Ódýrir WOW-ferðamenn dýrir hagkerfinu

WOW seldi farmiða langt undir kostnaðarverði og treysti á stöðuga fjölgun þeirra. Þegar hægði á fjölgun ferðamanna hrundi viðskiptaáætlun WOW og félagið fór í gjaldþrot.

Ódýrir WOW-ferðamenn voru hagkerfinu dýrir vegna þess að fjöldinn skapaði álag á inniviði, s.s. vegi, heilbrigðisþjónustu og keyrði upp fasteignaverð vegna leiguíbúða, sem margar voru á svörtum markaði.

Eftir að WOW fór í þrot breyttist ástandið. Í meðfylgjandi frétt segir ,,hver ferðamaður er að skila meiri tekj­um í kassa þjóðarbús­ins en áður skv. nýj­um korta­veltu­töl­um, sem mild­ar höggið á hag­kerfið." Ódýru WOW-farþegarnir sitja heima og það er heppilegt fyrir hagkerfið í heild.

Umræðan um að ríkissjóður hefði átt að bjarga WOW er á villigötum. Ríkið á aldrei að bjarga ósjálfbærum einkarekstri frá gjaldþroti.


mbl.is Spá frekari stýrivaxtalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV-aðgerð gegn Johnson

Vinstrimenn haga sér með líkum hætti, hvort heldur í London eða Reykjavík. Boris Johnson, líklegur forsætisráðherra Breta, varð fyrir því að vinstrisinnaðir nágrannar hans klaustruðu heimili hans með hljóðupptöku. Blint hatur réð ferðinni.

RÚV-aðgerðin í London fór af stað. Vinstriútgáfan Guardian setur fram kröfu um að Johnson afsanni að hann stundi heimilisofbeldi.

Á Íslandi hafa stjórnmálamenn eins og Sigmundur Davíð, Bjarni Ben., Sigríður Andersen, Vigdís Hauks og Hanna Birna fengið að kenna á viðlíka aðgerð. Einatt leikur RÚV miðlægt hlutverk.


mbl.is Tjáir sig ekki um lögregluútkall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump hefur ekki stríðslyst - en hverjir þá?

Trump gagnrýndi Írak-stríðið sem Bandaríkin hófu 2003. Trump lofaði kjósendum að efna ekki til tilgangslausra stríða. Trump fór ekki í stríð við sósíalista í Venesúela og heldur ekki við múslímaklerka í Íran.

Trump hefur ekki stríðslyst. En hvers vegna liggur nærri stríði í Venesúela og Íran? Jú, tveir öflugir hópar í Bandaríkjunum eru herskáir og vilja láta vopnin tala í tíma og ótíma.

Í fyrsta lagi kaldastríðshaukar og í öðru lagi frjálslyndir vinstrimenn haldnir alþjóðahyggju. Fyrri hópurinn lítur á heiminn svart hvítan, við og þeir, alveg eins og í kalda stríðinu. Seinni hópurinn vill gera heiminn vestrænan með ofbeldi þegar annað þrýtur.

Í Úkraínu sameinuðust þessir hópar, hvattir af Evrópusambandinu, og bjuggu til borgarastyrjöld sem lítið fer fyrir í fréttum en er óleyst. Írak, Sýrland og Líbýa voru einnig sameiginleg verkefni þessara hópa. Öll verkefnin enduðu í tilgangslausum blóðsúthellingum.

En Trump, sem sagt, er maður friðarins. Svo ótrúlega sem það kann að hljóma. 


mbl.is Hætti við 10 mínútum fyrir árásirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex sem efuðust - hvað óttast þingmennirnir?

Sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins efuðust um skynsemi þess að Ísland innleiddi 3. orkupakka ESB, samkvæmt meðfylgjandi frétt mbl.is frá desember í fyrra. 

Umræðan um orkupakkann hefur m.a. leitt í ljós að vald yfir raforkumálum færist til Brussel, að ESB gerir kröfu um að engar ,,orkueyjar" verði leyfðar, sem þýðir sæstrengur, að ESB gerir ráð fyrir að leggja á orkuskatt, til að styrkja orkubúskap sambandsins.

Ofantaldar staðreyndir, og margar fleiri sem mæla gegn orkupakkanum, hafa verið til umræðu í allan vetur. Styrkjast efasemdir þingmannaanna sex? Nei, Páll, Njáll, Bjarni og Óli Björn segja fátt en það sem þeir segja er til stuðnings samþykkt orkupakkans.

Hvað óttast þingmennirnir?  


mbl.is Þingmenn efast um orkupakkann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur og umboðslaust vald

Þegar Steingrímur J. var formaður Vinstri grænna hafði hann ekki umboð frá kjósendum til að styðja þingsályktun Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Umboðsleysi Steingríms fólst í því að yfirlýst stefna Vinstri grænna við kosningarnar 2009 var að Ísland skyldi ekki sækja um ESB-aðild.

Steingrímur hrökklaðist úr formannsembætti eftir klofning í flokknum og afhroð í kosningum.

Hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur hafa umboð frá kjósendum eða flokksfólki til að samþykkja 3. orkupakkann. (Meiri óvissa er með Vinstri græna í þessum efnum).

Flokkssamþykktir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar kveða á um að ekki skuli framselja forræði náttúruauðlinda til ESB. Alveg eins og flokkssamþykkt Vinstri grænna fyrir kosningarnar 2009 sagði að Íslandi skyldi ekki sækja um ESB-aðild. Kjósendur veittu ekki heimild til að 3. orkupakkinn yrði samþykktur.  

Þegar stjórnmálaflokkar, sem eru á framfæri þjóðarinnar, svíkjast um og misbeita valdi sínu þarf að virkja neyðarrétt.

Miðflokkurinn virkjaði neyðarrétt á alþingi og talaði 3. orkupakkann í kaf. Þegar Steingrímur J., sem forseti alþingis, boðar afnám neyðarréttarins sýnir hann lýðræðislegri meginreglu fullkomna fyrirlitningu. Virðing alþingis eykst ekki með Steingrím J. í forsetastóli.


mbl.is Boðar endurskoðun reglna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdís verður fyrir einelti dæmds embættismanns

Embættismaður sem er dæmdur fyrir að koma fram við undirmann sinn eins og ,,dýr í hring­leika­húsi" kvartar undan einelti Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa.

Dæmdur embættismaður ætti vitanlega ekki að komast upp með að atast í kjörnum fulltrúa með fjarstæðukenndum ásökunum um einelti.

Ef embættismaðurinn á erfitt með návist Vigdísar ætti hann vitanlega að halda sig í fjarlægð. 


mbl.is Skoða hvort Vigdís hafi lagt í einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löskuð ríkisstjórn

Um drykkfelldan prest var sagt að hann hefði verið ónærgætinn sjálfum sér. Sama má segja um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Í pólitísku ölæði tók ríkisstjórnin upp á því að framfylgja stefnu ESB-flokkanna á alþingi, Samfylkingar og Viðreisnar, sem eiga að heita í stjórnarandstöðu.

Kjósendur greiddu ekki Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum og Framsókn atkvæði sitt til að flokkarnir fleyttu Íslandi inn í samrunaferli Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Ónærgætnin sem ríkisstjórnarflokkarnir sýndu kjarnafylgi sínu með misheppnaðri tilraun til að keyra 3. orkupakka ESB inn í íslensk lög gekk í berhögg við ráðandi viðhorf um að hagsmunum Íslands er betur borgið utan ESB en innan.

Bretland er á leið út úr Evrópusambandinu. Þegar að því kemur að samningar milli Bretlands og ESB nást, eða að Bretar fari úr ESB án samnings, verður sú niðurstaða borin saman við EES-samninginn. Viðskilnaður Breta við ESB, með eða án samnings, verður stórum hagfelldari fyrir Bretland en EES-samningurinn er fyrir Ísland.

Allsgáð ríkisstjórn Íslands myndi hafa rænu á að leika eingöngu biðleiki í samskiptum við ESB á meðan Brexit gengur yfir. Orkupakki þrjú var samþykktur af ESB fyrir tíu árum, já árið 2009. Hvers vegna mátti hann ekki bíða samþykktar á Íslandi í nokkur ár enn?

Dómgreindarleysið, sem ríkisstjórnin sýndi í orkupakkamálinu, var alþjóð til sýnis í allan vetur og fram á vor. Máttlaus málflutningur stjórnarinnar var beinlínis hjákátlegur, þeir afrituðu og límdu miðstýrða texta djúpríkisins til stuðnings framsali á orkuauðlindum Íslands.

Frá hruni 2008 eru tvö meginmál á dagskrá íslenskra stjórnmála. Í fyrsta lagi uppgjör við hrunið, sem óþarfi er að ræða í þessu samhengi. Í öðru lagi samskiptin við Evrópusambandið. Þar tókust á tveir hópar, þeir sem vildu Ísland inn í ESB og hinir sem héldu í fullveldi þjóðarinnar og vildu ekki aðild að ESB.

Undir forystu Samfylkingar var aðildarumsókn send til Brussel 16. júlí 2009. Umsóknin strandaði áramótin 2012/2013. Næsta vor tapaði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stórkostlega í þingkosningum, fylgi Samfylkingar fór úr tæpum 30 prósentum í 12,9 og Vinstri grænir töpuðu helming fylgis, fengu 10,9 prósent. Þar með voru úrslitin ráðin í þessu deilumáli, Ísland skyldi ekki inn í ESB.

Ódrukknir hljóta menn að skilja að þjóðin mun ekki sætta sig við að Íslandi sé laumað inn í samrunaferli ESB í gegnum EES-samninginn. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætti að reyna að halda sér pólitískt edrú í sumar, þakka Miðflokknum, þó ekki sé nema í hljóði, og ákveða að taka orkupakkann af dagskrá alþingis. 

Ef sumarið verður ekki notað uppbyggilega af ríkisstjórninni bíður hennar harður vetur.

  


mbl.is Þinglok væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elliði skilur EES, og dregur rétta ályktun

EES-samningurinn er fullvalda ríki hættulegur. Þess vegna taka Bretar ekki í mál að ganga inn í samninginn eftir úrsögn úr Evrópusambandinu, Brexit. ESB notar EES-samninginn til að sölsa undir sig valdheimildir sem með réttu eiga heima hjá EFTA-ríkjunum, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, sem eru mótaðilar ESB í EES.

Elliði Vignisson er einn af örfáum stjórnmálamönnum sem þorir að segja upphátt það sem allir vita: EES-samningurinn er stórhættulegur fullveldi þjóðarinnar.

Elliði dregur einnig rétta ályktun þegar hann segir þurfa „sterk bein, sam­stöðu og út­sjón­ar­semi ef tak­ast á að tryggja hags­muni Íslend­inga í alþjóðasam­starfi án þess að fórna þeim mik­il­vægu rétt­ind­um sem fólg­in eru í því að vera sjálf­stætt þjóðríki. Þessa dag­ana eru marg­ir að spyrja sig að því hvaða fólk og hvaða flokk­ar séu lík­leg­ast­ir til þess.“

Ætli Elliði sé að leið í Miðflokkinn?


mbl.is EES „aðlögunarsamningur inn í ESB“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svindla, Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi

Þriðji orkupakkinn var stöðvaður á alþingi með rökum sem héldu og fengu stuðning frá þjóðinni. Til að orkupakkinn verði samþykktur í haust þarf annað tveggja að gerast, að ný rök komi fram í málinu til stuðnings orkupakkanum eða að þjóðinni snúist hugur og vilji flytja forræði raforkumála Íslands til Brussel.

Allt annað er svindl.

Þjóðin er eindregið á móti framsali raforkumála til Brussel, yfir 6 af hverjum tíu landsmönnum vilja undanþágu frá orkulöggjöf ESB.

Það er verkefni ykkar, Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi að framfylgja vilja þjóðarinnar.

Allt annað er svindl.

Stjórnmálamenn sem svindla á þjóðinni eiga ekki framtíð fyrir sér.

 


mbl.is Orkupakkamálið búið 2. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall fyrir ríkisstjórnina; ný 3OP könnun

Afgerandi meirihluti kjósenda ríkisstjórnarflokkanna hafnar 3. orkupakkanum og vill fá undanþágu frá orkustefnu ESB, samkvæmt nýrri könnun.

Maskína framkvæmdi könnunina og verður hún birt á morgun. Um helmingur sjálfstæðismanna vilja undanþágu frá orkulöggjöf ESB, 30 prósent eru óvissir en aðeins 20 prósent eru andvígir undanþágu. Tæp 70 prósent, já 70 prósent, kjósenda Framsóknarflokksins vilja að Ísland standi utan orkustefnu ESB. Fjórir af hverjum tíu kjósendum Vinstri grænna eru sama sinnis, 35 prósent eru óviss en fjórðungur vill ekki undanþágu.

Könnunin staðfestir að allur þorri kjósenda ríkisstjórnarflokkanna er á móti 3. orkupakkanum og aðild Íslands að orkustefnu ESB.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband