Alþingi sem lokaður valdaklúbbur útvalinna

Meirihlutinn á alþingi, vinstriflokkarnir meðtaldir, lítur svo á að almenningi komi ekki við ,,samkomulag á þingi" er skuli standa ofar þjóðarhagsmunum. Hér eru endaskipti höfð á hlutunum.

Sitjandi alþingismenn ræddu ekki við þjóðina, fyrir síðustu kosningar, um að til stæði að samþykkja að færa útlendingum valdheimildir yfir náttúruauðlind landsins - raforkunni. Þar af leiðir eru þingmenn ekki með umboð frá þjóðinni að samþykkja orkupakka þrjú frá ESB.

Síðast þegar alþingi sniðgekk skýran og einbeittan þjóðarvilja og samþykkti ESB-umsókn 16. júlí 2009 fór illa. Umboðslausum meirihluta var hent öfugum út af þingi um leið og almenningur fékk til þess tækifæri í þingkosningum.

Meint samkomulag afgreiðslu orkupakka er einskins virði nema litið sé á alþingi sem lokaðan klúbb útvalinna er geti haft sína hentisemi og úthlutað fullveldi landsins til erlendra valdastofnana.

Samkvæmt stjórnarskrá eru þingmenn fulltrúar þjóðarinnar. Þegar alþingi er orðið að lokuðum valdaklúbbi og þess albúið að framselja forræði Íslendinga á náttúruauðlindum þjóðarinnar er komin gjá milli þings og þjóðar. 

Miðflokkurinn ætti að gera eftirfarandi kröfu í nafni þjóðarhagsmuna: annað tveggja verði orkupakka þrjú frestað fram yfir næstu þingkosningar eða að efnt verði þingkosninga þegar í stað til að þjóðin fái færi á að eiga tal við meinta fulltrúa sína. Kjósendur eiga ýmislegt vantalað við valdaklúbbinn á Austurvelli.


mbl.is „Maður veit aldrei hvað gerist í pólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðflokkurinn virkjar almenning í þágu lýðræðis

Húsfyllir var á fundi Miðflokksins í Garðabæ í gærkvöld. Ítrekað sprengja Sigmundur Davíð og félagar af sér fundarsali í öllum landsfjórðungum. Aðeins eitt mál er á dagskrá - orkupakkinn.

Vigdís Hauks í félagi við Sigmund Davíð tók á pólitíkinni á fundinum. Birgir Örn Steingrímsson ræddi áhrif orkupakka eitt og tvö á Hitaveitu Suðurnesja sem eitt sinn malaði gull fyrir Suðurnesjamenn en er núna keypt og selt af útlendingum sem hirða arðinn af fjárfestingum almennings. Ingibjörg Sverrisdóttir, flokksbundin sjálfstæðiskona, rakti hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins breiddi þagnarhjúp yfir áform um einkavæðingu og undirbúning sæstrengs.

Miðflokkurinn virkjar almenning til lýðræðislegrar umræðu um orkupakkann. Fundarsóknin í Garðabæ og á öðrum fundum flokksins síðustu daga sýnir að almenningur er hvergi nærri búinn að fá nóg af umræðunni. Á alþingi verður orðið laust í vikunni. Og það er langt til jóla.


Orkusnaran um háls Sjálfstæðisflokksins

Orkupakkinn er kirfilega merktur Sjálfstæðisflokknum. Ráðherrar flokksins, Guðlaugur Þór og Þórdís, eru ábyrg fyrir viðkomandi málaflokkum og um leið helstu talsmenn samþykktar orkupakkans.

Málflutningur Guðlaugs, Þórdísar og forystu Sjálfstæðisflokksins er í hnotskurn sá að í fyrsta lagi sé orkupakkinn smámál, sem engu skiptir, og í öðru lagi að Ísland verði að samþykkja annars sé EES-samningurinn í uppnámi.

Vandinn við þennan málflutning er tvíþættur. Engar traustar heimildir eru fyrir því að EES-samningurinn sé í uppnámi þótt Ísland biðji um undanþágu frá pakkanum. Engir ábyrgðaraðilar EES-samningsins hafa komið fram og sagt að höfnun/frestun á pakkanum höggvi að rótum EES-samstarfsins.

Seinni þátturinn í vandanum er sýnu alvarlegri. Guðlaugur Þór, Þórdís og forysta flokksins segja orkupakkann smámál með þeim rökum að innleiðing hans hafi engin áhrif á lagningu sæstrengs til Íslands. En það liggur í hlutarins eðli að orkupakkinn, sem er samræmdar reglur ESB um flutning raforku yfir landamæri, hlýtur að tengjast lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Eini tilgangur orkupakkans er að auðvelda flutning raforku milli landa. Raforka verður aðeins flutt frá Íslandi með sæstreng.

Ef ráðherrar og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fá orkupakkann samþykktan á alþingi blasir við eftirfarandi veruleiki: ef einhverjir, hvort heldur útlendingar eða Íslendingar, taka upp á því að kanna möguleikann á því að leggja sæstreng til Evrópu verður litið á Sjálfstæðisflokkinn sem mesta lygalaup stjórnmálasögunnar. Smámálið, orkupakkinn, er allt í einu orðið að sæstreng, verður sagt. Og það með réttu. Ef við samþykkjum reglur um rafmagnsflutninga yfir landamæri er einboðið að fara verður eftir þeim reglum. 

Hverju ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að svara?   


mbl.is Miðflokksmenn „algjörlega óútreiknanlegir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makríll og orkupakki - að kyssa vöndinn

Við eigum að gefa ESB forræði yfir raforkumálum Íslands en þiggja frá sambandinu viðskiptabann. Allt í nafni vinsamlega samskipta.

ESB-sinnar hér á landi hvetja okkur að kyssa vöndinn. Leiðari Fréttablaðsins spyr á laugardag:

Hvers vegna ætti að tefla farsælum samskiptum við vinaþjóðir í tvísýnu þegar engir hagsmunir eru undir?

En það eru óvart hagsmundir undir. Annað hvort erum við fullvalda ríki eða hjálenda ESB. 

 


mbl.is Ræða viðskiptaþvinganir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggmiðill: ég hef skoðun, gemmér pening

Kjarninn er sex ára bloggmiðill. Miðillinn var stofnaður af fólki á vinstri væng stjórnmálanna til að auka vægi vinstriskoðana hér á landi. Allt í lagi með það. Við búum í lýðfrjálsu landi þar sem tjáningarfrelsi ríkir og hver og einn má hafa sína skoðun og láta hana í ljós.

Nema, auðvitað, maður sé kennari í Háskólanum í Reykjavík. Þá eru aðeins þær skoðanir leyfðar sem ekki móðga fólk, og viðurlögin eru atvinnumissir. En það er önnur saga.

Kjarninn birtir skoðanir eigenda sinna og starfsmanna auk þeirra skoðana sem falla að smekk útgáfunnar. Að þessu leyti er Kjarninn líkur öðrum bloggmiðli, Miðjunni, sem er einstaklingsframtak og hefur þær skoðanir sem gefa mest í aðra hönd hverju sinni.

Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, skrifar afmælisgrein sem gengur út á að Kjarninn fái peninga frá almenningi, ríkissjóði, fyrir það eitt að hafa skoðun.

Nú þegar heldur almenningur uppi skoðanaverksmiðju sem heitir RÚV er framleiðir vinstriskoðanir - sérstök áhersla er á Trumphatur þessi misserin enda fellur það í kramið hjá baklandi RÚV. 

Tilfellið er að skoðanir eru ekki lengur læstar inni á fjölmiðlum liðins tíma sem ákváðu hvort og hvaða skoðanir skyldi birta. Netið, blogg og samfélagsmiðlar, gerir öllum mögulegt að viðra sína skoðun. Ríkið ætti ekki að styrkja skoðanaframleiðslu þar sem kappnóg er af henni.

Kjarninn og aðrir bloggmiðar, en einnig fjölmiðlar, eiga að lifa og deyja með sannfæringu þeirra er að þeim standa. Hvers virði er skoðun ef engin sannfæring er að baki?


Brexit er barátta um lýðræði og þjóðríkið

Tvær meginútgáfur af úrsögn Breta úr Evrópusambandinu. Brexit, koma til greina. Í fyrsta lagi að Bretland gengur út, með eða án samnings, og farnast vel. Þá sigrar lýðræðið og þjóðríkið. Í öðru lagi að Bretland gangi út, með eða án samnings, og farnast illa. Lýðræðið tapar, ESB sigrar.

Á meðan May var forsætisráðherra var þriðji möguleikinn fyrir hendi, að Brexit yrði aðeins að nafninu til. Bretland yrði hjálenda ESB, líkt og Ísland og Noregur eru í gegnum EES-samninginn. Boris Johnson tók af öll tvímæli; Brexit er niðurstaða lýðræðislegrar þjóðaratkvæðagreiðslu og skal framfylgt.

Johnson fær stuðning frá Trump fyrst og síðast af þeirri ástæðu að Bandaríkjaforseta er annt um þjóðríkið. Það vill stundum gleymast að án þjóðríkis er ekkert lýðræði. Samanber Evrópusambandið sem er embættismannaveldi.


mbl.is Verði að afnema höft á bresk fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og dönsk-íslensk uppgjöf

Danski forsætisráðherrann hringdi í Trump til að biðja um gott veður eftir leiðindi vegna Grænlands og aflýstrar heimsóknar Bandaríkjaforseta til smáríkisins. Katrín forsætis ætlar að hitta varaforseta Trump þótt hún hafi áður lofað vinstrimönnum sniðgöngu.

RÚV og fleiri miðlar gerðu því skóna að kvenforsætisráðherrar Danmerkur og Íslands væru samstíga í alþjóðlegu diplómatísku áhlaupi á Trump-ríkið í vestri. Allt rann það út í sandinn, konurnar krupu á kné fyrir glókolli.

Katrín og sú danska fengu lexíu í raunsæispólitík: alveg sama hvaða einstaklingur gegnir embætti þjóðhöfðingja, að ekki sé talað um forseta Bandaríkjanna, verður að sýna viðkomandi tilhlýðilega virðingu. Annars fer illa.

Katrín og Metta eru reynslunni ríkari og mörgum var skemmt að fylgjast með kennslunni.


mbl.is Trump dásamar Frederiksen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gulli glæri og Katrín heimóttarlega

Í lok Reykjavíkurbréfs dagsins segir af furðusamskiptum stjórnarráðsins við Bandaríkin síðustu daga.

En þá er það spurningin: Samþykktu ráðherrar hinna stjórnarflokkanna í ríkisstjórninni þessa einstæðu forgangsröðun forsætisráðherrans? Þá eru allir spurðir nema utanríkisráðherrann, sem hefur þegar tekið fram í viðtali við Morgunblaðið að hann hafi ekki vitað neitt um málið. Enda málið á hans verksviði.

Gulli utanríkis vissi sem sagt ekkert um málflokkinn sem hann ber ábyrgð á. Ekki frekar en hann viti neitt um orkupakkann og orkusamband ESB. Og Katrín heimóttarlega hélt það væri allt í lagi að móðga Bandaríkin í þágu Vinstri grænna en á kostnað þjóðarhagsmuna.

Eftirhrunskynslóð íslenskra stjórnmálamanna heldur ekki máli. Drýldin - ég á mér draum, skrifaði eitt furðuverkið í fyrirsögn á Moggagrein í vikunni - en dómgreindarlaus: forysta móðurflokksins leggur 90 ára sögu að veði fyrir ,,smámál." 

Tíu ár og nokkrum mánuðum betur eru frá hruni. Sá tími er kallaður grunnskólaaldur yngri borgara og ætlast er til að þeir kunni að lesa, skrifa og reikna að námi loknu. Er til of mikils mælst að stjórnmálamenn kunni pólitíska stafrófið eftir tíu ára nám?


mbl.is Katrín reiðubúin að funda með Pence
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarlínan Ísland-Grænland

Umtalaðasta bók seinni ára um utanríkisstefnu Bandaríkjanna er eftir Stephen Walt og heitir Víti heiðarlegra áforma. Ein tillaga í bókinni er að Bandaríkin láti Evrópu um eigin varnir og dragi varnarlínu yfir Atlantshaf.

Varnarlínan yrði Grænland-Ísland og e.t.v. Færeyjar.

Grænlandsbrandari Trump er dauðans alvara.


mbl.is Repúblikanar selja Grænlandsboli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir og Píratar í sama flokki

Flótti forsætisráðherra frá fundi með varaforseta Bandaríkjanna setur Vinstri græna og Pírata í sama afkima stjórnmálanna. Sem er merkilegt.

Til skamms tíma voru Vinstri grænir stefnufastir í pólitík en viðurkennt að Píratar væru tækifærissinnar, t.d. ýmist með eða móti þjóðaratkvæðagreiðslu eftir því hvernig vindar blása á samfélagsmiðlum.

Flótti Katrínar forsætis er tvöfalt pólitískt feilhögg, þjónar hagsmunum þjóðarinnar illa og veikir tiltrú á Vinstri græna sem stjórnmálafl.

 


mbl.is Fjarveran gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband