Forsetakvabb eiginkvenna dæmdra glæpamanna

Dæmdir glæpamenn eiga oft fjölskyldu sem líður önn vegna glæpaverkanna. Það er óhjákvæmilegt - en menn eiga hvorki að njóta né gjalda fjölskyldunnar.

Fjölskyldur og makar dæmdra glæpamanna hafa í flestum tilvikum vit á því að halda sér til hlés. Undantekningin er eiginkonur dæmdra fjárglæframanna sem með ósmekklegum hætti væla opinberlega um börnin sín og hlutskipti þeirra í tengslum við dóma eiginmannanna.

Nýjasta útgáfan af ósiðum eiginkvenna glæpamanna er að þær herja á forseta Íslands og heimta að hann tali þeirra máli. Sumir fjölmiðlar eru nógu ósmekklegir til að magna upp vælið.

Eiginkonurnar ættu heldur að bæta ímynd eiginmanna sinna með því viðurkenna sekt þeirra. Í tilfelli fjárglæframannanna er ótvírætt að þeir frömdu glæpi. Við munum öll eftir líkunum. Þau hétu: Landsbanki, Íslandsbanki og Kaupþing.


Golf er deyjandi íþrótt - gott fyrir náttúruna

Þeim fækkar sem stunda golfíþróttina, sem reyndar er á mörkum þess að vera íþrótt, og er það náttúruvæn þróun. Tillögur um breyttar reglur eru viðurkenning á vanda þessarar iðju.

Golfvellir taka til sín græn engi og tún sem betur væru nýtt undir almenningsgarða þar sem fjölbreytt útivist væri í fyrirrúmi.

Erlendis er dýrmætu vatni sóað í þessa hálfgildingsíþrótt og ógrynni af eiturefnum eru notuð til að halda náttúrulegum vexti lággróðurs í skefjum. 

Golf er upphaflega iðja efnafólks og meira hugsuð sem tómstund en íþrótt. Enginn skaði er þótt golf leggist af.


mbl.is Stefnt að einföldun á golfreglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB þolir ekki lýðræði

Vegna lýðræðislegra kosninga í Bretlandi og Bandaríkjunum er Evrópusambandið í uppnámi. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean Claude-Juncker, býður upp á 5 ólíkar útgáfur af Evrópusambandinu, sem veit sjálft ekki í hvorn fótinn það á að stíga.

En um leið og æðstu embættismenn Brusselvaldsins viðurkenna að komið er að tímamótum; að ræða þurfi framtíð ESB er almenningi gert ljóst að ekki komi til greina að hann skipti sér af framvindu mála.

Stjórnmálaflokkar í Danmörku ríða á vaðið og tilkynna bandalag gegn lýðræði þegar ESB á í hlut. Aðeins valdamenn samfélagsins eiga að ákveða málefni Evrópusambandsins. Skýrara getur það ekki verið: ESB þolir ekki lýðræði, bókstaflega.


mbl.is Vilja ekki þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, Brexit og betri efnahagur

Þvert á spár vex efnahagskerfi Bandaríkjanna eftir sigur Trump í forsetakosningum. Brexit, þ.e. útganga Breta úr Evrópusambandinu, átti að vera slæmar fréttir fyrir efnahaginn. En það er öðru nær. Bretland er í fínum málum.

New York Times, sem keppist við að níða skóinn af Trump, birtir fréttaskýringu um jákvæðar horfur í bandarísku efnahagskerfi og leitar skýringa langt að og víða.

Kenning svartsýnna alþjóðasinna var að einangrunarstefna Trump og uppsögn Breta á alþjóðavæðingu í gegnum ESB yrði til að lama alþjóðavætt efnahagskerfi. Og allir myndu tapa.

En nú þegar við blasir að þau efnahagskerfi sem hafna alþjóðavæðingu sýna meiri vöxt en önnur er fótunum kippt undan þeirri skýringu að alþjóðavæðing sé forsenda betri efnahags.


mbl.is Í hvað fara allir þessir peningar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband