Frá hruni til stjórnleysis

Líkur eru á að sjö flokkar taki sæti á alþingi eftir þingkosningar á laugardag. Enginn flokkur fær meira en 30 prósent fylgi og allir, nema einn eða tveir, verða undir 15 prósentum.

Hvers vegna eru valkostirnir ekki skýrari?

Hrunið felldi ekki aðeins fjármálakerfið heldur einnig viðtekin stjórnmál. Fram að hruni voru viðtekin stjórnmál að Sjálfstæðisflokkurinn valdi sér samstarfsflokk í ríkisstjórn. Í tæp 20 ár, 1991 - 2009, starfaði móðurflokkurinn með tveim (þrem) öðrum: Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og nýja Alþýðuflokknum (Samfylkingu).

Við hrunið riðluðust viðtekin stjórnmál. Kjölfestan losnaði og þjóðarskútan varð að rekaldi. Hásetarnir (Samfylkingin) gerðu uppreisn, ráku skipstjórann, Geir H. Haarde, og stefndu honum fyrir landsdóm eftir kosningasigur 2009. Til fylgilags fékk Samfylkingin flokkinn sem var stofnaður til að verða eilífur mótmælandi og óstjórntækur eftir því - Vg.

Sjálfstæðisflokkurinn riðaði til falls. Ættarskömm helstu fjölskyldu móðurflokksins stökk fram á sviðið og efndi til flokksnefnu með það eitt hlutverk að liggja undir Samfylkingu.

Kemur þá til sögunnar bjargvættur borgaralegra stjórnmála, Sigmundur Davíð. Kosningasigur hans 2013 tryggði tveggja flokka stjórn bæjaríhaldsins og framsóknarsveitarinnar.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Góða fólkið í vinstrinu komst í feitt þegar upplýst var að eiginkona Sigmundar Davíðs átti peninga á útlenskum bankareikningi fyrir hrun. Í boði RÚV var bjargvætturinn krossfestur. Sveitavargurinn, sérstaklega sporgöngumenn Haukdæla og Gissurar jarls, bætti um betur og felldi bjargvættinn af formannsstóli á meðan hann var negldur á RÚV-krossinum. En þrátt fyrir mótlætið brotnar hann ekki og er mættur til leiks á ný.

Eftir fall Sigmundar Davíðs-stjórnarinnar tók við stjórnarkreppa sem enn stendur. Kosningar 2016 og aftur á laugardag.

Í umróti stjórnleysis er að finna skrautlega fugla. Ættarskömmin, sem vill veðsetja fjölskyldusilfrið til Brussel; sniffandi stelpuglennu sem leikur sjóræningja; upploginn stærðfræðing með perraáráttu; hassreykjandi ráðherra; mannorðsmorðingi að norðan; sauðdrukkinn kverúlant úr Skagafirði og kúlulánadrottning úr Hafnarfirði.

Stjórnmál án kjölfestu eru óreiða. Eftir tvo daga getum við aukið á óreiðuna eða dregið úr henni. Valið er okkar. En aðeins í einn dag.

 


Samfélagsmiðlablaðamennska

Í Hlíðamálinu óð á súðum fjölmiðla orðfæri og tilfinningahiti sem jafnan er kenndur við samfélagsmiðla. Fjölmiðlar tóku þátt í skyndiréttarhöldum þar sem æra manna var troðin í svaðið.

Hlíðamálið er náskylt geðshræringunni vegna hundsins Lúkasar sem þjóðsaga spannst um að væri hart leikinn af nafngreindum manni. En Lúkas sem sagt skrapp á fjall.

Samfélagsblaðamennska fjölmiðla keyrir reglulega um þverbak, samanber Sjanghæ-mál RÚV og dulúð á Efstaleiti.

Er ekki mál að linni?


mbl.is Fréttamenn dæmdir til að greiða bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsstjórn eða ESB-stjórn

Á laugardag verður kosið um hvort vinstriflokkarnir fái umboð til að etja þjóðinni á ESB-foraðið á ný með tilheyrandi pólitískum skotgrafahernaði eða hvort fullveldisflokkar fái stuðning þjóðarinnar til að stjórna landinu.

Vinstriflokkarnir Píratar, Samfylking, Vinstri grænir eru ásamt Viðreisn þess albúnir að efna til innanlandsófriðar fyrir ónýtan málstað.

Kjósendur ættu að halla sér að hófsamari stjórnmálaflokkum.


mbl.is Leggst ekki gegn ESB-kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð tekur sviðið

Tveim dögum fyrir kosningar er Sigmundur Davíð orðinn brennipunktur umræðunnar. Miðflokkurinn er í færi að verða þriðji stærsti flokkur landsins.

Sigmundur Davíð hugsar í stórum lausnum og á feril að baki sem sýnir að það eru ekki orðin tóm. Í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs var gert upp við þrotabú föllnu bankanna þannig að ríkissjóður stóð eftir með fullar hendur fjár. Umsátri vinstristjórnar Samfylkingar og Viðreisnar um heimili landsmanna var aflétt með skuldaleiðréttingunni.

Og sem fyrr hamast vinstrimenn á Sigmundi Davíð fyrir að vera allt það sem þeir eru ekki: lausnamiðaður bjartsýnismaður.


mbl.is Verði ekki hægt að misnota kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband