Frumþörfin og fótbolti

Í fótbolta finna menn hetjur og skúrka á leikvellinum. Framkvæmdastjórar tala í hálfkveðnum vísum líkt og hofguðir forðum.

Fótboltinn svarar sem sagt tveim frumþörfum mannsins, fyrir ævintýri og dultrú. Upphafsverk vestrænna bókmennta, Ilíonskviða Hómers, er sígilda útgáfan um tvö lið að berjast um heiður. Liðstjórarnir Menelás og Priam skipulögðu, guðirnir ýmist veittu brautargengi eða ónýttu fyrirætlanir og hetjurnar voru breyskar, fóru t.a.m. í fýlu eins og Akkiles.

Í nútímanum er ævintýrið leiktíðin frá ágúst til maí. Enskir bjóða á jólum upp á hátíðarútgáfu með mörgum leikjum.

Pep Guardiola, heimspekilegastur ensku stjóranna, hittir naglann á höfuðið þegar hann segir fótboltann óútreiknanlegan.


mbl.is Liverpool og Tottenham betri en við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-friður í Jerúsalem

Fyrir ári tilkynnti Trump að sendiráð Bandaríkjanna yrði flutt til Jerúsalem. Arabar brugðust við með fjöldamótmælum og vestrænir fjölmiðlar spáðu öldu hryðjuverka. Ekki gekk það eftir.

Jerúsalem þrífst á vaxandi ferðamennsku og bæði gyðingar og arabar njóta góðs af, segir í Die Welt.

Samhliða ákvörðun Trump um flutning á sendiráðinu var dregið úr bandarískum fjárstuðningi til palestínuaraba. Þeir arabísku höfðu komist upp með að stunda hryðjuverk gegn bandarískum þegnum en fá engu að síður bandarískt skattfé í þróunaraðstoð. Hingað og ekki lengra, segir Trump, og gerir palestínuaraba ábyrga fyrir tjóni bandarískra þegna.

Arabar höfðu komist upp með að bíta höndina sem fóðraði þá. Skamm, segir Trump, og þeir arabísku tileinka sér betri mannasiði.

 


Evrópskir Trump fordómar staðfestir

Stórútgáfan Der Spiegel í Þýskalandi sendi stjörnublaðamann sinn í smábæinn Fergus Falls í Minnesota í Bandaríkjunum. Meirihlutinn í Fergus Falls kaus Trump. Verkefni útsendara Spiegel var að bregða ljósi á bæjarbúa í Trump-samfélagi. 

Blaðamaðurinn fékk heila 38 daga í verkefnið og skilaði af sér ritgerð fremur en blaðagrein um kjósendur Trump. Der Spiegel birti það sem pantað var: ítarlega úttekt á heimskum og illa gerðum kjósendum Bandaríkjaforseta. Þeir eru rasískir, fákunnandi, ósigldir, menningarsnauðir og dólgslegir. 

Ritstjórum Der Spiegel yfirsást eitt smáatriði. Ritgerðin er uppspuni, falsfrétt, skáldskapur stjörnublaðamannsins margverðlaunaða, Claas Relotius.

Lúpulegir senda ritstjórar Spiegel annan blaðmann til að biðja bæjarbúa í Fergus Falls afsökunar. Blaðamaðurinn fær þrjá daga að hafa uppi á helstu heimildamönnum Relotius og leita eftir fyrirgefningu.

Bæjarbúar í Fergus Falls eru stórir í sniðum og taka þýska útsendarann í sátt.

Blaðamaður Spiegel biðst ekki afsökunar á þeim fordómum sem voru ástæða þess að falsfréttamaðurinn Claas Relotius var upphaflega gerður út til að draga upp mynd af kjósendum Trump.

Fordómarnir eru nefnilega ekta.


mbl.is „Ég er aleinn í Hvíta húsinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylting að ofan í Evrópu

Gulvesta-mótmælin í Frakklandi beindust að hluta gegn Evrópusambandinu. Rétta svarið við mótmælunum er að bylta Evrópu að ofan, með því að gera ESB að einu Evrópuríki, segir einn helsti talsmaður frjálslyndra vinstrimanna á Evrópuþinginu.

Guy Verhofstadt, fyrrum forsætisráðherra Belgíu, og forseti bandalags frjálslyndra á Evrópuþinginu, segir í grein að Stór-Evrópa, með sameiginlegum herafla, einum fjárlögum og fullveðja ríkisvaldi geti mætt kröfum íbúa álfunnar um hagsæld og innra sem ytra öryggi.

Á síðustu árum gengur stjórnmálaþróun í Evrópu í þveröfuga átt við það sem Verhofstadt óskar sér. Brexit og framgangur stjórnmálaflokka sem vilja minni ESB en ekki Stór-Evrópu er órækur vitnisburður um kulnaðar glæður hugsjónar um sameinaða heimsálfu.

Tillaga Verhofstadt veitir innsýn í vaxandi örvæntingu ráðandi afla í Evrópusmabandinu. Macron Frakklandsforseti átti að vera svarið við hnignun ESB. Bandalag Macron og Merkel í Þýskalndi skyldi veita forystu í umsköpun sambandsins. Gulvesta-mótmælin lömuðu Macron og Merkel ætlar að draga sig í hlé frá stjórnmálum.

Mótsögn ESB er að sambandið er of sterkt til að þjóðríkin innan þess geti svarað kröfum kjósenda um endurbætur á skipan efnahagsmála og í málefnum innflytjenda en of veikt til að móta sameiginlega stefnu í þessum málaflokkum. Undir þessum kringumstæðum yrði bylting að ofan hreint og klárt valdarán.

 

 

 

 


Trú, fals og samfélagsmiðlar

Fésbók tengir fólk og er líka góð viðskipti, segir stofnandi samfélagsmiðilsins, Mark Zuckerberg. Á árinu sem senn er liðið tapaði Zuckerberg 15 milljörðum bandaríkjadala.

Auðvitað á stofnandi Fésbókar enn fyrir salti í grautinn og tekur tapinu af karlmennsku. Aftur er erfiðara að meta tap og gróða þess að ,,tengja fólk", sem á að vera aðall Fésbókar og samfélagsmiðla.

Áður en samfélagsmiðlar komu til sögunnar tengdist fólk í gegnum fjölskyldur, búsetu, atvinnu og fjölmargar stofnanir, s.s. kirkju, fjölmiðla, þjóðríki og svo framvegis. Allt er þetta enn fyrir hendi en samfélagsmiðlar tóku til sín stóran hluta innihaldsins. Sumar stofnanir, t.d. fjölmiðlar, eru ekki svipur hjá sjón eftir innreið samfélagsmiðla í almannarýmið.

Líf á samfélagsmiðlum er auðvelt að falsa. Ef maður kemur rytjulegur á vinnustaðinn og segist hafa það bara þrælgott, takk fyrir, en ásýnd manns og yfirbragð segir allt aðra og sannari sögu þá kemst maður ekki upp með blekkinguna. Aftur getur maður verið í sjálfsvígshugleiðingum en birt brosandi sjálfu á Fésbók og þægilega logið að ,,vinum" sínum að allt sé  í himnalagi.

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, segir orðskviðan. Samfélagsmiðlar tryggja örugga fjarlægð en ímyndaða nánd. Falslíf á Fésbók er freistandi. Vellíðun fylgir því að fá ,,læk" og safna ,,vinum" sem maður sýnir ímynd af sjálfum sér.

Falsað einkalíf kallast á við falskt almannarými en algengasta útgáfan af því er falsfréttir. Þótt falsfréttir hafi fylgt fjölmiðlum frá öndverðu margfölduðust þær með samfélagsmiðlum.

Áður tengdist fólk trúnni í gegnum fjölskyldu og stofnanir. Fésbók og aðrir samfélagsmiðlar sem ,,tengja fólk" gera fjölskyldu og stofnanir að óþarfa milliliðum að handanheimi sem er meira sannfærandi en ritmál af fæðingu frelsarans. Trú samfélagsmiðla er að hægt sé að tengjast öðrum manneskjum með myndum og texta í símskeytastíl. Altarið er ýmist tölvuskjár eða snjalltæki. Þarf maðurinn meira?

Gleðileg jól.   


Gott fólk og vont

Aðalábyrgðarmaður braggamálsins, Dagur B. borgarstjóri, tilheyrir góða fólkinu og er sem slíkur undanþeginn vondri umræðu, skrifar samflokksmaður Dags og forveri í embætti borgarstjóra, Jón Gnarr.

Góða fólkið er ekki spillt, er vörn Jóns, heldur er kerfið ónýtt.

Sérstaklega misbýður fyrrverandi borgarstjóra að fulltrúi vonda fólksins, Vigdís Hauksdóttir, skuli fá ,,fyrirsögn" á Ríkisútvarpi vinstrimanna. Jón spyr með þjósti: ,,Hver er eig­in­lega í al­vöru að pæla í því hvað henni finnst?"

Góða fólkið gerir ekkert rangt og vonda fólkið á ekki að komast að í fjölmiðlum, er uppskrift Jóns Gnarr að heilbrigðum stjórnmálum. Jón hefur áður gefið yfirlýsingu hvar góða fólkið eigi heima: í Samfylkingunni.


mbl.is Sakar Jón Gnarr um kvenfyrirlitningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstriútgáfa: Trump og Pútín gætu tortímt jörðinni

Trump og Pútín gætu fyrir ásetning eða mistök tortímt jörðinni með kjarnorkuvopnum og við getum lítið sem ekkert gert við því, segir í fréttaskýringu vinsællar útgáfu frjálslyndra og vinstrimanna, Guardian.

Guardian var til skamms tíma fremur yfirveguð útgáfa og leiðbeindi frjálslyndum vinstrimönnum hvaða skoðun þeir ættu að hafa á stærri og smærri málum. En síðustu misseri verður æ algengara að útgáfan gefi sig á vald móðursýki um að veröldin sé á barmi hengiflugsins.

Heimsendaspámennska vinstriútgáfunnar gefur sér að tveir menn, Trump og Pútín, séu þess albúnir að valda óbætanlegum skaða á jarðkringlunni.

Rétt er að forsetarnir tveir hafa, hvor á sína vísu, gengið af frjálslyndri vinstripólitík dauðri. Farið hefur fé betra.


mbl.is Trump sagður vilja reka seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VR í herferð gegn andlegri heilsu launþega

Sjúkrasjóður VR tæmist, ekki síst vegna andlegrar líðan launþega s.s. streitu og kulnunar. Á sama tíma stendur VR fyrir herferð sem dregur upp þá mynd af atvinnurekendum að þeir beinlínis stuðli að vanlíðan starfsfólks með ómanneskjulegri framkomu.

Herferðin með Georg Bjarn­freðar­son­ í aðalhlutverki beinlínis hvetur launþega til að líta á sig sem leiksoppa ofurselda duttlungum atvinnurekenda er koma illa fram við starfsfólk sitt. Þótt reynt sé að klæða skilaboðin með aulafyndni eru þau ótvíræð: vanlíðan er eðlilegt ástand við ömurleg starfsskilyrði.

Ef fólki er sagt að því eigi að líða illa og ástæður gefnar, t.d. ömurleg kjör og hörmulegar starfsaðstæður, eru meiri líkur en minni að fólk taki ábendingunni og fari að líða illa. Í framhaldi fær það vottorð og sækir launin sín í sjúkrasjóð.

 


mbl.is „Ódýrasta herferð“ VR frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góða fólkið afsakar fjöldamorð múslíma

Múslímsk fjöldamorð á vesturlöndum er orðin reglulegt fyrirbrigði. Morðingjarnir eru iðulega með feril að baki sem smáglæpamenn.

Góða fólkið er jafnan tilbúið að afsaka fjöldamorð múslíma eins og í meðfylgjandi frétt og segja að viðkomandi ,,hafi öfga­væðst inn­an veggja fang­els­is­ins."

Tvennt er athugavert við þennan málflutning. Í fyrsta lagi eru glæpir almennt og yfirleitt öfgar. Þeir sem víkja af vegi dyggðarinnar og fremja glæpi eru samkvæmt skilgreiningu haldnir öfgum - segja skilið við viðurkennt siðferði.

Í öðru lagi, og í framhaldi af fyrri forsendunni, er rangt að tala um að verðandi fjöldamorðingjar ,,öfgavæðist" í fangelsi. Þeir einfaldlega finna réttlætingu fyrir sínu auma lífi og kalla morð trúarjátningu með vísun í helgiritið Kóraninn og fyrirmyndina spámanninn skeggjaða.

Múslímsku fjöldamorðingjarnir eru flestir með ríka sjálfsmorðshneigð. Þeir beinlínis gera ráð fyrir að vera drepnir. Múslímatrúin veitir morðingjunum tilgang og réttlætingu fyrir sjálfsmorði um leið og þeir taka líf saklausra borgara.

Góða fólkið neitar að horfast í augu við þá staðreynd að múslímatrú, eins og hún er skilin og iðkuð, er vandinn, ekki einstakir smákrimmar með sjálfsmorðshneigð sem ,,öfgavæðast" upp úr þurru.


mbl.is Lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV reynir að þvo hendur Dags

Ólöglegar greiðslur og gagnaeyðing til að fela lögbrotin eru meðal þess sem Dagur borgarstjóri vill ekki axla ábyrgð á í Braggamálinu alræmda.

Hvað gerir RÚV? Jú, í aðalfréttaskýringaþættinum, Speglinum, flytur RÚV langa útskýringu að víða sé pottur brotinn í útboðum opinberra aðila.

Á mannamáli heitir þetta að drepa málinu á dreif. RÚV er sem fyrr almannatengill vinstristjórnmála.


mbl.is Víkur sjálf ef Dagur víkur ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband