Bretland: hagvöxtur eftir Brexit

Hagvöxtur tekur kipp eftir að Bretar semja um úrsögn úr Evrópusambandinu, Brexit, segir í efnahagsspá í Telegraph. Stórsigur Íhaldsflokksins í þingkosningum í desember ryður brautina fyrir úrsögn sem breska þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmum þrem árum.

Það þurfti tvennar þingkosningar í Bretlandi til að knýja í gegn þjóðarvilja. ESB nýtti sér veikleika vestræns lýðræðis til að ala á sundurþykkju í breskum stjórnmálum. Lærdómurinn sem Evrópuþjóðir, Íslendingar meðtaldir, draga af Brexit-ferlinu er að ESB er stórhættulegt lýðræðinu og samheldni þjóða. 

Brexit eflir andstöðuna gegn aðild Íslands að EES-samningnum sem ESB notar á óskammfeilinn hátt til sækja sér auknar valdheimildir, nú síðast með orkupakka 3.

Gangi hagvaxtarspáin eftir fyrir Bretland verður það enn ein staðfestingin á að fullvalda þjóð vegnar betur utan ESB en innan ríkjasambandsins.


Börn, þjáning og bylting

Jesú-barnið breytti heiminum. Án frásagnarinnar um meyfæðinguna í Betlehem væri saga mannkindarinnar önnur síðustu tvær þúsaldir eða svo. Jafnvel þeir sem heitastir eru í vantrúnni geta ekki neitað því.

Það var þó ekki fæðingin sem gaf lífi Jesú umsköpunarmáttinn heldur dauði. Sá dauðdagi var í senn merktur hryllingi og niðurlægingu. Rómverjar beittu krossfestingu til að halda í skefjum uppreisnartilburðum þeirrar stéttar sem bar á herðum sínum veldi Rómar - þrælanna. 

Tom Holland segir í yfirferð á upphafi kristni að ekki fyrr en 300 árum eftir fæðingu frelsarans gátu kristnir fengið sig til að sýna Krist á krossinum. Dauðdaginn þótti of lítillækkandi. Skylda hugsun leggur Landnáma í munn Ingólfs Arnarsonar þegar hann stendur yfir dauðum Hjörleifi frænda og fóstbróður: ,,Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða..." Álík er hörmungin að deyja eins og þræll og vera drepinn af þrælum.

Kirkjan sneri lítilmótlegum dauðdaga sonar trésmiðsins frá Nasaret upp í hetjufrásögn. Dauði í nafni sannleikans varð eftirsóttur. Píslarvætti er kröftug kristin hugmynd sem snjall áróðursmaður í Arabíu, Múhameð að nafni, gerði að sinni á sjöttu öld til að umbylta samfélagi manna. Við sitjum uppi með afleiðingarnar.

Yngsta dæmið um sporgöngumenn Betlehem-drengsins er sænska aðgerðabarnið Gréta Thunberg og hlýnunarsannleikurinn. New Republic segir Grétu afhjúpa loftslagssyndir eldri kynslóðarinnar. Gréta og aðstoðarlið hennar kann líka að spila á þjáninguna. Blessað Grétu-barnið varð úrvinda að sitja á gólfinu í þýskri lest. Deilt er um hvort myndin sé sviðsett, eins og raunveruleikinn skipti einhverju máli þegar píslarvætti er annars vegar.

Börnin eru blessun. Sagan af Jesú-barninu sem fæddist til að deyja á krossinum er áhrifamesta og fallegasta heimsfrásögnin. Þann tíma sem Jesú starfaði sem fulltíða maður, líklega um 2-3 ár, var hann elskulegur og allra vinur, ekki síst barnanna. Sagan um hann er öllum hollt veganesti. Kjarni sögunnar er að við umbyltum fyrst okkur sjálfum áður en við kássumst upp á aðra. Þjáningin í þeirri iðju er alltaf persónuleg.   

 


Andinn og efnisheimurinn

,,Vísindi - hver gat efast um þau - voru lykillinn að hamingjunni. Efnisheiminn var hægt að skipuleggja manninum til dýrðar og framtíðarkynslóðum til hagsbóta."

Tilvitnunin er úr formála Paul Hazard í bók sem kom út 1935 og fjallar um rætur upplýsingarinnar en samtíminn er afkvæmi hennar.

Núna, 84 árum eftir útgáfu bókarinnar og rúmlega 300 árum eftir frumdrætti upplýsingarinnar, er hægt að slá föstu að andinn víkur ekki svo glatt fyrir efninu. Vísindin efnisheimsins opna ekki dyrnar að hamingjunni.

Í friði í mesta skammdeginu er tími til íhugunar.

Gleðileg jól.


Eftir nýfrjálshyggju og kratisma

Nýfrjálshyggja Reagan og Thatcher fékk framhaldslíf með tæknikratisma Obama og Blair, segir efnislega í uppgjöri vinstriútgáfunnar New Republic við áratuginn sem er að líða.

Eftir tæknikratisma Obama og Blair reyndu engilsaxneskir frjálslyndir og vinstrimenn fyrir sér með róttækari stefnumálum sem má kenna við Bernie Sanders og Elisabeth Warren í Bandaríkjunum og Jeremy Corbyn í Bretlandi. Hvorugt er almennilega að gera sig, samanber úrslitin í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi og prófkjörsbaráttu demókrata í Bandaríkjunum.

Nýfrjálshyggjan skorar heldur ekki hátt. Markaðsbúskapur er almennt talin skásta skipan efnahagsmála en jafnframt gefið að ríkið eigi að tryggja almenna velferð.

Efnahagsmál og velferð voru miðlægir þættir í nýfrjálshyggju og tæknikratisma. Vettvangur pólitískra deilna er annar síðustu ár. Frá 2016, með kjöri Trump og Brexit, er sjálfsskilningur einstaklinga og þjóða miðlægur. Þar má greina nýjar meginandstæður.

Í fyrsta lagi vinstriættaðar hugmyndir um að einstaklingurinn þrífist best í alþjóðasamfélagi. Í öðru lagi hægrihugmyndir um að þjóðríkið sé hornsteinn er tryggi samheldni samfélaga.

Af þessu leiðir horfa vinstrimenn til alþjóðlegra vandamála, t.d. loftslagsvá, er kalla á alþjóðavald á meðan hægrimenn eru tortryggnir á yfirþjóðlegt vald.

Á bakvið andstæðurnar liggur gagnólík sannfæring um hvar maðurinn eigi heima. Vinstrimenn eru hallir undir heimsborgarann sem í krafti menntunar, tengsla og þokkalegrar afkomu getur átt heima hvar sem er á jarðarkringlunni eins lengi og hann búi að nettengingu og morgunsopinn sé latté. Hægrimenn telja aftur að maðurinn eigi heima þar sem menningarlegar rætur hans liggja.

Pólitík er nú á dögum meira spurning um gildismat en efnahagspælingar.


Play: fáum lán frá farþegum

Flugfélagið Play er ekki til nema í formi Excel og fáeinna starfsmanna. Félagið hyggst selja framiða frá janúar en byrja að fljúga í vor eða sumar.

Réttnefni á félagi sem fær lán frá væntanlegum viðskiptavinum er Von og óvon.

Farmiðasalan í janúar verður mælikvarði á áhættusækni almennings.


mbl.is Play stefnir á miðasölu í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, Úkraína og Afganistan

Frjálslyndir og vinstrimenn telja að gerspillt stjórnvöld í Úkraínu eigi rétt á áskrift að bandarísku skattfé. Allt sem truflar sjóðsstreymið, t.d. rannsókn á spillingu frjálslyndra Biden-feðga, eru landráð.

Bandarísk utanríkisstefna er í herkví þverpólitískrar elítu sem á máli heimamanna kallast leðjan ,,blob" og er ekki hátt skrifuð af Trump.

Afrekalisti leðju-elítunnar í Washington er slíkur að sómakærum fræðimönnum býður við. Til dæmis Stephen M. Walt sem skrifaði bók um hörmungarnar undir heitinu Helvíti góðs ásetnings

Bókin kom út síðast liðið haust og sagði fyrir tímamót. Bandarísk utanríkisstefna er á umbyltingarskeiði. Dagblaðið Washington Post birti nýverið Afganistan-skjölin sem sýna algjöra vanhæfni bandarískrar utanríkisstefnu sem breitt var yfir með lygum og falsfréttum. Vinstriútgáfan The New Republic spyr hvers vegna Afganistan-skjölin valdi ekki meiri umtali en raun ber vitni.

Svarið liggur í Úkraínu-málinu. Frjálslyndir og vinstrimenn vilja hanka Trump fyrir skort á stuðningi við stjórnvöld í Kiev sem leðju-elítan hefur útnefnt sem bandamann. Fréttir af hörmulegri frammistöðu sömu elítu í Afganistan spilla fyrir aðförinni að Trump. 


mbl.is Aðstoðinni slegið á frest skömmu eftir símtalið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Namibía er ekki íslensk stjórnmál

Það sem gerist í Namibíu er íslenskum stjórnmálum óviðkomandi. Íslensk stjórnmál, og þar af leiðandi almenningur, báru ekki ábyrgð á starfsemi íslenskra einkabanka í Hollandi og Englandi fyrir hrun og ekki heldur á útgerð Samherja í Namibíu eftir hrun.

RÚV reynir að telja okkur trú um að Íslendingar almennt beri ábyrgð á háttsemi íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu, gerði það bæði í Icesave-deilunni og Namibíumálinu. Hvað seinna málið áhrærir hvílir tengingin á milli íslensks fyrirtækis og namibískrar spillingar á heimildarmanni sem hættir til ölæðis og fjárkúgunar.

RÚV býr til pólitík handa vinstrimönnum sem bæði er slompuð og kúgandi. 


mbl.is „Töluverð vegalengd frá Öxarfirði til Namibíu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan, heimsvaldastefna og erfðasyndin

Macron Frakklandsforseti biðst afsökunar á heimsvaldastefnu Frakka í Afríku. Að öðru leyti er Macron í álfunni sem Rómverjar gáfu nafn til að styrkja stöðu franskra hagsmuna og berjst við öfgamúslíma.

Orðfærið, sem forsetinn notar, um mistök ,,lýðveldisins", vísar allt aftur til 1792 þegar lýðveldið var fyrst stofað í kjölfar blóðugrar byltingar gegn konungseinveldi.

Sagan geymir mörg hryðjuverk. Ef svokallaðar ,,menningarþjóðir" ættu að biðjast afsökunar á ábyrgð sinni á þeim yrði fátt annað á dagskrá stjórnarráða stærri ríkja í henni veröld.

Heimsvaldastefna var viðurkennd alþjóðapólitík á 19. öld. Ófarir Evrópuríkja á síðustu öld, tvær heimsstyrjaldir sem gerðu Evrópu veika en Bandaríkin og Sovétríkin sterk, má rekja til heimsvaldastefnu í Afríku og á Balkanskaga á 19.öld.

Tveir áberandi þættir í heimsvaldastefnunni eru kristni og hugmyndin um yfirburði hvíta kynstofnsins, kölluð kynþáttahyggja eða rasismi. Á rasisma er margfaldlega búið að biðjast afsökurnar á og dugir ekki til af marka á fréttir. Kristni er aftur stikkrí og jólahátíðin ekki (enn) orðin skömmustuleg afsökunarbeiðni til heimsbyggðarinnar.

Kristni er hugmyndafræði ásamt því að vera trúarbrögð. Tvöfalt hlutverk trúarbragða verður augljóst þegar við lítum á þau sem ekki eru okkur í blóð borin. Guðlaus maður og einn harðasti gagnrýnandi múslímatrúar, Hamed Abdel-Samad, segist engu að síður vera múslími. Íslenska höfðingjastéttin á þjóðveldistíma hét goðar, voru heiðnir prestar, og héldu þeim titli í meira en 250 ár eftir kristitökuna.

Hugmyndafræði, í merkingunni ráðandi viðhorf, réttlætir framferði einstaklinga, samfélaga og ríkja á hverjum tíma. Þegar beðist er afsökunar á óhæfu liðinnar sögu er erfðasyndinni játað. Sem er kristin hugmynd. 

 

 


2010-2020: frjálslyndi tapar, neysla minnkar

Áratugurinn sem er að líða var ömurlegur fyrir frjálslynda, segir frjálslynda útgáfan New Republic. Misheppnað hernaðarbrölt í Afganistan í kjölfar ósigurs í Írak setti stopp á þann draum að móta heiminn í anda vestræns frjálslyndis.

Sigur Trump 2016 markar vatnaskil í bandarískum stjórnmálum. Síðan eru frjálslyndir á flótta. Sama ár og Trump tók Hvíta húsið kusu Bretar að yfirgefa Evrópusambandið, Brexit, og þar með var evrópska útgáfa frjálslyndrar vinstristefnu fyrir bí.

Vinstrafrjálslyndi var fylgifiskur vestrænnar neysluhyggju eftirstríðsáranna. Meira og stærra var boðorðið. Neysla, velmegun og útþensla var frjálslyndum það sem guð, sonur og heilagur andi er kristnum.

Matt Rildley segir almenning á vesturlöndum neyslugrennri á síðasta áratug en áður. Hnignun frjálslyndis helst í hendur við vaxandi hófsemi. 

 

 


Hægrisveifla á Íslandi

Sjálfstæðisflokkurinn stöðvar blæðinguna til Miðflokksins, sem þó heldur sínu. Þetta er stóra fréttin í nýjustu könnun á fylgi flokkanna. Stórsókn Miðflokksins síðustu missera virðist halda. Flokkurinn er við steypa Samfylkingu af stalli sem næst stærsta stjórnmálaaflið á þingi.

Sósíalistar taka jólin snemma, eru með mann á alþingi. Vöxtur flokka, sem eru hvor á sínum enda pólitíska litrófsins, veit skarpari pólitísk skil en áður. Sem eru góðar fréttir enda þreytandi að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn taka á sig samfylkingarblæ.

Sósíalistar sækja á kjósendahópa Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata, sem munu hallast til vinstri verði þessi þróun staðfest næstu mánuði og skapa þar með aukið rými fyrir borgaralega flokka á miðjunni.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 20%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband