleira."

Ofanrituð tilvitnun er úr skýrslu lögreglunnar á Akureyri, lögð fram í héraðsdómi, vegna kröfu Aðalsteins blaðamanns á Stundinni að vera undanþeginn yfirheyrslu vegna líkamsárásar (byrlunar) og friðhelgisbrots á Páli skipstjóra Steingrímssyni.

X er tilræðismaðurinn sem RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn, véluðu til að byrla og stela síma skipstjórans.

Í tilvitnuðum orðum kemur fram að rannsókn lögreglu er fyrst og fremst byggð á gögnum en ekki vitnisburði. Ekki er um að ræða að einhver staðhæfi eitthvað um afbrot annars, heldur afhjúpa blaðamenn RSK-miðla aðild sína að glæpnum með sínum eigin orðum í símtölum og tölvupóstum.

Fjórir blaðamenn eru með stöðu sakborninga, Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum, Aðalsteinn á Stundinni og Þóra á RÚV. Auk þeirra hafa Helgi Seljan og Rakel Þorbergsdóttir orðið að hætta á RÚV eftir að málið varð heyrinkunnugt sl. haust. Sexmenningarnir höfðu samskipti sín á milli annars vegar og hins vegar við X. Lögreglan fylgdist með.

Páli skipstjóra var byrlað 3. maí á síðasta ári og hann var meðvitundarlaus til 6. maí. Á þeim tíma var símanum stolið, innihaldið afritað og tækinu skilað. Frá og með kæru Páls 14. maí rannsakar lögreglan málið.

Sumarið 2021 aflaði lögreglan gagna, bæði úr staðsetningarbúnaði síma Páls og með rannsóknarheimildum s.s. hlerunum.

X var kallaður til yfirheyrslu 5. október. Í framhaldi hófust líflegar samræður fjölmiðlamannanna um það hvernig skyldi brugðist við. Meðal annars var rætt um að gera enn aðra árás á Pál skipstjóra. Blaðamenn höfðu úr síma Páls myndskeið af honum í ástarleik með vinkonu sinni. Myndskeiðið sendu fjölmiðlamennirnir sín á milli. Þá heimtuðu RSK-liðar að X léti þeim í hendur einkasímann og lykilorð. Valdsmunur er á X og RSK-urum. Í einn stað brotin sál en í annan stað ágengir karlar og yfirmenn á ríkisstofnun. Einkasíminn fór í hendur fjölmiðlamanna sem tóku til við að eyða gögnum úr tækinu. Lögreglan fylgdist með.

Annar liður í viðbrögðum RSK-miðla við lögreglurannsókninni var að saka Samherja um að leggja líf Helga Seljan í rúst. Þann 15. október birtist Helgi á skjánum hjá Gísla Marteini á RÚV. ,,Heimsmet í drullusokkshætti," sagði Helgi og átti ekki við þá er skipuleggja líkamsárásir, stela einkagögnum og níðast á einstaklingum í sárum. Ekki er víst að lögreglan hafi fylgst með Helga hjá Gísla Marteini. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á menn.

Þriðji þátturinn í andsvörum RSK-miðla var að ráðast með offorsi á tilfallandi bloggara sem sagði frá glæpnum gegn Páli skipstjóra. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans skrifaði leiðara 18. nóvember: Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar.  Bloggara voru valin hin verstu nöfn og fullyrt að engin lögreglurannsókn stæði yfir. ,,Brjáluð samsæriskenning," skrifar ritstjórinn.

En hringurinn þrengdist um Þórð Snæ og félaga þrátt fyrir allt. Ritstjórinn reyndi að fela samskipti sín við umheiminn. Þremur dögum áður en hann skrifaði leiðarann hlóð Þórður Snær niður smáforritinu Signal í síma sinn. Smáforritið eyðir skilaboðum eftir að þau eru lesin og torveldar hlerun. Þórði Snæ hefur þótt þetta snjall leikur. Meinið er að í leiðinni afhjúpaði hann sjálfan sig. Til að hlaða niður Signal þarf að gefa upp símanúmerið. Aðrir notendur smáforritsins sjá þegar hringt er úr síma sem notar Signal. Flóttinn undan réttvísinni var hafinn. Þórður Snær og félagar voru boðaðir til yfirheyrslu í febrúar á þessu ári. Núna, sex mánuðum síðar, gáfust fjórmenningarnir upp á flóttanum. Þórður Snær og Arnar Þór voru yfirheyrðir á fimmtudag en Þóra og Aðalsteinn á föstudag.

Glæpaslóð RSK-miðla verður ekki falin með smáforriti. 

 

 

 

 


Bloggfærslur 14. ágúst 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband