Tvö einkenni fullveldis - orkupakki og ESB-umsókn

Fullveldi glatast í bútum. Á þjóðveldisöld gáfu íslenskir höfðingjar Noregskonungi goðorð sín sem smátt og smátt varð yfirvald í landinu með tilstyrk evrópskrar hugmyndafræði, kaþólsku kirkjunnar. Gamli sáttmáli var endanleg niðurstaða stykkjasölu fullveldisins til útlanda.

Annað einkenni fullveldis er að standi fólk frammi fyrir tveim valkostum, að gefa frá sér fullveldið eða halda því, tekur það ávallt seinni kostinn nema í slíkt óefni sé komið að fólk treysti sér ekki til að vera sjálfráða. Eftir hrun var ,,Ónýta Ísland" óopinbert slagorð Samfylkingar gagngert til að þjóðin glataði sjálfstraustinu og segði sig til sveitar hjá ESB.

Ef orkupakkinn verður samþykktur á alþingi flyst einn þáttur fullveldisins úr landi, þ.e. yfirráðin í raforkumálum. Talsmenn orkupakka nota lævísari áróður en Samfylkingin eftir hrun. Nú heitir það að yfirvofandi sé orkuskortur ef ESB sjái ekki um þessi mál fyrir okkur. Þá er sagt að orkupakkinn sé neytendavernd - eins og Íslendingar séu of miklir sauðir til að neytendaverja sjálfa sig.

Sömu viðhorfin eru að baki ESB-umsókn Samfylkingar 2009 og orkupakkans 2019. Í báðum tilfellum er fullveldið  í húfi. Víglínan var skýrari 2009 enda var barist um fullveldið í heilu lagi. Núna er einn veigamikill þáttur fullveldisins í hættu. Þeir sem vilja þóknast ESB, og samþykkja orkupakkann, leggja sig fram um að gera lítið úr fullveldi þjóðarinnar. Það er sama aðferðin og Samfylkingin notaði þegar ESB-umsóknin var send til Brussel fyrir áratug. Af ávöxtunum þekkist tréð.


mbl.is Orkupakkinn takmörkun á fullveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband