Brexit-Trump byltingin og símtalið við Pútín

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, og valdataka Trump í Bandaríkjunum marka tímamót í alþjóðasamfélaginu. Sumir, t.d. Richard N. Haass, sækja samanburð til Vestfalíufriðarins á 17. öld í því skyni að útskýra stöðu alþjóðamála.

Alþjóðasinnar eins og Haass telja yfirþjóðlegt yfirvald nauðsynlegt til að leysa knýjandi vanda sem í eðli sínu er hnattrænn. En Brexit og Trump standa fyrir sterka þjóðríki og hafna yfirþjóðlegu valdi.

Enn er alltof snemmt að segja hvert útfallið af Brexit-Trump byltingunni verður. Hitt er víst að alþjóðahyggja síðustu áratuga er komin á endastöð. Fjölþjóðabandalög eins og Evrópusambandið tapa slagkrafti sínum og þjóðríkið styrkist.

Bandaríkin og Bretland eru á hinn bóginn ekki í stakk búin að leiða fram nýtt kerfi alþjóðasamskipta. Meira þarf til. Prófsteinn á hve róttæk Brexit-Trump byltingin verður eru samskiptin við Rússland. Í dag tala forsetarnir Trump og Pútín Rússlandsforseti saman í síma. Það símtal gæti gefið vísbendingum það sem koma skal.

Ef Bandaríkin og Rússland friðmælast og taka upp nýja siði er kominn vísir að bandalagi sem gæti breytt alþjóðastjórnmálum varanlega.


mbl.is „Frjálst og óháð Bretland mikil gæfa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalt heilbrigðiskerfi er tvöfalt siðferði

Jafn réttur allra Íslendinga til heilbrigðisþjónustu er ekki pólitískt mál heldur siðferðislegt. Það er hluti af sjálfsímynd okkar sem þjóðar að efnafólk kaupi sér ekki forgang að þessum lífsgæðum umfram almenning.

Heilbrigðisþjónusta er rekin með almannafé. Einkarekin þjónusta á þessu sviði er annað hvort niðurgreidd beint með almannafé, svipað og svokallaðir ,,einkaskólar", eða óbeint með því að læknar á ríkislaunum vinna aðalstarfið á einkasjúkrahúsi. Þetta yrði ríkisrekinn ójöfnuður.

Tvöfalt heilbrigðiskerfi veit á tvöfalt siðferði. Ríkisvaldið á ekki að stuðla að tvöföldu siðferði meðal þjóðarinnar. Ríkisvald sem þannig starfar tapar siðferðislegu lögmæti. Og það er miklu verra en að tapa pólitískri tiltrú.


mbl.is „Skammsýni“ að semja við Klíníkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi sem framhaldsskóli

Símanotkun nemenda í framhaldsskólum er vandamál í kennslu. Á meðan nemendur eru í símanum eru þeir hvorki að sinna verkefnum né fylgjast með kennslu.

Nemendur á gelgjustigi eiga sér fjölbreytt áhugamál sem sum tengjast náminu en önnur ekki. Dæmi eru um, því miður of mörg, að áhugamál nemenda utan skóla bitni á frammistöðu þeirra í námi.

Alþingismenn ættu að íhuga hvort áhugamál þeirra utan þings eyðileggi frammistöðuna á vinnustaðnum. Hátt brottfall þingmanna í kosningum gefur sterka vísbendingu um að metnaðurinn fyrir þingmennsku mætti vera meiri.


mbl.is Engin símtöl eða myndatökur á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Smári: frá auðmönnum til almennings

Auðmenn fjármögnuðu útgáfu Gunnars Smára þar til fyrir skemmstu. Nú biðlar fyrrum útgáfustjóri Baugsmiðla til almennings að leggja fé í Fréttatímann.

Gunnar Smári stofnaði nýlega sósíalistaflokk. Áður vildi hann gera Ísland að fylki í Noregi, eftir pólitískt ævintýri um að múslímavæða landið misheppnaðist.

Gunnar Smári velur sér einatt málstað á síðasta snúningi. Kortéri áður en Ólafur F. Magnússon missti embætti borgarstjóra nokkrum vikum fyrir hrun var Smárinn orðinn aðstoðarmaður hans. Örugga leiðin til að finna andstreymi umræðunnar er að kíkja á hvaða dyntir eru upp á pallborði Gunnars Smára. Nú stendur gamaldags fríblaðaútgáfa höllum fæti og auðvitað er Gunnar Smári þar í stafni. 


Birgitta skilur ekki þingræði

Þingræði felur í sér að meirihluti alþingis styðji framkvæmdavaldið. Meirihluti þingsins hlýtur að skipa nefndarformenn sem tilbúnir eru til að axla ábyrgð á því að þingstörf gangi fram með eðililegum hætti.

Stjórnarandstaða sem féllist á meginreglur þingræðisins gæti ef til vill fengið formennsku í nefndum í umboði stjórnarmeirihlutans.

En stjórnarandstaðan skilur ekki þingræðið. Birgitta Jónsdóttir fer fremst meðal jafninga í skilningsleysi.


mbl.is „Stórfurðuleg vinnubrögð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit rífur Ísland frá ESB

Fyrsti þjóðhöfðinginn sem heimsækir nýkjörinn Bandaríkjaforseta er Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. May boðar nýtt bandalag þjóðanna tveggja á alþjóðavettvangi.

Bandaríkin og Bretland eru stórþjóðir sem ramma inn Ísland á Norður-Atlantshafi. Lengra í austri er Evrópusambandið að liðast í sundur.

Ásetningur Bandaríkjanna og Bretlands um nána samvinnu á alþjóðavettvangi gerir pælingar um ESB-aðild Íslands, sem fyrir voru langsóttar, að algjörri fásinnu.

Í nærumhverfi okkar eigum við að rækta samvinnu við Grænland, Færeyjar og Noreg. Næsta skref er að finna okkur stað í umhverfi sem tekur mið af bandalagi Bandaríkjanna og Bretlands. Brussel-leiðangur undir þessum kringumstæðum er óhugsandi.


mbl.is Óttast að Evrópusambandið liðist í sundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trausti jarðar RÚV-hlýnun

RÚV boðar ragnarök vegna hlýnunar jarðar. Pólitískar, efnahagslegar og félagslegar hamfarir munu ríða yfir segir í frétt RÚV. Fréttamaður fær sér fótabað í ísköldum sjónum og lætur eins og hann sé á suðrænni sólarströnd en ekki á flotbryggju við Ísland í janúar.

Í inngangi fréttarinnar segir: ,,Hitastig á Íslandi hefur hækkað um þrjár og hálfa gráðu á síðustu hundrað árum, sem er tvöfalt meira en annars staðar í heiminum." Til að auka dramatíkina bætir fréttamaður við að sjórinn við Ísland hafi hlýnað um fimm gráður á 20 árum.

Trausti Jónsson veðurfræðingur gerir fréttina að umtalsefni. Hann bendir á að hægt er að leika sér með tölur og fá ólíka niðurstöðu. En slíkir talnaleikir séu markleysa - ,,eru einskis virði."

Um fótabað fréttamanns RÚV í sjónum sem hlýnaði um fimm gráður á 20 árum segir Trausti: ,,Að vera að reikna leitni [þ.e. hlýnun] fyrir styttri tíma en 30 ár er reyndar alveg glórulaust."

Markmið RÚV kemur fram í lok fréttarinnar. Ef við aukum ekki ,,skilning" okkar á hlýnun jarðar er tvísýnt hvort mannkynið lifi af. Frétt RÚV er falsfrétt með sérvöldum staðreyndum til að þjóna hræðsluáróðri.


Rúst eða ekki rúst: hver er staðreyndin?

Stjórnarandstaðan, sem Björt framtíð tilheyrði fram að áramótum, taldi heilbrigðiskerfið í rúst. Nýr heilbrigðisráðherra, formaður Bjartrar framtíðar, segir núna að kerfið sé ekki rúst þótt eitthvað þurfi þar að lagfæra.

Fjölmiðlar, já, þessir sem gorta sig af staðreyndum, hljóta að kveða upp úr: rúst eða ekki rúst. Annað tveggja er augljóslega rangt.

Eða er þetta kannski spurning um sjónarhorn? Einn sér rústir en annar ekki. Spurningin er aðeins hvort viðkomandi sé í meirihluta eða minnihluta á alþingi.

 


mbl.is „Ekki rjúkandi rúst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-fréttir af alþingi eru falsfréttir

Það er ekki frétt að stjórnarandstaðan á alþingi sé óánægð. Ekki frekar en að það sé frétt að fólk mæti í vinnuna. Sjálfsagðir hlutir sæta ekki tíðindum.

Ekki-fréttir af óánægju stjórnarandstöðunnar eru ein gerð falsfrétta. Reynt er að telja okkur trú um að hundshaus minnihlutans sé tíðindi.

Aftur væri það frétt ef stjórnarandstaðan viðurkenndi að þingræði felur í sér að meirihlutinn á hverjum tíma eigi að koma fram í þingvilja. En það er langt í þá frétt.


mbl.is Buðu ákveðnum einstaklingum formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendabækur, falsfréttir og sögulok

Heimsendabækur eins og 1984 eftir Orwell og Veröld ný og fögur eftir Huxley voru skrifaðar á tímabilaskiptum í vestrænni sögu. Eftir seinna stríð stóð kommúnisminn, grár fyrir járnum, sem valkostur við vestrænt lýðræðisskipulag.

Orwell og Huxley eru aftur í tísku. Ástæðan er að stórpólitískir atburðir, Brexit og Trump, skora viðtekna hugmyndafræði alþjóðahyggjunnar á hólm, líkt og kommúnisminn ógnaði vesturlöndum fyrir 70 árum.

Falsfréttir eru sagðar orsök söguloka alþjóðahyggjunnar. Það er klén greining. Skáldskapur í fjölmiðlum og tíst samfélagsmiðla breyta ekki gangi sögunnar.

Ásakanir um falsfréttir og valkvæðar staðreyndir eru mótmæli þeirra sem syrgja tapaða alþjóðahyggju og óttast framtíðina. Óttinn er skiljanlegur. Framtíðin er í meiri óvissu núna en allar götur frá hátindi kalda stríðsins. Sögulok tímabils marka upphaf annars. Við vitum ekki hvaða.

 


mbl.is Sala á 1984 rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband