Viðskiptaráð stundar áróður, gerir mönnum upp skoðanir

Viðskiptaráð hefur ekki eina einustu heimild fyrir því að EES-samningurinn komist í uppnám ef Ísland afþakkar 3. orkupakkann. Samt segir ráðið í umsögn: ,,að óviss­an við það að neita samþykkt sé mik­il og að í raun breyti orkupakk­inn sára­litlu."

Það liggur fyrir að neiti Ísland 3. orkupakkanum fer málið í ferli skv. EES-samningnum. Í því ferli verður spurt hvort hlutlægar aðstæður mæli með innleiðingu orkupakkans. Augljóst er að aðstæður hér á landi - við erum ótengd orkuneti ESB - mæla ekki með innleiðingu.

Fyrir hagsmuni ESB breytir engu hvort Ísland innleiði 3. orkupakkann eða ekki. Nema, auðvitað, að það sé ætlun ESB að komast yfir íslenska raforku. Málsmeðferðin í EES myndi leiða það í ljós hvort ESB er á höttunum eftir ódýrri íslenskri raforku.

Viðskiptaráð gerir andstæðingum 3. orkupakkans upp skoðanir, sem er nýlunda í málflutningi ráðsins.  

Þeir sem styðja innleiðingu 3. orkupakkans eru í sömu sporum og þeir sem studdu Icsave-lögin. Málflutningurinn er líka svipaður; Ísland hlýtur verra af standi þjóðin á móti kröfum um að landið gangist undir útlendar skuldbindingar.

Engin þjóð tapar á því að standa á rétti sínum. Forsenda fyrir blómlegu mannlífi á Íslandi er að við stjórnum alfarið náttúruauðlindum okkar. 


mbl.is Höfnun hafi alvarlegar afleiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léleg rök, lýðræðið og orkupakkinn

Í lýðræði hlusta stjórnvöld á umræðu almennings. Gagnkvæmur skilningur borgara og stjórnvalda er að það sé báðum fyrir bestu. Borgurum finnst þeir búa við stjórnarfar sem ber hag þeirra fyrir brjósti og yfirvöld eiga hægara að stjórna þegar þeim er treyst.

Í umræðu takast á rök. Þegar álitaefnið er flókið, t.d. skattalög, er erfitt að átta sig á gæðum raka til stuðnings tiltekinni breytingu. Þegar umræðuefnið er einfalt, svo sem 3. orkupakkinn, er snöggtum greiðara að meta rökstuðninginn.

Rökstuðningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 er í meginatriðum þessi:

1. það er hættulaust að samþykkja aðild að orkusambandi ESB, enda áhrif hans lítil.

2. við eigum að samþykkja 3. orkupakkann þar sem við höfum samþykkt pakka 1 og 2.

3. ef við samþykkjum ekki orkupakkann er aðild okkar að EES-samningnum í uppnámi.

Andstæðingar 3. orkupakkans segja á móti:

1. ESB tekur sér íhlutunarrétt í raforkumálum þeirra ríkja sem eiga aðild að orkusambandinu - sem Ísland yrði með samþykkt orkupakkans.

2. samþykkt orkupakka 1 og 2 var ekki loforð af hálfu Íslands að halda áfram á vegferð ESB i átt að miðstýringu orkumála.

3. engar heimildir eru fyrir því frá ESB að EES-samningurinn komist í uppnám þótt Ísland standi utan orkusambands ESB.

4. Ísland er ótengt raforkumarkaði ESB og því engin ástæða að taka upp ESB-reglur.

5. EES-samningurinn gerir ráð fyrir að EFTA-ríkin geti afþakkað lög og reglugerðir sem augljóst er að eigi ekki við um viðkomandi lönd. Ísland tekur t.d. ekki upp ESB-gerðir sem eiga við um skipaskurði og járnbrautalestir.

Hlutlaust mat á rökum með og á móti sýna svart á hvítu að rökin fyrir eru sýnu lélegri. Þau eru mótsagnakennd (orkupakkinn hefur lítil áhrif, segja þeir, en leggja velferð ríkisstjórnarinnar að veði) og byggja ekki á heimildum, sbr. að enginn ESB-heimild er fyrir uppnámi EES-samningsins.

Ef umræðan um orkupakkann yrði settur í samhengi við knattspyrnuleik væri staðan 4-0 fyrir andstæðinga 3OP og skammt til leiksloka.

Það er lýðræðinu hættulegt þegar léleg rök eru tekin fram yfir gild rök, og því hættulegri sem málefnið er stærra. Stjórnvöld sem ekki taka mark á umræðu almennings sýna kjósendum hroka. Þegar yfirvöld taka ekki mark á umbjóðendum sínum grafa þau undan trausti sem er forsenda lýðræðis.

Enn er tími fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að ná áttum í þriðja orkupakkamálinu. Stjórnin yxi í áliti að taka mið af umræðu almennings.   


mbl.is Spilling veldur mestum áhyggjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband