Þórður Snær og glæpur Páls skipstjóra

Síminn hringir hjá Páli skipstjóra Steingrímssyni 20. maí í fyrra kl. 14:56. Á línunni er Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. Daginn eftir ætlar Þórður Snær að birta frétt upp úr stolnum síma skipstjórans. Samtalið er eftirfarandi:

Þórður Snær: Páll?

Páll: Það er hann.

Þórður Snær: Heill og sæll ég heiti Þórður Snær og er ritstjóri Kjarnans. Hvernig sæki ég að þér?

Páll: Bara ágætlega.

Þórður Snær: Þú kannast alveg við mig?

Páll: Jú, jú.

Þórður Snær: Ég ætlaði að segja að við... að okkur hafa borist talsvert magn gagna sem sýna fram á að greinarnar sem þú hefur verið að skrifa undanfarin ár séu unnar í samvinnu við launaða starfsmenn og ráðgjafa innan Samherja.

Páll: Okei.

Þórður Snær: Og vildi einfaldlega gefa þér tækifæri til að bregðast við þessu.

Páll: Þú hefur sem sagt þessi gögn undir höndum?

Þórður Snær: Já.

Páll: Glæsilegt að þú sért búinn að viðurkenna það.

Þórður Snær: Já.

Páll: Ég mun þá afhenda lögreglunni þessar upplýsingar. Þetta samtal er tekið upp. Þú verður spurður út í þetta af lögreglu.

Þórður ítrekar spurninguna um hvort skipstjórinn vilji bregðast við en Páll kveðst ekkert hafa að segja. Samtalinu er slitið. Það mælist rúmlega mínúta að lengd.

Sex dögum fyrir símtalið hafði Páll kært til lögreglu byrlun og símastuld. Skipstjórinn vissi ekki hverjir stæðu að baki atlögunni að sér fyrr en hann fékk símtalið. Verðlaunablaðamaðurinn afhjúpaði sjálfan sig.

Spurningin sem Þórður Snær leggur fyrir Pál, hvort hann hafi fengið aðstoð við að skrifa greinar, er efst í huga ritstjórans. Annars væri það ekki fyrsta og eina spurningin.

Höfuðsynd Páls skipstjóra var að fá aðstoð við að skrifa greinar í fjölmiðla. Fæstir myndu kenna athæfið við stórglæpi. Í meðförum Þórðar Snæs og félaga á Stundinni og RÚV, RSK-miðla, verður þessi fjöður að fimm hænum: skæruliðadeild Samherja. Af símtalinu að dæma væri nær að tala um ritvinnsludeild Samherja.

Til að gögnin kæmust í hendur Þórðar Snæs þurfti að byrla Páli skipstjóra, stela síma hans og afrita. Það eru alvarlegir glæpir, banatilræði, þjófnaður og brot á friðhelgi. Nokkuð langt seilst til að upplýsa hvernig skipstjóri ber sig að við greinarskrif.

Þórður Snær er sakborningur í lögreglurannsókn. Ekki Páll skipstjóri, sem varð fyrir árás á líf, heilsu og einkahagi til að fjölmiðlar mættu upplýsa hvernig stæði á ritstörfum hans.

Í huga ritstjórans er Páll aftur sekari en syndin. Þórður Snær á hinn bóginn maður mannréttinda og sannleikans ,,sem valdið vill kæla." 

Blaðamenn standa að baki líkamsárás og þjófnaði og verðlauna sjálfa sig fyrir verknaðinn. En kalla það ,,kælingu" er lögregla rannsakar glæpinn.

Kómedía mannlífsins gerist ekki svartari.

 


Bloggfærslur 26. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband