Stjórnarskrárbrölt í þágu EES og Evrópusambandsins

Í gær birti norska Stórþingið greinargerð um Íslandi og EES-samninginn. Ástæðan er vitanlega sú að Noregur er ásamt Íslandi aðili að EES, sem aftur er aukaútgáfa af Evrópusambandinu.

Fyrirsögn greinargerðarinnar upplýsir meginatriði hennar: ,,Ísland gefur ekki EES/ESB forgang á þjóðarrétt." Í meginmáli er útskýrt að deilan við íslensk stjórnvöld sé frá árinu 2012, já tvöþúsund og tólf. Íslensk stjórnvöld bera því við að framsal á valdheimildum til EES/ESB stangist á við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Hvað var að gerast á Íslandi árið 2012? Jú, vinstristjórn Jóhönnu Sig. reyndi sitt ítrasta að framselja fullveldið til Brussel með því að gera Ísland að hjálendu Evrópusambandsins og í leiðinni að breyta stjórnarskrá okkar.

Umsóknin um ESB-aðild dagaði uppi áramótin 2012/2013. En ESB-sinnar gefast ekki upp. Með Bessastaðabóndann í broddi fylkingar segja þeir: ,,Stjórn­ar­skrá verður aldrei meitluð í stein." 

Guðni Th. forseti lifir í fortíðinni, líkt og sálufélagar hans. Heimsmyndin frá 2012 er gerbreytt, Evrópusambandið er vandamál en ekki lausn fyrir Ísland. Brexit, úrsögn Breta úr ESB og þar með EES, gerir bandalagið í Brussel að meginlandsklúbbi Evrópuþjóða. Þangað á Ísland ekkert erindi.

Síðustu 200 árin er Ísland á bresk-bandarísku áhrifasvæði. Jörundur hundadagakonungur kom hingað á bresku skipi 1809 og reyndi byltingu. Breskur floti tók Ísland hernámi vorið 1940 og framseldi landið Bandaríkjunum ári síðar, með samþykki Íslendinga. Í valdapólitísk Norður-Atlantshafsins er Evrópusambandið núll og nix.

Guðni Th. forseti og aðrir ESB-sinnar reyna að troða Íslandi með góðu eða illu inn í Evrópusambandið. Stjórnarskrármálið er prófsteinn.  


mbl.is „Við höfum séð það svartara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband