Sýndu reisn Þorsteinn og ljúktu málinu

Seðlabanki Íslands stóð fyrir rannsókn á bókhaldi Samherja vegna gruns um að reglur um gjaldeyrisviðskipti hafðu verið brotnar. Málið fór sína leið í réttarkerfinu og fékk Samherji sigur í Hæstarétti.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri má vel við una að fá sýknu í Hæstarétti. Aftur er verra að Þorsteinn kostar kapps að knésetja Seðlabankann í framhaldi.

Seðlabankinn verndar fjöregg þjóðarinnar, krónuna, sem kemur næst fullveldinu að mikilvægi í lýðveldinu. Í sjálfu hruninu og í framhaldi stóð bankinn vaktina, oftast með sóma og jafnvel glæsibrag. Það þýðir ekki að bankinn sé hafinn yfir gagnrýni eða að ekki hafi verið gerð mistök. Í umrótinu við hrunið og eftirmálum þess hefði margt mátt betur fara í stjórnsýslunni. En heildarmyndin er engu að síður þessi: stjórnkerfið stóðst álagið.

Þorsteinn Már yrði maður að meiri að láta gott heita eftir sigur í Hæstarétti. Og láta þjóðina njóta forystu Seðlabankans í peningamálum. Sú forysta er farsæl.


mbl.is „Þessu máli verður að ljúka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín hvetur konur til að mismuna körlum

Forsætisráðherra gefur það út að konur í valdastöðum eigi að hygla konum á kostnað karla.

Æ fleiri konur komast í valdastöður í samfélaginu, Katrín Jakobsdóttir er talandi dæmi.

Það er ekki í anda jafnréttis að hvetja til þess að annað kynið mismuni hinu.

Vinsamlega leiðréttu skilaboðin, Katrín.


mbl.is Konur auki tækifæri annarra kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-rökin í þriðja orkupakkanum

Hræðsluáróður Íslenska-ESB-ráðsins vegna þriðja orkupakkans er endurvinnsla á Icesave-áróðrinum: ef þið samþykkið ekki pakkann verður Ísland Kúba norðursins.

Jafnhliða er sagt að engu breytir þótt orkupakkinn sé samþykktur ,,ákvæði hans fela hvorki í sér valda­framsal til Evr­ópu­sam­bands­ins, af­sal for­ræðis yfir orku­auðlind­un­um né skyldu til að leggja sæ­streng til Íslands."

En það liggur fyrir að ríkisvald er framselt. Evrópusambandið fær valdheimildir yfir íslenskum málum með innleiðingu orkupakkans. Og sæstrengur er ræddur sem bein afleiðing af innleiðingunni.

Íslenska-ESB-ráðið starfar í þágu stórveldisins í Brussel og vill að við trúum að hvítt sé svart.


mbl.is Harma rangar upplýsingar um áhrif orkupakkans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína, endalok vestræns lýðræðis og Trump

Kína átti samkvæmt kenningunni að verða lýðræðisþjóðfélag eftir því sem velmegun jókst. Veruleikinn hafnaði kenningunni. Millistéttin í Kína óx en sættir sig við kommúnísk stjórnvöld. Kannski einmitt vegna þess að undir kommúnisma urðu landsmenn ríkir.

New York Times endursegir kenninguna sem brást í frásögn af uppgangi Kínverja síðustu áratugi.

Allt frá hruni sovésku útgáfunnar af kommúnisma er staðföst trú vestrænnar elítu að lýðræði komi í kjölfar velmegunar. En eins og Marx gamli sagði endurtekur sagan sig, fyrst sem harmleikur, einkavæðingin í Rússlandi, en síðan sem farsi - samanber lýðræði í Kína.

Hvað gera bændur þá? Jú, drög að svari er að kjósa yfir sig karla eins og Trump. Hann er ekki beinlínis holdtekja lýðræðis en kann réttu svörin við ólýðræðislegu útgáfunni af kapítalisma sem rekin er í Kína.

Rök standa til þess að við horfum upp á endalok vestræns lýðræðis í þeirri mynd sem það tók á sig eftir seinni heimsstyrjöld. Við getum ekki sagt, líkt og Hegel, lærifaðir Marx, að ef kenningin rímar ekki við veruleikann verður að skipta út raunveruleikanum.

Vesturlönd eru fremur illa undir það búin að takast á við harðnandi heim. Í okkar heimshluta er krafan um örugg rými í háskólum, til að losna undan áreitni ágengra hugmynda. Eins og heimspekikúrekinn John Wayne sagði; lífið er erfitt og því erfiðara sem þú ert heimskari. 


Segir Björn Leví af sér þingmennsku?

Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, reiddi hátt til höggs þegar hann sakaði samþingmann um fjársvik.

Höggið geigaði.

Segir Björn Leví af sér þingmennsku? Eða ætlar hann ekki að axla ábyrgð?


mbl.is Hátterni ekki andstætt siðareglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sæstrengur fylgir 3 orkupakkanum

Forstjóri Landsnets boðar sæstreng til Evrópu í fari svo að alþingi samþykki þriðja orkupakkann. Sæstrengurinn yrði lagður í þágu Evrópusambandsins og undir yfirstjórn Brussel.

Þar með yrði Ísland orkuhjálenda ESB.

Auðvitað segir forstjórinn að sæstrengurinn yrði lagður til að tryggja öryggi Íslendinga. Það er eitthvað svo óöruggt að búa á Íslandi án þess að vera kominn upp á náð og miskunn stórveldis. 


Allt ofbeldi er kynbundið

Ef karlmaður lemur annan karl er það ofbeldi. Ef kona leggur karl í einelti kallast það ofbeldi. Í báðum tilvikum er ofbeldið kynbundið. Eins og allt ofbeldi, því kynin eru aðeins tvö.

,,Kynbundið" ofbeldi er merkingarleysa. Við gætum alveg eins talað um ,,tvífætlingaofbeldi".

Merkingarleysan er höfð í frammi til að draga fjöður yfir þá staðreynd að karlaofbeldi er eitt en kvennaofbeldi annað. Árásarhneigð kynjanna birtist með ólíkum hætti. Almennt eru karlar beinskeyttir en konur brögðóttar. Allir eldri en tvævetra vita þetta.   


mbl.is „Kynbundið ofbeldi nær en margur heldur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elítan vill rafmagnsbíla, fólkið díselvél

Elítan í Frakklandi og víðar á vesturlöndum er föst í hugmyndafræði lofthitasinna um að heimurinn fari til helvítis ef keyrum ekki rafmagnsbíla í stað bíla með sprengihreyfli. Gulu mótmælin í París eru gegn reglugerðum lofthitasinna sem hækka eldsneytisverð.

Hetjan í mótmælunum er Jacline Mouraud, þriggja barna móðir á sextugsaldri, sem birtir eintal á samfélagsmiðlum og spyr Macron forseta hvers vegna hann stjórni í þágu elítunnar en ekki almennings.

Mótmælin breiðast út og Macron veit ekki sitt rjúkandi ráð. Eins og jafnan þegar menn rata í viðjar hugmyndafræði sem heldur ekki vatni.


mbl.is 42 handteknir í mótmælum í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit og þriðji orkupakkinn

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, og þriðji orkupakkinn eiga fullveldið sameiginlegt. Umræðan í Bretlandi gengur út á hve mikil völd ESB hefur yfir breskum innanríkismálum eftir úrsögn.

Umræðan á Ísland snýst um hve mikil áhrif ESB hefur á raforkumál okkar ef við samþykkjum þriðja orkupakkann.

Fullveldi er einmitt þetta: vald þjóðríkja yfir sínum eigin málum.

Það liggur fyrir að ef við samþykkjum þriðja orkupakkann færum við Evrópusambandinu vald yfir íslenskum orkumálum. Deilan snýst um hve mikið af ráðstöfunarréttinum flyst frá Íslandi til Brussel.

Þegar í boði er að segja nei, við viljum ekki afsala okkur fullveldi, sama hve lítið, yfir náttúruauðlindum okkar, þá er óskiljanlegt að nokkrum manni detti í hug að játast útlendu yfirvaldi í séríslenskum málum.

Rök þeirra sem vilja afsal íslenskra auðlinda til Brussel eru gjarnan þau að ,,við verðum að gera þetta af því að við samþykktum orkupakka eitt og tvö." Þessi rök er hægt að nota til að flytja allt fullveldið í bútum til Brussel.

Eina rétta afstaðan er að hafna þriðja orkupakkanum með þessum kristaltæru rökum: ákvarðanir um raforkumál landsins eiga heima á Íslandi en hvergi annars staðar. Punktur.


mbl.is May biður þjóðina um stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HR smánar starfsmann fyrir rangar skoðanir

Kristinn Sigurjónsson var rekinn frá Háskólanum í Reykjavík nánast í beinni útsendingu fjölmiðla. Brottrekstrarsökin: Kristinn var uppvís að röngum skoðunum á konum sem hann tjáði á lokaðri spjallrás.

Háskóli sem tekur upp á því að smána opinberlega starfsmenn sína og svipta þá fyrirvaralaust atvinnu og mannorði er kominn út í fúafen ofstækis þar sem mannréttindi eru fótum troðin.

Dómstólar hljóta að rétta hlut Kristins og um leið undirstrika að í lýðveldinu ríkir skoðana- og tjáningarfrelsi.


mbl.is HR krafinn um 66 mánaða laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband