Byltingin, Bernie og Stefán

Bernie Sanders, sem næstum varð frambjóðandi Demókrata gegn Trump, er ekki ,,sannur" vinstrimaður segir í New Republic, vegna þess að hann vill ekki opin landamæri. ,,Sannir" vinstrimenn í stórveldinu fyrir vestan eru í óða önn að verða kommúnistar, segir önnur bandarísk útgáfa.

Byltingarsinnar á Íslandi eru um þessar mundir uppreisnarfélög í verkalýðshreyfingunni og Sósíalistaflokkur Gunnars Smára sem fékk fulltrúa í borgarstjórn. 

Stefán Ólafsson prófessor var nýverið ráðinn til Eflingar, eins uppreisnarfélagsins. Stefán er af kynslóð Bernie, að upplagi mjúkur vinstrimaður. Hlutverk prófessorsins er að gefa launakröfum Eflingar akademískt lögmæti.

Um hásumar er Stefán þegar kominn í Eflingarvinnu og skrifar grein um samband fjármálavæðingar, ójafnaðar og hruns. Gamlar fréttir myndu einhverjir segja, við lærðum þessa lexíu við hrunið enda er fjármálakerfið núna meira og minna ríkisvætt.

Stefán þarf að gera betur á Eflingartaxtanum og boða byltingu ef ekki á að fara fyrir honum eins og Bernie - fá ásökun um að vera ekki ,,sannur" vinstrimaður. En kannski er Stefán nógu sjóaður til að vita að með byltingu og kommúnisma hrynur ekki aðeins fjármálakerfið heldur samfélagið allt.


Trump með pólitískt líf May í hendi sér

Bandaríski sendiherrann í London hvatti Theresu May forsætisráðherra Breta að taka Donald Trump forseta sér til fyrirmyndar í viðræðum við Evrópusambandið um úrsögn, Brexit. May fylgdi ekki ráðum sendiherrans og gafst upp fyrir ESB.

Viðbrögð sendiherrans voru fyrirsjáanleg. Óvíst er að Bretland fái viðskiptasamning við Bandaríkin eftir Brexit, sagði hann.

May er stórlega löskuð eftir afsögn tveggja þungavigtarráðherra. Hún þarf virkilega á velvild Trump að halda. 

Trump er í viðskiptastríði við Evrópusambandið. Hann er líka í diplómatísku stríði við sambandið. Forsetinn vill betri samskipti við Rússa en ESB keppist við að halda uppi óvinaímyndinni af Rússum, Pútín forseta sérstaklega.

Trump er líklegur til að hvetja May forsætisráðherra að taka upp harðari Brexit-stefnu og hóta ESB að gera enga samninga. May, á hinn bóginn, getur ekki horfið frá stefnu sem hún samþykkti síðustu helgi og kostaði hana afsögn tveggja ráðherra. Við það hyrfi trúverðugleiki hennar.

Hófstilltur Bandaríkjaforseti myndi ef til vill leika biðleik. Segja ekkert stórt til að raska ekki viðkvæmri pólitískri stöðu breska forsætisráðherrans. En Donald Trump er ekki beinlínis hógværðin uppmáluð. Kannski blíðkar May Trump með afgerandi stuðningi við leiðtogafund Trump og Pútín sem verður í Finnlandi eftir heimsóknina til Bretlands.

Það er stórt kannski. Meiri líkur eru á að May standi verr en betur eftir heimsókn Trump.


mbl.is Trump hlakkar til ferðar til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband