Brexit skilar Bretum betri lífskjörum

Hagvísar í Bretlandi sýna að efnahagurinn batnaði eftir að Bretar ákváðu að segja sig úr Evrópusambandinu. Daniel Hannan rekur þróun mála í samantekt í New York Times.

Starfsmenn ESB í stofnunum í Bretlandi kjósa með fótunum, vilja ekki flytja úr Bretlandi.

Bretar fá viðskiptasamning við Bandaríkin, um leið og þeir losna úr viðjum ESB. Írar gætu rennt hýru auga til samningsins.

En Írar, sem sagt, eru með evruna og hún er enn í sóttkví.


Jaðarpólitíkin á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir eru pólarnir í íslenskum stjórnmálum, séð frá hægri til vinstri, þótt hvorugur sé fjarri miðjunni. Á milli þessara tveggja flokka eru jaðarflokkar sem fiska fylgi í misgruggugu vatni.

Síðustu mælingar sýna að tveir jaðarflokkar, Viðreisn og Björt framtíð, féllu af þingi ef kosið yrði núna. Ungt stjórnmálaafl, Flokkur fólksins, kæmist inn á þing.

Það er mótsagnakennt að jaðarpólitíkin skuli þrífast á milli pólanna. Eina meginályktun má draga af þessari staðreynd. Hún er að almenn sátt sé um meginþætti stjórnmálanna, s.s. efnahagsmál, stjórnskipun og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Önnur ályktun, léttvægari, er að sjálfhverfustjórnmál (ég, um mig, frá mér, til mín) eru í innbyrðis samkeppni. Björt framtíð er fyrir letingjana, sem vilja fá allt ókeypis upp í hendurnar; Viðreisn er málssvari frjálslyndrar alþjóðahyggju; Samfylkingin stendur með sérfræðingum sem vilja vinnu í Brussel; Flokkur fólksins talar fyrir þeim afskiptu í góðærinu og Píratar ímynda sér að ný stjórnarskrá sé allra meina bót.

Jaðarpólitíkin er kvik og ekki á vísan að róa með fylgi. Eins og Píratar komust að raun um við síðustu kosningar.


Dauði lýðræðisins - frjálshyggju kennt um

Lýðræðið er að deyja og flestum virðist standa á sama, skrifar rithöfundurinn og álitsgjafinn Paul Mason í Guardian. Hann tíundar dæmi frá Bandaríkjunum, Tyrklandi, Kína, Rússlandi, Venesúela, Póllandi og Ungverjalandi um hnignandi lýðræði.

Meginástæðuna fyrirsjáanlegs dauða lýðræðisins, segir Mason, er markaðsfrjálshyggja sem mælir mannréttindi með stiku hagfræðinnar. Gegn frjálshyggju teflir Mason fram hugmyndinni um algild og óframseljanleg náttúruleg mannréttindi.

Röksemdafærsla Mason er einfeldningsleg. Fyrir það fyrsta er markaðsfrjálshyggja ekki ráðandi í neinu þeirra ríkja sem hann nefnir, nema e.t.v. í Bandaríkjunum.

Verstu mistökin í rökfærslunni eru samt þau að Mason gefur sér að lýðræði sé eitt sniðmát. Svo er ekki. Lýðræði óx fram við sérstakar sögulegar kringumstæður í afmörkuðum heimshluta, sem við köllum vesturlönd. Jafnvel innan vesturlanda er útfærslan á lýðræði með ólíkum hætti. Frakkland og Bandaríkin búa að miðstjórnarhefð í gegnum forsetaembættið en hlutur þingsins er stærri í Bretlandi og Þýskalandi - þó á gangólíkum forsendum.

Sameiginlegt einkenni lýðræðisins er að það svarar vilja þess almennings sem það á að þjóna. Til að það gangi eftir þarf einhver lágmarkssamheldni að ríkja meðal viðkomandi almennings. Tungumál, saga og menning mynda samheldnina.

Til að hugmyndin um algild mannréttindi nái fram að ganga þarf alheimsstjórn, alheimslýðræði, alheimstungumál og alheimsmenningu. En engu slíku er til að dreifa og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. En það er hægt að auka samheldni samfélaga, og þar byrjum við heima hjá okkur.


Bloggfærslur 1. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband