Ferðaþjónustan var baggi á samfélaginu fyrir farsótt

Ferðaþjónustan var afæta á Íslandi fyrir farsótt. Innviðir samfélagsins þoldu ekki tvær milljónir ferðamanna á ári. Náttúra landsins þoldi ekki áganginn. Vinnumarkaðurinn ekki heldur, tugþúsundir útlendinga voru fluttir til landsins til að þjónusta aðra útlendinga. Ísland líktist verstöð þar sem landsmenn voru auðmjúkir þjónar í útlendum heimi.

Þingmenn og ráðherrar þora ekki að segja það augljósa. Ferðaþjónustan níddist á landi og þjóð fyrir farsótt. Þessi iðnaður lifði í ósjálfbærri  WOW-bólu gelgjukapítalista sem skildu eftir sig eyðimörk.

Farsóttin bjargaði okkur frá falsheimi fjöldatúrisma. Gerum ekki þau mistök að endurtaka leikinn þegar farsótt linnir.

 


mbl.is Komið að skuldadögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir ómöguleikar í farsóttarvörnum

Tvær meginleiðir eru í farsóttarvörnum, báðar með innbyggðan ómöguleika. Þriðja leiðin er í fleirtölu.

Bæling, með sóttkví og lokunum, upprætir ekki veiruna sem ríður yfir í bylgju eftir bylgju. Samfélagskostnaður er mikill. Economist segir 500 milljónir starfa hafa glatast á heimsvísu i faraldrinum.

Hjarðónæmi, leyfa farsóttinni að leika lausum hala en verja veika og aldraða, tekur 3 mánuði með langvinnum veikindum hjá sumum og dauðsföllum. Vissulega í lágum hlutföllum. Engin ríkisstjórn á vesturlöndum hefur þorað að fara þessa leið enda brýtur hún í bága við frumskyldu yfirvalda að verja líf og heilsu íbúanna.

Á milli þessara leiða liggur málamiðlun, sem í reynd er stefna flestra vestrænna ríkja þótt sjaldnast sé það sagt upphátt, og kenna má við sértækar sóttvarnir.

Sértækar sóttvarnir fela í sér að staðbundin yfirvöld, þjóðríki eða landshlutar, freista þess að bæla smitkúfa og grípa til varna sem þykja duga hverju sinni. Samanburður á milli þjóðríkja og svæða er meira og minna ómarktækur sökum þess að staðbundnar aðstæður, m.a. stjórnmálamenning, eru ólíkar.

Ein veira, tveir ómöguleikar og ólíkar sértækar lausnir. Það er veruleiki farsóttarinnar.


mbl.is Metfjöldi tilfella í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiran er ólæs, náttúran líka

Snjallt af Þórólfi sótta að vekja á því athygli að kórónuveiran er ólæs og skilur ekki mannamál. Veiran fer sínu fram, líkt og náttúran, og lætur sig engu skipta hvað manninum finnst.

Okkur hættir til að hugsa þetta öfugt, að náttúruleg fyrirbrigði lúti vilja mannsins. Við skiljum ekki náttúruna nema að hluta en högum okkur iðulega eins og hún sé manngerð.

Kannski að stóri lærdómurinn af farsóttinni sé upprifjun á takmörkunum mannsins andspænis náttúruöflunum. 

Fyrr á tíð var meiri meðvitund um vanmátt tegundarinnar. Til eru orðskviður sem lýstu sambandi manns og náttúru: kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða.


mbl.is Veiran lesi hvorki reglugerðir né tilmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband