Börn, þjáning og bylting

Jesú-barnið breytti heiminum. Án frásagnarinnar um meyfæðinguna í Betlehem væri saga mannkindarinnar önnur síðustu tvær þúsaldir eða svo. Jafnvel þeir sem heitastir eru í vantrúnni geta ekki neitað því.

Það var þó ekki fæðingin sem gaf lífi Jesú umsköpunarmáttinn heldur dauði. Sá dauðdagi var í senn merktur hryllingi og niðurlægingu. Rómverjar beittu krossfestingu til að halda í skefjum uppreisnartilburðum þeirrar stéttar sem bar á herðum sínum veldi Rómar - þrælanna. 

Tom Holland segir í yfirferð á upphafi kristni að ekki fyrr en 300 árum eftir fæðingu frelsarans gátu kristnir fengið sig til að sýna Krist á krossinum. Dauðdaginn þótti of lítillækkandi. Skylda hugsun leggur Landnáma í munn Ingólfs Arnarsonar þegar hann stendur yfir dauðum Hjörleifi frænda og fóstbróður: ,,Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða..." Álík er hörmungin að deyja eins og þræll og vera drepinn af þrælum.

Kirkjan sneri lítilmótlegum dauðdaga sonar trésmiðsins frá Nasaret upp í hetjufrásögn. Dauði í nafni sannleikans varð eftirsóttur. Píslarvætti er kröftug kristin hugmynd sem snjall áróðursmaður í Arabíu, Múhameð að nafni, gerði að sinni á sjöttu öld til að umbylta samfélagi manna. Við sitjum uppi með afleiðingarnar.

Yngsta dæmið um sporgöngumenn Betlehem-drengsins er sænska aðgerðabarnið Gréta Thunberg og hlýnunarsannleikurinn. New Republic segir Grétu afhjúpa loftslagssyndir eldri kynslóðarinnar. Gréta og aðstoðarlið hennar kann líka að spila á þjáninguna. Blessað Grétu-barnið varð úrvinda að sitja á gólfinu í þýskri lest. Deilt er um hvort myndin sé sviðsett, eins og raunveruleikinn skipti einhverju máli þegar píslarvætti er annars vegar.

Börnin eru blessun. Sagan af Jesú-barninu sem fæddist til að deyja á krossinum er áhrifamesta og fallegasta heimsfrásögnin. Þann tíma sem Jesú starfaði sem fulltíða maður, líklega um 2-3 ár, var hann elskulegur og allra vinur, ekki síst barnanna. Sagan um hann er öllum hollt veganesti. Kjarni sögunnar er að við umbyltum fyrst okkur sjálfum áður en við kássumst upp á aðra. Þjáningin í þeirri iðju er alltaf persónuleg.   

 


Bloggfærslur 25. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband