Sprengir farsóttin ríkisstjórnina?

Alþjóðlega umræðan um Kínaveiruna er að snúast. Bælingarstefnan tapar fylgi en hjarðónæmissinnum fjölgar. Skapadægur bælingarstefnunnar er 3. nóvember þegar Bandaríkjamenn ganga til kosninga. Trump er skilgreindur sem hjarðónæmissinni og því fylgja allir andstæðingar hans bælingarstefnunni. Að kosningum loknum hverfur Trump-hvatinn úr bælingarsinnum og um leið allur vindur.

Ísland, líkt og öll önnur vestræn ríki fylgir bælingarstefnunni. Ríkisstjórnin er með allt sitt pólitíska kapítal fjárfest í bælingunni. 

Bælingarstefnan var ekki röng þegar henni var fyrst beitt síðast liðið vor. Hún var rökrétt í stöðunni, að verja samfélög smiti með sóttkví og lokunum. Vonir stóðu til að farsóttin gengi yfir á fáeinum vikum, í mesta lagi örfáum mánuðum. Til vara átti bóluefni að koma í haust ekki seinna en um áramót.

Allar þessar vonir hafa brugðist. 

Höfum eitt á hreinu áður en lengra er haldið. Ef ríkisstjórn Íslands hefði ekki fylgt bælingarstefnu, líkt og aðrar þjóðir, hefði henni verið kennt um ótímabær dauðsföll af völdum veirunnar. Ríkisstjórnin hefði sprungið í vor. Bælingarstefnan var eini valkosturinn í vor og sumar.

Veðrabrigðin í umræðunni, sem verða ekki seinna en 3. nóvember bjóða upp á sérstaklega hættulegt pólitískt veðmál fyrir stjórnarliða. Ef þeir stökkva núna á vagn hjarðónæmissinna geta þeir stigið á stokk með sigurbros á vör: ,,Sagði ég ekki."

Vinstri grænir hafa mest að tapa á sigri hjarðónæmissinna. Katrín er forsætis og Svandís ber pólitíska ábyrgð á þríeykinu. Ef Vinstri grænir sjá rýtinga á lofti í Sjálfstæðisflokknum verður freistandi að verða fyrri til og segja móðurflokk íslenskra stjórnmála ekki treystandi fyrir lýðheilsu og boða til kosninga fyrr en seinna.

Sitjandi ríkisstjórn er sú skásta sem völ er á. Katrín og Bjarni og Sigurður Ingi eru skynsamlegt fólk sem maður trúir frekar til yfirvegunar en æðibunu. Þau þurfa að undirbúa sig saman undir það að bælingarstefnan er á síðasta snúningi. Það er ekkert einfalt mál en vel mögulegt með yfirvegaðri orðræðu. En það er vita vonlaust að halda yfirvegun ef ekki sæmilegur agi á þingmönnum stjórnarliða.

Svarið við spurningunni í fyrirsögn: vonandi ekki, en því miður er möguleikinn fyrir hendi.


mbl.is Einhver getur dáið og þá lokum við heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimanám í stað skólagöngu

Aukinn áhugi er meðal foreldra að börnin stundi skólanám heima hjá sér. Kennarar vilja gjarnan vinna heima, sbr. viðtengda frétt. Í kófinu læra foreldrar, nemendur og ekki síst kennarar á fjarkennslubúnað af margvíslegu tagi.

Bein afleiðing er að stofnaðir verða fjarkennsluskólar, líklega einkaframtak þar sem ríki og sveitarfélög hreyfa sig hægt. Fyrsta tilraunin er sennilega gerð með stofnun fjarkennsluskóla á framhaldsstigi.

Stofnkostnaður er lítill, aðeins einfaldur tölvubúnaður. Eftirspurnin er fyrir hendi og þjálfað vinnuafl sömuleiðis - kennarar með reynslu af fjarkennslu.

Fjarkennsluskólinn hf. fengi nýsköpunarstyrk og pólitíska blessun, nema kannski frá Vinstri grænum og Samfylkingu. En hverjum er ekki sama um afturhaldið.

Ef maður væri 20 árum yngri stykki maður á þessa viðskiptahugmynd. Hún getur ekki klikkað.


mbl.is Kennarar fái að vinna meira utan skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi, pólitík og farsótt

Innan heilbrigðisvísinda er óeining um rétt viðbrögð við farsóttinni og fullkomlega eðlilegt er að sú óeining fái farveg í pólitískri umræðu.

Tvær meginstefnur eru uppi. Önnur er bæling farsóttarinnar, sem felur í sér stórfellda sóttkví og víðtækar lokanir á samfélagslegri starfsemi. Hin er hjarðónæmi þar sem farsóttinni er leyft að leika lausum hala en gætt að veikum og öldruðum.

Bælingarstefna hefur haft vinninginn í vestrænum ríkjum. Jafnvel Svíar, sem þykja hafa mesta sérstöðuna fylgja vægri útgáfu hennar. Fylgifiskur þessarar stefnu er að veirufaraldurinn dregst á langinn, með þriðju, fjórðu og fimmtum bylgju faraldursins. Vonir stóðu til að bóluefni yrði til um áramótin og þá skyldi faraldrinum létta.

En nú þegar vafi leikur á að bóluefni verði tilbúið í bráð vex þeim fiskur um hrygg sem segja bælinguna alloft dýrkeypta fyrir samfélagið. Líf almennings fer úr skorðum, fátækt eykst og félagsleg eymd sömuleiðis. Hjarðónæmi sé náttúruleg vörn við farsótt.

Siðferðilegur vandi við leið hjarðónæmis er að einhverjir munu veikjast alvarlega og einhverjir deyja verði horfið frá bælingarstefnu.

Í umræðunni um sóttvarnir er enginn besti kostur, aðeins skásti. En þannig er mannlífið yfirleitt.


mbl.is Þrír ráðherrar í hópi efasemdamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband