Sunnudagur, 1. nóvember 2015
Ný rök fyrir ríkisvæðingu banka
Samtök fjármálafyrirtækja lögðu í gær fram nýja röksemd fyrir því að ríkið ætti sem stærstan hlut í bankakerfinu. Líkur eru á að ríkið ráði tveim bönkum, Íslandsbanka og Landsbanka.
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, færir fram þá röksemd í frétt RÚV að vegna röskleika ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs að skattleggja banka þá komi erlendir aðilar í auknum mæli og veiti bankaþjónustu hér á landi. Í frétt RÚV segir
Framkvæmdastjóri samtakanna segir að erlend fjármálafyrirtæki nái í vaxandi mæli viðskiptum af íslenskum fjármálafyrirtækjum
Og þetta er einmitt sem við þurfum. Vandi Íslands er að einkaframtakið kann ekki að reka banka. Það sýndi hrunið svart á hvítu. Þess vegna á ríkið að halda Íslandsbanka og Landsbanka í sinni eigu og skapa þar með rými fyrir fjölbreyttari bankaþjónustu, m.a. erlendis frá.
Þegar Samtök fjármálafyrirtækja játa stöðu mála á hreinskilinn hátt hlýtur ríkisstjórnin að taka mið af því og móta stefnu sem gerir ráð fyrir að ríkið eigi Íslandsbanka og Landsbanka til langs tíma.
![]() |
Arðgreiðslur banka hærri en talið var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. nóvember 2015
Hallgrímur, bestu börnin og aumingjamenningin
Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar hugvekju um aumingjahátt í samfélagsumræðunni. Hugvekjan kemur í kjölfar pistils Guðbergs Bergsonar um aumingjajátningu Hallgríms Helgasonar sem auglýsir áratugagamla nauðgun í jólabók þessa árs.
Hallgrímur er ekki ókunnur endurvinnslu hugmynda og skrifar reglulega um þjóðfélagsmál. Þekktasta framlag Hallgríms er greinin Baugur og bláa höndin sem hann skrifaði haustið 2002 þegar auðmenn voru þess albúnir að leggja undir sig landið.
Hallgrímur formælti þeim sem stóðu í vegi auðmanna, sem hann mærði með orðskviðum eins og þessum:
Við sem heima sitjum skiljum ekki hvers vegna guðfaðir nýja hagkerfisins [þ.e. Davíð Oddsson] snýst gegn bestu börnum þess. Við skiljum ekki hvers vegna sjálfstæðismenn beita öllu sínu gegn sjálfstæðustu mönnum landsins.
Þegar ,,bestu börnin" reynast ómerkileg skítseiði, ef ekki rétt og slétt glæpahyski, er skiljanlegt að eitthvað bresti í brjóstum þeirra sem hossuðu ,,bestu börnunum".
Hvað er þá betra en að lýsa sjálfan sig ráðlausan aumingja og væla til sín samúð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 31. október 2015
Auðmenn og virðing samborgaranna
Á dögum útrásar vöndust auðmenn samfélagi er bar þá á höndum sér. Háskóladeildir lögðust í rannsóknir á hve íslenskir auðmenn væru öðrum snjallari. Auðmenn voru fengnir til að messa yfir stjórnmálaflokkum, til dæmis hjá auðhyggjuflokkum eins og Samfylkingunni.
Eftir hrun kom á daginn að íslensku auðmennirnir voru ekkert snjallir, en sumir siðlausir og aðrir glæpamenn.
Auðmenn eru ekki endilega auðvirðilegir, svona sem manngerð, en heldur ekki sérlega merkilegir pappírar. Virðing samborgaranna fæst ekki keypt og hún hvorki vinnst sé tapast fyrir dómstólum þegar tekist er á um fjármuni auðmanna.
![]() |
Björgólfur ætti að skammast sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 31. október 2015
RÚV er pólitísk stofnun og gengur sjálfala
RÚV er hugmyndafræðileg stofnun; boðar í fréttatímum vinstripólitík og stefnir gagnrýnendum fyrir dómstóla. Fréttastofa RÚV er ófagleg stofnun er rækir ekki lágmarkshlutlægni, sem kveðið er á um í lögum.
RÚV gengur sjálfala í fjármuni almennings og hlaupa peningarnir á milljörðum króna.
Mál er linni. RÚV verður að skera niður og sníða stakk eftir vexti. Vinstripólitík á hljómgrunn meðal þriðjungs þjóðarinnar. Samkvæmt því má skera RÚV niður um 2/3.
![]() |
Boðar breytingar á RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 31. október 2015
Danir íhuguðu að selja Ísland, síðast 1864
Danakonungur reyndi að selja Ísland, eins og Hannes Hólmsteinn rekur, árin 1518, 1524 og 1535 til Hinriks VIII Englandskonungs. Hansakaupmönnum var boðið Ísland 1645. Dönsk stjórnvöld létu ekki þar staðar numið.
Eftir að Danakonungar létu af einveldi um miðja 19. öld stríddu dönsk stjórnvöld við þýsk um hvar landamæri Danmerkur og þýska ríkisins, sem þá var í mótun, ættu að liggja. Hertogadæmin Slésvík og Holstein eru umdeildu landamærahéruðin.
Stríðið 1864, sem samnefnd sjónvarpsþáttarröð var gerð um, snerist um landamærin. Danir töpuðu og urðu að leita friðarsamninga. Í bók sagnfræðingsins Tom Buk-Swienty, Dommedag Als, segir að danski forsætisráðherrann, Blumhe, hafi viljað bjóða Ísland í skiptum fyrir ,,smávegis af slésvískri jörð." Á máli Dana:
Hvor stor desperationen var efter blot at vinde en smule af Slesvigs jord, fremgik af, at Bluhme på en af statsrådsmöderne foreslog, at danskerne byttede Island for et stykke af det nordlige Slesvig. (Dýpt örvæntingarinnar um að fá til tilbaka smávegis af slésvískri jörð sést á því að Bluhme lagði til á einum ríkisráðsfundi að Danir skiptu á Íslandi og hluta af Norður-Slésvík). (Dommedag Als, 370).
Tillagan fékk ekki meðbyr hjá konungi, sem þrátt fyrir afnám einveldis, átti nokkur völd. Ekki síst eftir að borgaralegir stjórnmálamenn höfðu klúðrað málum jafn hressilega og þeir dönsku í stríðinu við Prússa.
Ef Þjóðverjar hefðu sóst eftir Íslandi 1864 er líklegt að Danir hefðu gefið landið eftir. Þjóðverjar einblíndu á hinn bóginn að treysta stöðuna innanlands, líkt og Hinrik VIII á Englandi á 16. öld, og höfðu ekki áhuga á eyju á miðju Atlantshafi.
England varð heimsveldi á 17. öld og Þjóðverjar reyndu að verða það á 20. öld. Ef Ísland hefði verið undir öðru hvoru ríkinu væri saga okkar önnur.
Lærdómur: hugsum hlýlega til þess að hafa verið undir dönsku yfirvaldi. Þökkum þeim glæðum þjóðerniskenndar sem Fjölnismenn og Jón Sig. blésu í um miðja 19. öld og leiddu til fullveldis 1. desember 1918 - rétt eftir að Englendingar og Þjóðverjar voru nýbúnir að slátra hvorum öðrum í milljónavís í fyrri heimsstyrjöld.
![]() |
Ísland ítrekað falboðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. október 2015
Bandaríkin og Rússland hóta að kljúfa Sýrland
Pútin forseti ákvað að styrkja Assad Sýrlandsforseta í baráttunni gegn uppreisnarmönnum, sem að hluta til eru á snærum vesturveldanna. Mest fer fyrir fréttum af rússneskum loftárásum en Reuters staðfesti fyrir hálfum öðrum mánuði að rússneskir hermenn berjist á jörðu niðri við hlið hermanna Sýrlandsstjórnar.
Viðbrögð vestrænna ríkja voru að spá Rússum afgönsku afhroði í Sýrlandi. Ef slíkir spádómar væru á rökum reistir myndu vesturveldin halda að sér höndum og leyfa Rússum að sökkva í kviksyndið.
Ákvörðun Bandaríkjanna að senda sérsveitir til Sýrlands er tekin vegna þess að Rússum hefur orðið ágengt. Bandaríkjamenn óttast að Rússar munu deila og drottna yfir Sýrlandi, fari fram sem horfir.
Bandarísku sérsveitirnar verða með bækistöðvar á svæði sem Kúrdar stjórna, samkvæmt New York Times. Í því felst pólitísk stuðningsyfirlýsing við málstað Kúrda sem vilja stofna ríki úr Kúrdahéruðum í Sýrlandi, Írak, íran og Tyrklandi.
Tyrkir eru sjálfsagt ekki hrifnir af stuðningi Bandaríkjanna við Kúrda enda löng saga tortryggni á milli Kúrda og Tyrkja með vopnuðum átökum. Tyrkir eru helstu bandamenn Bandaríkjanna í þessum heimshluta.
Sýrlandsdeilan er bæði fjölþjóðleg og margra þátta. Meiri líkur en minni eru á því að hún dragist á langinn.
![]() |
Sérsveitarmenn sendir til Sýrlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 30. október 2015
100% einkabankar keyrðu Ísland í gjaldþrot
Samtök afneitara hrunsins, í daglegu tali kallaðir Samtök atvinnulífsins, telja óæskilegt að ríkið eigi 70 prósent í bankakerfinu.
SA vilja að einkaframtakið fái bankana.
Síðast þegar einkaframtakið átti bankaferfið fórum við á hausinn - hrunárið 2008.
Viðurkenndur mælikvarði á heimsku er að endurtaka mistök en búast við annarri og betri niðurstöðu.
![]() |
Ríkið með 70% hlut á bankamarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 30. október 2015
Tvöfalt staðgenglastríð í Sýrlandi
Á dögum kalda stríðsins var talað um staðgenglastríð þegar skjólstæðingar risaveldanna, Bandaríkjanna/Vestur-Evrópu og Sovétríkjanna/Kína, stríddu fjarri vesturlöndum. Kóreustríðið var þannig stríð og líka Sex daga stríðið og Víetnamstríðið.
Í Sýrlandi geisar tvöfalt staðgenglastríð. Í einn stað takast á Bandaríkin og Rússland, í annan stað Sádi-Arabar/súnní múslímar og Íran/shíta múslímar.
Engar líkur eru á friði fyrr en stríðsþreyta sest inn í ábyrgðaraðila stríðsins í Sýrlandi. Og hvergi meðal þeirra verður vart við stríðsþreytu enda meiri hagsmunir í húfi en eitt stykki Sýrland.
Stríðið mun halda áfram í fyrirsjáanlegri framtíð með ómældum hörmungum fyrir almenning.
![]() |
Allra augu beinast að Vín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 29. október 2015
Við líka hugarfarið og bankarnir
Ríkið á tvo banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Ríkið mun ekki komast upp með annað en að selja þá báða - ef ríkið ætlar á annað borð að selja.
Ástæðan er sú að prinsippafstaða er tekin með sölu - og prinsipp eru ekki valkvæð. Ekki er hægt að láta þau gilda stundum og stundum ekki.
,,Við líka" hugarfarið mun gjósa upp og hópar í viðskipa- og stjórnmálalífi ota sínum tota til að fá bankana.
Skynsamlegast er að ríkið, e.t.v. í samvinnu við lífeyrissjóði, eigi til frambúðar Íslandsbanka og Landsbanka.
![]() |
S&P: Íslandsbanki seldur innan 2 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 29. október 2015
Hitlers-orðræða í ESB-ríkjum
Orðalagið sem notað er um að gera Evrópu örugga gegn flóði flóttamanna er ,,Festung Europa". ,,Við verðum að byggja Festung Europa," segir innanríkisráðherra Austurríkis.
,,Festung Europa" - Evrópska vígið - var orðalag nasista í seinna stríði um varnir Vestur-Evrópu, sem þá var undir Hitler, gegn innrás Bandamanna frá Bretlandi.
Evrópska vígið féll á einum degi, D-daginn 6. júní 1944, með innrásinni í Normandí. Hvort austurríska innanríkisráðherranum er ljóst hve varnir samlanda hennar voru lélegar fyrir sjötíu árum er ekki aðalatriði málsins.
Hitlerísk orðræða evrópskra stjórnmálamanna um flóttamannaástandið sýnir hve örvæntingin í ESB-ríkjunum er orðin mikil. Eftir samfellda kreppu vegna evrunnar í sjö ár, sem vel að merkja er hvergi nærri leyst, er kominn vandi sem lamar innviði einstakra ESB-ríkja ásamt því að rífa í sundur kjarnasamstarf ESB um opin landamæri.
Evrópskur almenningur kann stjórnmálamönnum sínum litlar þakkir fyrir að álpast út í ESB-samstarf sem er jafn vanhugsað og raun ber vitni. Almenningur styður til valda harða menn sem taka afgerandi ákvarðanir. Fyrsti sigurinn i pólitík er alltaf orðræðan. Og sá sigur er kominn í hús.
![]() |
Vaxandi áhyggjur af Schengen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)