Bókabúð MM lokar

Fyrir daga alnetsins og Amazon var bókabúð Máls og menningar alþjóðleg vin á Laugaveginum. Deild erlendra bóka var oft sú besta sem völ var á. Oft, vegna þess að stundum stjórnuðu verslunarstjórar með meiri áhuga á undirgreinum fagurbókmennta, s.s. sakamálum og hrollvekjum, en fræðiritum.

Á meðan Bókabúð stúdenta var enn við Hringbraut með takmarkað úrval stóð bókabúð MM sig í stykkinu á Laugarveginum. Þær eru ófáar bækurnar maður handfjatlaði fyrst á efri verslunarhæðinni í Rúblunni og urðu félagar. Ein er hvað minnisstæðust, eftir Michael Howard um stríð í Evrópusögunni. Hún var keypt í kalda stríðinu, einn kaflinn er raunar um það, og hefur elst verst, en gaf að öðru leyti innsæi i átakasögu frá Pelópsskagastríðinu að telja. Meginkenningin er að stríð og sálfræði mannsins haldast í hendur. Howard er engisaxneskur Clausewitz-sérfræðingur.

Alnetið og stafræn útgáfa grófu undan bókabúðum. Það mál kalla það framfarir. En það er eftirsjá af bókabúð MM. 


mbl.is Máli og menningu lokað varanlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélag, frelsið og kófið

Í fullkomnu einstaklingsfrelsi myndi hver og einn ákveða sínar sóttvarnir sjálfur. Engar samfélagslegar sóttvarnir væru viðhafðar, hver og einn færi sínu fram. Ósagt: í fullkomnu einstaklingsfrelsi er ekkert samfélag, engir sameiginlegir siðir og enn síður lög og reglur.

Það liggur fyrir að vísindarökin með og móti samfélagslegum sóttvörnum núllast út. Vísindin eru með samfélagssóttvörnum en líka á móti. Fer eftir því hvaða vísindamenn talað er við.

Spurningin sem við, hvert og eitt, þurfum að svara er þessi: hvort er skárra að fylgja samfélagslegum sóttvörnum, útgefnum af þar til bærum yfirvöldum, eða segja sem svo að þar sem óvissa er um haldbærni sameiginlegra sóttvarna, og efnahagslegt og félagslegt tjón hlýst af þeim, er engin ástæða fyrir mig að fylgja reglunum?

Upplýstur og yfirvegaður einstaklingur tekur fyrri kostinn. Annars eigum við ekkert samfélag. Án samfélags værum við öll verr á vegi stödd.

Þetta þýðir vitanlega ekki að við eigum að hlýða yfirvöldum í blindni. Skiptar skoðanir eru æskilegar, þær ydda málefnin. Allur þorri þeirra sem eru á öndverðri skoðun við ríkjandi sjónarmið virðast andmæla í góðri trú.

Eins og Þorgeir sagði á kristnitökuþinginu forðum ættum við að varast ,,þá er mest vilja í gegn gangast." En því miður er það einatt þannig að öfgamennirnir ráða ferðinni þegar umræðan verður svart-hvít.

Höfum í huga að án laga og reglna virkar samfélagið ekki. Við sættum okkur við umferðareglur þótt við teljum okkur vel fær að aka af öryggi á meiri hraða en leyfilegum hámarkshraða. Sama gildir um fjölmörg lög og reglur. Samfélag krefst málamiðlana, er að því leyti líkt hjónabandi.

Þegar kurlin koma öll til grafar eru sameiginlegar sóttvarnir spurning um traust. Það er betra að treysta lögmætum yfirvöldum, jafnvel þó að þau geri annað veifið mistök, heldur en að tileinka sér vantraust. Alveg eins og það er betra að elska og tapa en að elska ekki.

 


mbl.is Leggur ekki til hertar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband