Markaðurinn trúir ekki á nýtt WOW - og ekki ég

Hlutabréf í Icelandair féllu í morgun, þegar meintur kaupandi að þrotabúi WOW gaf sig fram í viðtali. En þegar búið var að melta orð Michele Ball­ar­in hækkuðu hlutabréfin og við lokun markaða voru bréf Icelandair 1,12% verðmætari í dag en í gær.

Hvað veldur? Mögulega þessi orð Ball­ar­in: ,,Íslend­ing­ar og ís­lensk stjórn­völd þurfa val­kost í flugi."

Skúli Mogensen gæti verið að tala í gegnum Ballarin með þessum orðum. Hvers vegna ætti bandarísk kona með engin tengsl við Ísland allt í einu að vilja kaupa þrotabú flugfélags?

Ef þessi geðþekka bandaríska kona er ekki leppur Skúla er sjálfsagt að bjóða hana velkomna og fínt að hún sjái sem flest viðskiptatækifæri hér á landi. 

En allt viðtalið við konuna er ofhannað og ótrúverðugt eftir því.

Morgunljóst er að hvorki almenningur á Íslandi né stjórnvöld þurfa fleiri valkosti en nú eru fyrir hendi. Ein 14-16 félög fljúga hingað.

Sú geðþekka bandaríska segir þessi orð í markaðslegum tilgangi. Hér er fiskur undir steini. 

 


mbl.is Notar eigið fé við uppbyggingu WOW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar sameinaðir til að selja fákeppni

Sameining Arion og Íslandsbanka myndi aðeins þjóna hagsmunum fjárfesta sem fengju fákeppnisstöðu í kaupbæti. Almenningur og fyrirtæki bæru kostnaðinn. 

Bankar á Íslandi þurfa a.m.k. að vera þrír og betra er að þeir séu litlir en stórir. Þannig þjóna þeir best almenningi og öllum þorra fyrirtækja. Ef stórfyrirtæki þurfa fjármálaþjónustu sem íslensku bankarnir ráða ekki við ættu þau að leita til útlanda.

Við prófuðum að hafa íslensku bankana stóra á alþjóðavísu. Það endaði með glæpamennsku og hruni. Til þess eru vítin að varast þau.


mbl.is Horfur íslensku bankanna hjá S&P neikvæðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit þarf Boris, fórnaði May

Brexit er stærsti atburður í breskri sögu frá lokum seinna stríðs. Stórir atburðir kalla á sérstaka stjórnmálamenn. Boris Johnson er, bæði til góðs og ills, sérstakur stjórnmálamaður. Fráfarandi forsætisráðherra, Theresa May, var hefðbundinn stjórnmálamaður.

Breska þjóðarsálin er að veði í Brexit. Meginland Evrópu, þar sem ESB ræður ríkjum, vill sýna fram á að ekkert líf fái þrifist í álfunni án atbeina sambandsins. Margir Bretar trúa áróðrinum frá Brussel og vilja ómerkja Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem meirihluti bresku þjóðarinnar kaus að ganga úr Evrópusambandinu.

May munstraði ekki bresku þjóðarsálina í baráttunni við Brussel. Hún reyndi að fara bil beggja. En það er ekki hægt að vera bæði niðurnjörvaður í ESB og standa utan sambandsins. Ekki frekar en það er hægt að búa til hringlaga þríhyrning.

Í áratugi voru hefðbundin stjórnmál að ESB sankaði til sín völdum á kostnað aðildarríkja sem horfðu upp á að fullveldið fór í síauknum mæli til tæknikrata í Brussel á meðan kjörnir fulltrúar urðu meira í þykjustunni.

Brexit er uppreisn og Boris er uppreisnarforingi. 


mbl.is Boris Johnson næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband