Færsluflokkur: Dægurmál

Atvinnurekendum þarf að fækka

Atvinnurekstur er í þágu samfélagsins. Þessi sannindi gleymdust á útrásartímabilinu þegar atvinnurekendur töldu fólki trú um að almenningur væri til fyrir sakir fyrirtækja. Augljóst er að skera þarf frekar niður í atvinnurekstri sem stendur ekki undir meiri launakostnaði en nemur 145 þús. kr. á mánuði á starfsmann.

Auðveldasta leiðin til að megra atvinnulífið er að hækka vexti. Í kjölfarið fækkar vonlausum fyrirtækjum, krónan styrkist og verðbólga lækkar.


mbl.is Atvinnurekendur fá ekki starfsmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðir, eiginkona og auðmaður

Móðir Hreiðars Más Sigurðssonar forstjóra Kaupþings stundaði ábatasöm viðskipti við bankann sem sonurinn stýrði. Eiginkona Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra Spron seldi hlutabréf í bankanum kortéri áður en þau hrundu í verði.

Hvort sem auðmennirnir voru í hlutverki sona eða eiginmanna lögðu þeir sig fram að auðga aðra en sjálfa sig.


Baugsmaður til Brussel

Þorsteinn Pálsson fráfarandi ritstjóri Fréttablaðsins er sagður líklegur til að leiða samninganefnd utanríkissráðherra til að semja um aðild að Evrópusambandinu. Þorsteinn er húsbóndahollur maður. Þegar hann var á mála hjá Baugi trúði hann að hvítt væri svart; að Jón Ásgeir Baugsstjóri væri góður og gegn maður sem ekki misnotaði fjölmiðla sína.

Þorsteinn skrifaði leiðara eftir leiðara þar sem sagði að Baugur væri stærsti minnihlutaeigandinn að Fréttablaðsútgáfunni og því væri rangnefni að tala um Baugsmiðla. Maður jafn laustengdur við veruleikann hentar prýðilega í samninganefnd Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra.

Sjálfsagt trúir Þorsteinn því að hann yrði með annað og meira en umboð frá Samfylkingunni til að semja við Brusselvaldið.


Krónan og fullveldið

Krónan og fullveldið eru meginforsendur fyrir því að við getum unnið okkur tiltölulega hratt úr kreppunni. Krónan dreifir kostnaðinum með því að lækkun hennar kemur jafnt niður á öllum (nema myntkörfulántakendum); hún dregur úr innflutningi, gerir atvinnulífið samkeppnishæfara og stuðlar að útflutningi vöru og þjónustu.

Fullveldið leyfir okkur að gera ráðstafanir innanlands á okkar forsendum. Ef við værum í klóm Evrópusambandsins, eins og Lettar, værum við í erfiðari stöðu.

Tímabært er að draga tilbaka umsóknina sem aldrei átti að senda.


mbl.is Krónan hefur sína kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atlaga að frjálsri umræðu

Útrásarauðmenn stefna blaðamönnum og formaður þingflokks Samfylkingarinnar hótar að beita sér fyrir lagasetningu á málfrelsi. Ætla mætti að frjáls umræða væri þjóðfélagsvandamál númer eitt á Íslandi.

Tilburðir til að þagga niður í gagnrýni eru klæddir í skraut um vörn gegn nafnlausum færslum á netinu. Löngu fyrir daga netsins voru nafnlausar færslur í dagblöðum og svokallaður almannarómur hefur verið nafnlaus frá því að land byggðist.

Nafnlausar færslur eru ekki vandamál sem krefst valdboða. Aftur er framferði valdhafa slíkt að rót kemst á huga friðsömustu einstaklinga. Þá er gott að geta skrifað færslu, undir nafni eða ekki.


Stjórnkerfið í vinnu fyrir ESB

Íslenska stjórnsýslan verður upptekin næstu misserin, ekki við að rétta af þjóðarskútuna, heldur við að svara þúsundum spurninga frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Spurningalistinn er hluti af inngönguferlinu, sem ríkisstjórnin kallar umsóknarferli, og felur í sér ítarleg svör við því hvernig Ísland ætlar að taka yfir pappírsflóðið sem kemur frá Brussel.

Á meðan stjórnsýslan finnur út hvernig staðið verður að innleiðingu regluverksins frá Evrópusambandinu verða önnur mál hornreka. 

Fljótfærni og handvömm ríkisstjórnarinnar á eftir að verða okkur dýrkeypt.


Björgvin vælir og hótar þöggun

Björgvin G. Sigurðsson þingmaður og fyrrverandi viðskiptaráðherra birtir merkilegan samsetning á útrásarvefsetrinu pressan.is um það sem hann kallar skipulega aðför að æru sinni. Samkvæmt Björgvini hefur einhver eða einhverjir í skjóli nafnleyndar borið út að þingmaðurinn hafi sést drukkinn og haldið framhjá eiginkonunni.

Ljótt ef satt er og skilyrðislaust ber að fordæma háttsemi af þessu tagi. Hins vegar fer illa á því að maður í stöðu Björgvins blási út nafnlaus meiðyrði gegn sér og hóti öllu illu. Eftirfarandi tilvitnun er hrollvekja.

Ljóst er að verulega þarf að skýra lög um ærumeiðingar og refsiábyrgð vegna hennar og mun ég beita mér að öllu afli til þess að hún fari fram og gangi hratt.  

Á stuttum starfstíma í pólitík hefur Björgvin G. lagst gegn fjölmiðlafrumvarpi sem átti að takmarka tangarhald auðmanna á fjölmiðlum og hann skrifaði sem viðskiptaráðherra glæran klappstýrutexta um útrásina, en sá texti þolir ekki lengur dagsins ljós.

Vælið í Björgvini G. er skrifað í pólitískum tilgangi. Hann er enn að þjóna þeim viðrinum sem gerðu hann út af örkinni í ríkisstjórninni sem hann sat. Ekkert væri föllnu útrásarauðmönnunum kærara en meiri þöggun.

Fáðu þér annað starf Björgvin G.

 


Beygður eða brotinn Steingrímur J.?

Stjórnmálaspurning helgarinnar er hvort Steingrímur J. Sigfússon formaður Vg og fjármálaráðherra sé beygður eða brotinn. Beygður maður getur rétt úr sér, brotinn ekki.  Mælikvarðinn á formanninum er afstaðan til Evrópusambandsaðildar.  

Á flokksráðsfundi í byrjun desember á síðasta ári reyndu Steingrímur J. Sigfússon formaður og nánasti samverkamaður hans, Árni Þór Sigurðsson, að milda afstöðu flokksins til Evrópusambandsins. Þeir voru gerðir afturreka og ályktun fundarins var fremur snautleg en tiltölulega skýr. „Hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB," stóð þar. Ekkert meira en heldur ekkert minna.

Starfsstjórn Samfylkingar og Vg hafði eðli málsins samkvæmt ekkert annað á dagskrá sinni en að bregðast við aðsteðjandi vanda veturinn og vorið 2009. Engum blandaðist hugur um að Samfylkingin myndi gera umsókn að Evrópusambandinu að höfuðmáli fyrir kosningar og gekk það fram.

Formaður Vg þurfti að skapa sér möguleika að semja við Samfylkinguna og líkindi að hann hafi átt viðræður um málið við forystumenn þar á bæ. Á landsfundi var Árni Þór enn gerður út af örkinni og honum tókst að fá eftirfarandi samþykkt um Evrópumál.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.

Textann er hægt að klippa til og fá út að landsfundurinn hafi opnað á að leggja inn aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Þegar Steingrímur J. reyndi að afsaka svik flokksins við hornstein róttækra vinstristjórnmála alla lýðveldissöguna snyrti hann textann svona til, í bréfi til flokksmanna 17. júlí, daginn eftir að Steingrímur J. og klíka hans í þingflokknum hafði staðið að samþykkt ályktunar um aðildarumsókn.

 

Þannig er þessi niðurstaða vel samrýmanleg landfundarályktun í mars síðastliðnum sem lögð var fram í kjölfar mikils starfs innan flokksins sem allir flokksmenn gátu tekið þátt í.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vissulega voru uppi hugmyndir um leiða málið til lykta á annan hátt og mörgum innan okkar raða er það óljúft að standa yfir höfuð að nokkurri hreyfingu málsins í þessa átt. Ég dreg enga dul á að þetta mál hefur verið erfitt fyrir mig eins og okkur öll enda hefur flokkurinn frá upphafi tekið afstöðu gegn aðild Ísland að sambandinu. Þessi leið varð hins vegar niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna við Samfylkinguna

 

Steingrímur J. veit upp á sig klækjapólitíkina og vill dreifa ábyrgðinni á flokksmenn. Ekki aðeins fórnaði hann stefnuyfirlýsingunni um að Ísland stæði utan Evrópusambandsins heldur líka varnaglanum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Til að þjóðaratkvæðagreiðsla verði bindandi þarf að breyta stjórnarskrá og þar með boða til kosninga. Sitjandi ríkisstjórn ætlar sér framhjá þeirri hindrun með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna ráðgefandi.

Ef Steingrímur J. og stuðningsmenn hans ætla að telja okkur trú um að formaður Vg sé beygður en ekki brotinn verða þeir að rísa upp og taka til við að berjast af alefli gegn inngönguferli Íslands í Evrópusambandið.

 

 


Steingrímur J. tekur þjóðina í gíslingu

Hafni Bretar eða Hollendingar Icesave-lögunum er ríkisstjórnin búin að vera. Stjórnmálaferill Steingríms Jóhanns Sigfússonar er þar með farinn í vaskinn. Bakland formanns Vg er eyðimörk vegna svika hans í ESB-málinu og hans eina von er að fá að sitja sem ráðherra og bæta fyrir mistökin 16. júlí.

Steingrímur J. telur að himinn og jörð farist ef Icesave-lögin verði tilefni til nýrra samninga við Breta og Hollendinga. Það er rakið bull sé haft í huga að við munum fyrst fara að greiða af skuldbindingum okkar eftir sjö ár og þetta er smámynt hjá viðsemjendum okkar.

Steingrímur J. ruglar saman sinni eign stöðu sem stjórnmálamanns og stöðu þjóðarinnar. Svikahundurinn frá Þistilfirði er tilbúinn að leggja samfélagið í rúst - aðeins ef hann fær að halda völdum. 

 


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátklökkar fjölskyldur og ríkisstjórn í felum

Vandi heimilanna átti að  vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar. En vegna þess að stjórnin þvældi sér út í önnur mál og óskyld, ESB-umsókn, og klúðraði öðrum, Icesave, er örendið þrotið og ráðherrar farnir í felur. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur dreit á sig á fyrsta degi, þegar hún samdi um svik Vg við kjósendur sína til að þjóna grillupólitík Samfylkingarinnar í Evrópumálum. Ríkisstjórn stofnuð í kringum rugl verður alltaf í tómu tjóni.

Tveir höfundar, Marinó G. Njálsson, og Ólafur Arnarson taka stjórnina á kné sér í dag og spyrja um efndir. Ríkisstjórnin mun engu svara enda hefur hún ekkert að segja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband