Fursti ræður trú; fullveldið eða ESB

Cuius regio, eius religio er niðurstaða Ágsborgarfriðarins frá 1555 þegar mótmælendur og kaþólikkar í Evrópu, einkum Þýskalandi, deildu um trúfrelsi og fullveldi. Niðurstaðan var að fullveldið (furstinn) réði trú þegnanna.

Evrópa samtímans er skipuð fullvalda ríkjum. Furstar miðalda eru ríkisstjórnir í dag. Í þeirra höndum er fullveldið enda meginreglan um að fursti ráði trú staðfest í Vestfalíufriðnum 1648, eftir 30 ára stríð mótmælenda og kaþólikka. Ríkisstjórnir ESB-ríkja hafa framselt fullveldið til Brussel, en aðeins að hluta.

Vandi Spánverja og Katalóna er að valdamiðstöð Evrópu er ekki lengur páfinn í Róm heldur Brussel. Evrópusambandið hefur í meira en hálfa öld boðað trú á sameinaða Evrópu, Stór-Evrópu, þar sem fullveldið er vaxandi mæli í höndum embættismanna í Brussel.

Katalónar vilja losna undan héraðsyfirvöldunum í Madríd og komast undir verndarvæng Brussel. En, óvart, æðstu handhafar Brussel-valdsins eru héraðshöfðingjar í höfuðborgum ESB-ríkja, Madríd meðtalin.

Katalónar eru milli steins og sleggju, Madríd og Brussel. Og Evrópusambandið er lamað. Það er með nógu mikil (trúar)völd til að verða að átrúnaði sjálfstæðisviljugra þjóða sambandsins en of lítil völd til að tryggja framgang lýðræðisvilja þjóða undir framandi fullveldi. Ágsborgarfriðurinn blívur enn; furstinn í Madríd trompar páfagarðinn í Brussel. Lýðræðið verður að aukaatriði.


mbl.is Dómstóll frestar fundi katalónska þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk lukkudýr

Frægir og flottir eru eftirsóttir á framboðslista stjórnmálaflokka. Verulega kveður að þessari markaðssetningu í útlöndum en til skamms tíma var íslensk stjórnmálamenning að mestu laus við nýmælið.

En verði þingkosningar árvissar eins og jólahaldið og framboðin nokkru meiri en eftirspurnin er hætt við að pólitísk lukkudýr verði meira áberandi.

Hugsunin að baki er að ef Snúlli Jolli frægur og flottur leggur nafn sitt við framboðslista hljóti að vera óhætt að merkja x við 'ann.

En x er óþekkt stærð, bæði í reikningi og pólitík.


mbl.is Biggi lögga í Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan jafnar kjörin, evran ylli misrétti

Krónan jafnar kjör okkar Íslendinga. Þegar vel árar hækkar gengið og almenningur nýtur bættra lífskjara. Í harðindum lækkar krónan og dreifir byrðinni.

Á Íslandi eru jafnari lífskjör en á nær öllum öðrum byggðum bólum. 

Björn Bjarnason gerir útttekt á skringilegri umræðu Viðreisnar og vinstriflokkana um að evran yrði okkar til bóta.

Evran myndi stórauka efnahagslegt misrétti á Íslandi.


Sturlungaöld - Glæpur og refsing hf.

Þjóðveldið var byggt á lögum án ríkisvalds. Það virkaði í um 300 ár, frá stofnun alþingis um 930 og fram á Sturlungaöld sem má telja að hefjist 1220. Veraldlegt vald og trúarlegt var í höndum goða, sem líklega voru um 40.

Ein ástæða fyrir því að þjóðveldið virkaði, kannski meginástæða, er að samfélagið myndaði fólk sem gjörþekkti hvert annað m.a. sakir skyldleika. Þjóðveldið fór forgörðum þegar tveir öflugir utanaðkomandi aðilar, Noregskonungur og kaþólska kirkjan, tóku höndum saman að bylta fyrirkomulaginu og innleiddu miðstýrt ríkis- og trúarvald.

Afleiðingin varð innanlandsófriður, Sturlungaöld, og Gamli sáttmáli, sem gerði Íslendinga að þegnum Noregskonungs. Í framhaldi yfirtók kaþólska kirkjan goðakirkjuna.

Það er falleg hugsun og rómantísk hjá David D. Friedman að hægt sé að endurvekja þjóðveldið í þeirri mynd að réttarfarið verði einkavætt. En það er óraunhæft. Ísland þar sem allir þekkja alla er liðin tíð og kemur ekki aftur.

Án nálægðarinnar sem fylgir fámenni er ekki hægt að reka samfélag sem byggir á lögum án ríkisvalds. Hlutafélög eins og Glæpur og refsing hf. koma ekki í stað ríkisvalds sem hvílir á meginreglum - stjórnarskrá.

 


mbl.is Lög og dómstólar verði í höndum einkaaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband