Um rasisma og menningu

Rasismi er kynþáttahyggja þar sem einn kynþáttur er sagður öðrum æðri. Rasismi verður fullveðja á 19. öld þegar hvítir Evrópumenn réttlættu kúgun og þrælahald á þeldökkum Afríkubúum.

Á 20. öld þróast rasismi áfram, t.d. í Þriðja ríkinu, með alkunnum afleiðingum.

Enginn heilbrigður maður aðhyllist rasisma sem hér að ofan er lýst. Í pólitískri umræðu, ekki síst hér á landi, er hugtakið rasisti notað sem brigslyrði um þá sem gjalda varhug við óheftum innflutningi fólks frá framandi menningarsvæðum.

Reynsla Vestur-Evrópu af innflutningi fólks er því verri sem fólkið kemur lengra að. Þannig eiga Þjóðverjar ekki í vandræðum með að innbyrða milljónir Austur-Evrópubúa og þýskvæða. Aftur er það nokkrum vandkvæðum bundið, svo vægt sé til orða tekið, að aðlaga innflytjendur frá múslímaríkjum að þýskum siðum og háttum. Um þetta þarf ekki að deila. Reynslan er þar ólygnust.

Þjóðverjar og aðrar Vestur-Evrópuþjóðir eru óðum að herða kröfur til innflytjenda um að þeir tileinki sér menningu viðtökulandsins. Jafnframt er vaxandi fylgi við að stemma stigu við fjölda innflytjenda. Þessi umræða er ekki rasísk í neinum skilningi þess orðs.

Málið snýst um menningu. Þjóðir Vestur-Evrópu óttast að innflytjendastraumurinn grafi undan grónum gildum samfélagsins. Til skamms tíma var vinsælt að nota hugtakið ,,fjölmenning" í stað þjóðmenningar. Hugtakið er komið í ónáð. Ástæðan er sú að fjölmenning er með innbyggða mótsögn.

Fjölmenning gerir ráð fyrir að ólíkir menningarheimar þrífist hlið við hlið undir sama yfirvaldinu. En menningin skilgreinir afstöðu okkar til laga og réttar, stjórnskipunar og ekki síst mannréttinda. Þar af leiðir getur menning sem mismunar kynjunum, svo dæmi sé tekið, ekki blómstrað við hlið menningar sem lætur sér annt um jafnrétti karla og kvenna. Annað tveggja verður að víkja.

Vaxandi ótti er í Vestur-Evrópu að viðurkennd vestræn gildi, s.s. mannréttindi, eigi undir högg að sækja vegna aðstreymis fólks sem er með allt aðrar hugmyndir um mannréttindi.

Umræðan um stöðu vestrænnar menningar er ekki rasísk þótt fjölmenningarsinnar sumir hverjir haldi því fram.


Hælisleitendur og sjálfsvitund þjóðar

Hælisleitendur eru mál málanna í austurrísku þingkosningunum. Í þýsku útgáfunni Die Welt skrifar Henryk M. Broder, sem er hálfur Austurríkismaður, að spurningin um hælisleitendur snerti sjálfsvitund þjóðarinnar.

Þegar Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið, í Brexit-kosningunum, voru málefni hælisleitenda og innflytjenda afgerandi þáttur í umræðunni.

Hér á Íslandi eru þeir sem impra á málefnum hælisleitenda óðara stimplaðir sem rasistar. Sjálfsvitund góða fólksins ræður ferðinni.


mbl.is Stefnir í skarpa hægrisveiflu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband