Aðalsteinn gagnrýnir Stefán útvarpsstjóra

Sakborningur í RSK-málinu, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni, gagnrýnir Stefán Eiríksson útvarpsstjóra fyrir að styðja sig ekki í starfi á RÚV. Aðalsteinn var liðsmaður Kveiks á RÚV en hætti fyrirvaralaust 30. apríl 2021.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af Aðalsteini 9. september síðast liðinn er haft eftir blaðamanninum að meginástæðan fyrir uppsögn á RÚV sé þessi: ,,En það sem hafði mestu áhrif hafi verið meðhöndlun fyrrum vinnuveitanda á áreiti starfsmanna Samherja sem hann varð fyrir."

Sneiðin er bersýnilega til Stefáns útvarpsstjóra. Hvaða ,,áreiti" Aðalsteinn varð fyrir er óljóst, sennilega tilbúningur manns á höttunum eftir samúð sem hann sýnir ekki öðrum.

Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum. Hann mætti sem fórnarlamb í Kastljós á RÚV eftir lögregluyfirheyrsluna og sagðist ætla að kæra meðferðina á sér til Mannréttindadómstóls Evrópu. Engin kæra hefur verið send. Kæran var tilbúningur til að úr yrði frétt sem réttlætti að Aðalsteinn fengi Kastljósþátt fyrir sig.

Önnur veigameiri skýring er á snöggum vistaskiptum Aðalsteins 30. apríl í fyrra. 

Þrem dögum eftir að Aðalsteinn hætti á RÚV og fór samdægurs á Stundina var Páli skipstjóra byrlað og síma hans stolið. Síminn fór upp á Efstaleiti þar sem hann var afritaður. Gögnum úr símanum var komið til Aðalsteins á Stundinni og Þórðar Snæs á Kjarnanum.

RÚV var miðstöðin í glæpnum gegn skipstjóranum. En RÚV ætlaði aldrei að birta, og birti aldrei, fréttir upp úr stolnum símanum. Stundin og Kjarninn sáu um þá hlið. RÚV kom í kjölfarið, endursagði áður birtar fréttir og krafði stjórnmálamenn um viðbrögð.

Almenningur stendur í þeirri trú að RÚV, Stundin og Kjarninn séu þrír sjálfstæðir fjölmiðlar. En þetta er einn mafíu-fjölmiðill sem lýtur sameiginlegri ritstjórn. Hvergi er opinberlega greint frá bandalaginu. Samráðið er á bakvið tjöldin. Sjálfir krefja fjölmiðlar aðra um gagnsæi og að allt sé upp á borðum. Um þá sjálfa gildir leyndarhyggja. Í myrkrinu eru skipulögð lögbrot sem ekkert heiðarlegt fólk getur réttlætt.

Fyrir föstudaginn 30. apríl 2021 vissu RSK-miðlar að von væri á stolnum gögnum. Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð. Það gekk eftir. Það átti að láta líta svo út að ,,rannsóknarblaðamenn" Stundarinnar og Kjarnans hefðu komist af sjálfsdáðum yfir upplýsingar. Því fer fjarri. Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur.

Byrlun og þjófnaður eru almennt ekki viðurkenndar starfsaðferðir blaðamanna. Nema á Íslandi. Þar fá blaðamenn verðlaun að virkja minnimáttar til óhæfuverka. 

Hvort Aðalsteinn hafi eingöngu verið viðtakandi stolinna gagna er opin spurning sem verður svarað þegar ákærur birtast. Lögregluyfirheyrslan gefur til kynna að lögreglan viti mun meira en hún lætur uppi. Gögnin sem gera fjóra blaðamenn að sakborningum eru fyrst og fremst símtöl og fjarskipti á milli blaðamannanna sjálfra annars vegar og hins vegar blaðamanna við veiku konuna sem fengin var til að byrla og stela.

Trúlega kann Stefán útvarpsstjóri Aðalsteini litlar þakkir fyrir gagnrýnina. Vandræðin eru næg fyrir á Glæpaleiti.


Bloggfærslur 28. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband