Miðflokkurinn og XD-kratar

Borgaraleg stjórnmál með áherslu á fullveldi, hóflegt ríkisvald og félagslega íhaldssemi eiga heima í Miðflokknum.

XD-flokkurinn er aftur gegnsýrður kratisma þar sem ný ríkisútgjöld, t.d. til fjölmiðla og hærra útvarpsgjald til RÚV, eru samþykkt.

Enda fögnuðu Samfylkingarþingmenn ákaft nýjasta ráðherra XD-kratanna.


mbl.is Stærra bákn og meiri skattbyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og stórveldin 4

Fjögur stórveldi láta sig varða Ísland og norðurslóðir: Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína og Rússland. Af þessum fjórum er eitt nýgræðingur í okkar heimshluta, Kína. Eftir Brexit mun Bretland, sem einu sinni var stórveldi, líklega láta til sín taka en þá í samstarfi við Bandaríkin.

Af stórveldunum eru Bandaríkin okkar nánasti bandamaður. Með samkomulagi við ríkisstjórn Ísland í seinna stríði reistu Bandaríkin hér herstöð og sátu hana allt til 2006. Reynslan af hersetunni er sæmileg, telur sá sem þetta skrifar og ólst upp í Keflavík og tók þátt í Keflavíkurgöngu til að mótmæla hersetunni.

Síðustu áratugi er Ísland í samstarfi við Evrópusambandið, í gegnum EES-samninginn. Reynslan af þeim samningi er ekki jákvæð en þó ekki alslæm. Vandinn við EES er að Evrópusambandið notar samninginn til að seilast til áhrifa í íslensk innanríkismál, nú síðast með orkupakkanum. Bandaríkin reyndu ekki að setja bandarísk lög á Íslandi.

Ísland átti farsælt samstarf við Sovétríkin sálugu, þótt aldrei kæmi til greina að við yrðum bandamenn enda kommúnismi og lýðræði sitthvað. Ef Ísland væri ekki eins og hundur í bandi utanríkisstefnu ESB væri samstarfið við Rússland farsælla en það nú er - með gagnkvæmum viðskiptaþvingunum vegna deila ESB og Rússlands um yfirráð í Úkraínu.

Kína reynir í krafti viðskiptaveldis og vaxandi herveldis að koma ár sinni fyrir borð á norðurslóðum. Ísland ætti að eiga eiga vinsamleg samskipti við Kína en gjalda varhug við að láta kínverska hagsmuni koma upp á milli okkar og Bandaríkjamanna. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Smáþjóðir eiga að hlúa að næsta nágrenni sínu og treysta samstarf við þjóðir á líku reki. Þar skipta Grænlendingar, Færeyingar og Norðmenn mestu máli.

Varnarmálastefna Bandaríkjanna er í endurskoðun. Úrsögn Breta úr ESB mun hafa áhrif á norðurslóðir. Fyrirætlanir Kínverja eru enn óljósar. Þeir létu dátt við Grænlendinga en var settur stóllinn fyrir dyrnar af Dönum með atfylgi Bandaríkjanna. Rússar munu líklega vilja halda óbreyttri stöðu á norðurslóðum til að geta sinnt meginlandi Evrópu og nágrönnum í Asíu betur.

Aðalatriðið fyrir Ísland er dómgreindarlaust fólk ráði ekki ferðinni í utanríkismálum okkar, líkt og síðustu ár.

 


mbl.is Stórveldin bjóða Íslandi samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband