Óli Björn, ríkið, einkarekstur og pilsfaldakapítalismi

Óli Björn þingmaður skrifar pistil um ríkisrekstur, sem honum þykir yfirþyrmandi. Margt spaklegt þar en annað orkar tvímælis.

Óli Björn segir réttilega að almennt séu Íslendingar sammála um samfélagslega grunnþjónustu á sviði menntunar og heilbrigðis annars vegar og hins vegar innviða.

Þingmaðurinn fer út af sporinu þegar hann gagnrýnir að ríkisvaldið grafi undan einkarekstri lækna. Það er rangt. Læknar á markaði geta stundað sína iðju án afskipta ríkisins. En deilan snýst um hvort ríkið eigi að borga fyrir sjúklingana sem læknar í einkarekstri sinna.

Fyrirkomulagið, sem Óli Björn reynir að verja í heilbrigðiskerfinu, yrði svona í menntakerfinu. Kennarar með réttindi gætu opnað skóla, á hvaða skólastigi sem er, og fengið til sín nemendur sem ríkið borgaði fyrir. Allir sjá í hendi sér að slíkt fyrirkomulag virkar ekki; ríkið yrði blóðmjólkað. Enda kallast það pilsfaldakapítalismi.

Óli Björn tekur einnig fyrir Leifsstöð í Keflavík og vill að ríkið hætti að reka Fríhöfnina. Allt í sóma með það, Fríhöfnin er aðeins verslun. En í leiðinni vill þingmaðurinn selja Leifsstöð, þ.e. flugvöllinn sjálfan. Þar með yrðu seldir innviðir sem eiga að vera á hendi ríkisins.

Leifsstöð er einokun. Enginn flýgur til og frá landinu án viðkomu í Leifsstöð, nema kannski auðmenn með einkaþotur í Reykjavík. Maður getur sleppt því að versla við Fríhöfnina en ekki að nota Leifsstöð. 

Og einokun, Óli Björn, lætur maður ekki í hendur einkaaðila. Bara alls ekki.


Sólveigu Önnu er áfátt, mbl.is bregst

Orðbragð Sólveigar Önnu formanns Eflingar um varaforseta Bandaríkjanna er ekki hafandi eftir. Hitt er augljóst að Sólveig Anna mun ekkert gera annað en að hafa í frammi stóryrði.

Aftur er mögulegt að einhverri manneskju sem er meira áfátt en Sólveigu Önnu, og þá er langt til jafnað, láti sér til hugar koma að fylgja eftir stóryrðum formanns Eflingar. Til dæmis að fleygja sér fyrir bílalest varaforsetans.

Það er ábyrgðarhluti að dreifa færslu Sólveigar Önnu. Á mbl.is hlýtur að vera krafa um lágmarkssiðferði í texta.


mbl.is Sýni lokunum engan skilning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri hlýnun, takk

Nýliðinn ágúst er sá kaldasti á Íslandi í rúman aldarfjórðung. Samt eru einhverjir hér á landi að krefjast kólnunar og að við eigum að fara í stórfelldar aðgerðir, greiddar með almannafé, til að gera Ísland kaldara.

Góðu heilli skiptir náttúran sér ekki af brölti mannanna meira en svo að það ýmist hlýnar eða kólnar óháð vitleysunni sem manninum dettur í hug.

En við gætum þegið frá móður náttúru aðeins hlýrra loftslag.


mbl.is Ágúst ekki verið kaldari síðan 1993
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit og dauðaganga lýðræðisins

Bretar kusu fyrir þrem árum í þjóðaratkvæði að ganga úr Evrópusambandinu, Brexit. Síðan er samfelld stjórnarkreppa í Bretlandi þar sem ESB-sinnar og Brussel taka höndum saman að koma í veg fyrir að þjóðarvilji nái fram að ganga.

Bresk stjórnmál eru sundurtætt og það þjónar hagsmunum ESB. Aðrar þjóðir, sem kynnu að hugsa sér til hreyfings, fá skýr skilaboð.

Dauðaganga lýðræðisins er hlutskipti þeirra sem voga sér að sitja ekki og standa eins og Brusselvaldið býður. Óánægðum þjóðum í ESB verður nauðugur einn kostur; að eyðileggja sambandið innan frá.


mbl.is Stjórnin undir í Brexit-atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband