Sunnudagur, 7. nóvember 2021
Femínistar gegn transkonum, kynjastríð í háskólum
Transkona var áður karl en fann út innra með sér að vera kona. Sem sagt, karl verður kona með hugdettu. Sá sem segir að karl geti ekki orðið kona si svona er haldinn transfóbíu, sem þykir ekki gott.
BBC segir að lesbískar konur séu fordæmdar fyrir transfóbíu ef þær vilja ekki stefnumót með transkonum. Einhver hluti transkvenna er lesbískur og finnst á sér klekkt að komast ekki á sjens með raunverulegum konum. Réttindamálin gerast ekki öllu brýnni.
Transkonur skekkja tölfræði glæpa. Lögbrot glæpakarls, sem segist vera kona, eru flokkuð sem kvenglæpir. Þar fyrir utan eru kvennafangelsi huggulegri vist en betrunarhús karla.
Femínistar eru sumir ekki allof kátir með þá þróun að karlar valsi inn í þeirra heim með forskeytið trans. Kathleen Stock heimspekingur og femínisti missti vinnuna eftir að hún andmælti þeirri ríkjandi skoðun í bresku háskólasamfélagi að karlmaður gæti orðið kona kjósi hann það. Kynin eru hlutlæg, efnisleg og breytast ekki eftir geðþótta, sagði Kata spaka og uppskar ofsóknir fyrir bragðið.
Kathleen Stock og annar háskólafemínisti, Julie Bindel, ræða í 50 mínútur um þessa áskorun femínista að hafna transkonum sem raunverulegum konum.
Samtalið er afhjúpandi fyrir vanda vestrænna háskóla. Þeir eru uppteknir af heimatilbúnu kynjastríði. Í háskólum verður til hugmyndin að kyn sé ekki líffræðileg staðreynd heldur spurning um hvað manni finnst, eiginlega smekksatriði. Transhugmyndin er hliðargrein öfgafemínista sem kenna að uppspretta illskunnar sé í karlaheimi. Trans er orð yfir kynrænt kennitöluflakk. Maskúlín verður femínin með yfirlýsingu. Tækifærissinnaðir karlar grípa gæsina og gerast konur á núll einni þjóni það stundarhagsmunum. Samkvæmt fræðikenningunni er alltaf hægt að ómerkja einn geðþótta með öðrum. Transkona verður aftur karl bjóði honum/henni svo við að horfa.
Ef líffræðilegt kyn er ekki spurning um hlutlægan veruleika heldur hugmyndafræði er tilgangslaust að nota hugtökin karl og kona. Ef maður getur verið karl fyrir hádegi en kerling síðdegis er kynjahugtakið merkingarlaust. Í daglegum reynsluheimi skiptir kyn máli. Sá sem ekki er með það á hreinu ætti að prófa að fara inn í búningsklefa fyrir andstætt kyn og kanna viðtökurnar. Karl fer ekki á klínik vegna túrverkja; kona fær ekki ráð við pungsigi á heilsugæslu.
Karlar í auknum mæli nenna ekki háskólum. Prófgráður frá háskólum gefa æ minna í aðra hönd á vinnumarkaði. Ástæðan liggur í augum uppi. Háskólar eru orðnir eins og miðaldakirkjan sem hélt námskeið um það hversu margir englar kæmust fyrir á títuprjónshaus. Ekki beinlínis til að skerpa á gagnrýninni hugsun að ræða engla á nálarhaus og kyn sem breytast með forskeyti. Háskólar með slík viðfangsefni eru húmbúkk.
Kynjastríð háskólafólks er til marks um hnignun æðstu menntastofna. Frá háskólum smitast ruglfræðin út í samfélagið. Haldi fram sem horfir verður til marks um greind og sjálfstæða hugsun að hafa ekki farið í háskóla.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 7. nóvember 2021
Sólveig Anna og dýptin í sósíalismanum
Í uppgjör Sólveigar Önnu við vinnustað sinn, Eflingu, þar sem hún var formaður, segir hún um starfsfólk Eflingar:
þau viðurkenna ekki og skilja þann samfélagslega raunveruleika sem við búum við. Þau viðurkenna ekki og skilja ekki það eignarhald sem auðstéttin hefur á þessu samfélagi og þar með viðurkenna þau og skilja ekki að til þess að ná árangri þá þarf að sýna þrek og þor og hugrekki og kappsemi.
Þetta er þunnur sósíalískur þrettándi hjá Sólveigu Önnu. Samkvæmt vísindalegum sósíalisma Marx er það byltingin ein sem skiptir máli, en ekki mannlegir eiginleikar eins og þrek, þor og kappsemi. Með byltingunni eru framleiðslutækin tekin úr höndum ,,auðstéttarinnar" og færð launþegum, sem Marx kallaði ýmist verkmenn eða öreiga. Sósíalistaævintýrið er að launþegar skapi í framhaldi paradís á jörð.
Tilraunir með sósíalisma í Sovétríkjunum og A-Evrópu á síðustu öld og Venesúela á þessari skiluðu almenningi fátækt og kúgun.
Launþegar hafa það harla gott nú um stundir, betra en nokkru sinni í sögunni. Það er ekki þrátt fyrir kapítalisma og auðstétt heldur einmitt vegna þeirra.
Sósíalismi er ævintýri sem verður að steintrölli um leið og hann hittir fyrir veruleikann. Sólveig Anna segir starfsfólk Eflingar aldrei sett sig inn sósíalísku baráttuna af ,,þeirri dýpt sem þarf til að skilja hana." ,,Dýptin" í ævintýrum er blekkingin.
Ævintýri er eitt en veruleikinn annað. Hversdagsleikinn er blátt áfram en ævintýrin hugarflug um lönd og heima sem hvergi finnast. Börn vaxa úr grasi og læra að aðgreina reynd frá skáldskap. En sumir verða alltaf börn með höfuðið á kafi í ,,dýpt" blekkingarinnar.
![]() |
Þau skildu aldrei þessa baráttu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 6. nóvember 2021
Barn bjargar heiminum: Jesú, Jóhanna og Gréta
Vestræn menning er veik fyrir frelsara í barnslíkama. Sakleysi barnsins vottar að það hafi ekki aðra dagskrá en að bjarga syndugum heimi frá tortímingu.
Jesú reið á vaðið fyrir tvö þúsund árum, eingetinn sonur guðs. Með honum hefst eingyðistrú, einn járnharður sannleikur um lífið og tilveruna. Tvær meginstoðir kristni eru að guð skapaði heiminn og maðurinn er ófullkominn, syndugur. Í þessu felst að maðurinn hefur líf sitt og heimkynni, móður jörð, að láni frá almættinu.
Vasaútgáfur af Jesú eru þó nokkrar i gegnum tíðina. Þjóðardýrlingur Frakka, Jóhanna af Örk, tók sviðsljósið í lok miðalda til að sameina þjóðina og reka synduga Englendinga af franskri grundu. Bernsk trú sigrar hernaðarmátt.
Gréta Thunberg fylgir sniðmáti Jesú og Jóhönnu. Við lifum trúlausa tíma og Gréta getur ekki ákallað guð almáttkan líkt og forverar. Í takt við ráðandi vísindahyggju freistar Gréta þess að sameina mannkyn gegn ósýnilegri lofttegund, CO2 eða koltvísýringi.
Vandast nú málið eilítið. CO2 er forsenda lífs á jörðinni. Ef magn CO2 fellur niður fyrir 150 ppm svelta plöntur og skógar eyðast. Frá 1960 til samtímans hefur magnið aukist úr 280 í 400 ppm og jörðin grænkar.
Ráðgjafar Grétu segja aukinn koltvísýring valda hamfarahlýnun. Enn bólar ekkert á hlýnun sem tjón er af - það mun gerast í framtíðinni. Á dögum Jesú og Jóhönnu var talað um eilífðina, núna um framtíðina.
Engu skiptir þótt loftslagsvísindamenn, t.d. Richard Lindzen og William Happer, segja trú á manngert loftslag byggt á vanþekkingu og staðleysu. Gréta og fylgjendur hennar gera mestan hávaðann og í skjóli hans þrífast bábiljur. En það kemur að leikslokum sýningarinnar um manngert loftslag.
Jesú og Jóhanna dóu ofbeldisdauðdaga, á krossinum og bálinu. Góðu fréttirnar, bæði fyrir Grétu og samtíma okkar, er að allar líkur eru á að sænska stúlkan verði í fyllingu tímans miðaldra í heimi þar sem sannindi trompa bábiljur.
En það verður að setja fyrirvara. Við viljum hafa fyrir satt að sannindi sigri hávært blaður og vanþekkingu. Áhrifamáttur Grétu og fylgjenda hennar síðustu misseri gefur aftur til kynna að alþjóð er tilbúin að trúa hverju sem er. Bara að það sé sagt í barnslegri einlægni.
![]() |
Greta Thunberg segir COP26 eitt stórt klúður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 5. nóvember 2021
Eftir Glasgow: meiri olíu og gas, takk
Orkumálaráðherra Bandaríkjanna biður OPEC, olíuframleiðsluríkin, að framleiða meiri olíu. Evrópusambandið herjar á Pútín í Rússlandi að framleiða meira gas. Orkureikningar evrópskra heimila eru á hraðri uppleið vegna orkuskorts.
Krafa um auka framleiðslu jarðefnaeldsneytis er uppi viku eftir að Bandaríkin og Evrópusambandið sögðu í Glasgow að brennsla þessa eldsneytis væri jörðina lifandi að drepa.
Langtímaspá gerir ráð fyrir að veturinn í Ameríku verður kaldur og snjóþungur. Ekki kjöraðstæður fyrir vindmyllur og sólarrafhlöður.
Trúverðugleiki heimsleiðtoga er í húfi. Einn daginn segja þeir olíu og gas drepa siðmenninguna en daginn eftir panta þeir meira af olíu og gasi. Mótsögnin getur ekki verið augljósari. Sumir spá endalokum hamfaratrúar á manngert veðurfar þegar tvöfeldnin rennur upp fyrir alþjóð.
En maður veit ekki. Þeir eru svo margir sem trúa einu fyrir hádegi en allt öðru síðdegis sama dag. Eins lengi og trúað er í einlægni skipta sannindi engu máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 5. nóvember 2021
Þolendavaldið
Ungur karlmaður, leikari, sagði sig þolanda útskúfunarmenningar. Hann sendi frá sér mynd af kynfærunum fyrir 4 árum og fær ekki vinnu síðan. Óðara risu á afturfæturna helstu handhafar þolendavalds, öfgafemínistar, fussuðu og sveiuðu og sögðu leikarann geranda en alls ekki þolanda.
Femínistar vita sem er að ef viðurkennt er að konur standi til jafns við karla í samfélaginu hverfur grundvöllur þolendavalds. Öfgakonur mega ekki til þess hugsa að konur séu annað en leiksoppar feðraveldis. Veruleikinn er aftur sá að konur sitja í æðstu embættum til jafns við karla. Ung kona í dag hefur sömu tækifæri í lífinu og ungur karl.
í baráttunni um verkalýðsfélagið Eflingu eru tveir aðilar í harðri samkeppni um þolendavaldið. Fallna sósíalíska tvíeykið Sólveig Anna og Viðar annars vegar og hins vegar skrifstofufólk Eflingar.
Sá sem keppir um þolendavald útmálar bágindi sín sterkum litum. Höfðað er til aumingjagæsku.
Í gamla bændasamfélaginu voru þeir kallaðir aumingjar sem voru ósjálfbjarga, upp á aðra komnir. Öfgafemínistar og sósíalistar þrífast í skjóli borgaralegrar mannúðar í samfélagi byggðu á kristnum gildum.
Þolendavaldið er tjáning á sjálfsfyrirlitningu aumingjans sem er illa gerður til hugar og handa en heimtar velgjörðir út á það að vera viðrini. Hótunin er að bera út velgjörðamanninn sem níðing fái viðrinið ekki sitt fram.
Fimmtudagur, 4. nóvember 2021
Iðrun
Krafa samtímans er iðrun. Maður á sem einstaklingur að iðrast gjörða sinna sé minnsta hætta að á vegkantinum eftir lífsins ferðalag sitji þolandi orða manns og athafna.
Við eigum sem tegund að iðrast gjörða okkar, sérstaklega fyrir að hafa böðlast á móður jörð allan þennan tíma.
Á undan iðrun komi sjálfgagnrýni þar sem bæði einstaklingur og mannkyn allt játar á sig stórar syndir og smáar. Krafan um að beygja sig í duftið er jafngömul kristni. Veraldleg trúarbrögð, s.s. kommúnismi, beittu henni óspart á velmektardögum sínum.
Þegar til stykkisins kemur eigum við að iðrast að hafa fæðst og dregið lífsandann.
Iðrunarmenningin nær fyrirsjáanlega hámarki innan tíðar. Líkt og önnur menningarfyrirbæri rís og hnígur ein bylgja og önnur tekur við. Þegar glittir í næstu tísku. Það má veðja á að eftir iðrun kemur hroki. Þolendahroki.
Eins og segir ekki í heilagri ritningu: Sælir eru þolendur. Þeir munu landið erfa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 3. nóvember 2021
Sósíalískur vinnufriður er mótsögn
Sólveig Anna var kjörin formaður Eflingar í mars 2018. Kjörsókn var 15%. Þau 2099 atkvæði sem listi Sólveigar Önnu fékk voru ekki sterkt umboð í félagi með 16500 félagsmenn.
Sólveig Anna og bauð sig fram undir merkjum sósíalista sem sjá arðræningja og stéttaróvini í hverju horni.
Herskár málflutningur Sólveigar Önnu og félaga er úr tóni og takti við siði og venju á vinnumarkaði. Sósíalískur vinnufriður í borgaralegu samfélagi er mótsögn. Annað hvort varð að víkja, veruleikinn eða sósíalisminn. Byltingin fjaraði út á skrifstofum fyrsta sósíalíska verkalýðsfélagsins á þessari öld. Ekki kemur það á óvart.
![]() |
Beiðni um vinnufrið afdráttarlaust hafnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. nóvember 2021
Nornaveiðar og loftslag
Konur voru brenndar á báli á 17. öld, sakaðar um að vera nornir. Litla ísöld er tímabilið kallað frá 1300 til 1900. Á kaldasta tímabilinu 1560 til 1580 var kveikt í konum í kippum í Evrópu. Það þurfti að kenna einhverjum um kuldakastið, segir í samantekt um málið.
Á 17. öld trúði almenningur að nornir væru til. Í samtímanum trúir almenningur á syndina í manninum.
Á 17. öld var kuldatíð sem enginn gat skýrt nema með vísun í yfirskilvitleg öfl. Á okkar dögum er hvorki kulda- né hitatíð. Frá 1880 hefur meðalhiti hækkað um eina gráðu. Það er viðurkennd staðreynd, óumdeild. Hamfarirnar eru í huga fólks ekki veruleikanum.
Án staðreynda er skáldað um framtíðina, að hún verði manngerð hörmung. Sænsk saklaus unglingsstúlka flytur boðskap um endalok heimsins. I leiðinni varpar Gréta ljósi á trúarmenninguna um syndugt mannkyn. Vísindaskáldskapur og erfðasyndin. Gott bíó.
![]() |
Greta segir stjórnmálamenn bara vera að þykjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. nóvember 2021
Sími skipstjórans í Samherjamálinu
Í viðtengdri frétt segir að lögreglan þurfi úrskurð dómstóla til að rannsaka innhald snjallsíma í tengslum við glæparannsókn.
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að lögreglustjóranum á Suðurnesjum sé heimil rannsókn á rafrænu efnisinnihaldi Samsung-snjallsíma sem lagt var hald á 23. október síðastliðinn.
Víkur þá sögunni að Samherjamálinu. Í sumar var frétt um að síma Páls Steingrímssonar skipstjóra hafi verið stolið meðan hann lá á milli heims og helju á sjúkrahúsi. Garðar Gíslason lögmaður Samherja staðfestir það í samtali við Morgunblaðið í maí.
Páll er skipstjóri hjá Samherja og hafði svarað RÚV-málflutningi um meinta spillingu Samherja fullum hálsi en átti að öðru leyti enga málsaðild.
Eftir að síma Páls var stolið komst innihald símans til RÚV og samstarfsfjölmiðla sem vitnuðu ótæpilega í samskipti Páls við aðra undir þeim formerkjum að Páll væri í ,,skæruliðadeild" Samherja.
En nú vaknar spurning. Fékk RÚV eða einhver samstarfsaðili dómsúrskurð til að nota efni úr snjallsímanum? Það er harla ólíklegt enda hefði Páll skipstjóri líklega eitthvað um það að segja hvort sóttar væru upplýsingar í símann.
Varla er það svo að RÚV og samstarfsaðilar hafi rýmri heimild en lögreglan að skoða síma einstaklinga út í bæ sem hafa það eitt til saka unnið að bera blak af Samherja?
Einhverra hluta vegna gufaði allur fréttaflutningur upp af stolnum síma Páls skipstjóra. Alveg eins og fréttum af því að engin ákæra var gefin út í Namibíu á Samherja var sópað undir teppið á ótilgreindri deild.
Eftir stendur rökstuddur grunur um alvarlegt brot á mannréttindum Páls Steingrímssonar. Verður málið ekki rannsakað? Mun enginn þurfa að svara til saka?
![]() |
Mega skoða síma vegna meintra hótana og ofbeldis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. nóvember 2021
Jóhannes breytir frásögninni: mér er óhætt á Íslandi
Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í Namibíumálinu, breytir fyrri frásögn um að sóst sé eftir lífi hans á Íslandi. Nýja frásögnin er Stundinni, en þar segist Jóhannes óttast um líf sitt og heilsu í Namibíu þar sem hann áður starfaði og skildi eftir sig sviðna jörð.
Þorsteinn Már forstjóri Samherja kærði Jóhannes til lögreglu í vor ,,fyrir rangar sakargiftir vegna fullyrðinga um tilraun til manndráps og frelsissviptingar."
Jóhannes hefur búið á Íslandi síðustu ár í friði fyrir mönnum og málleysingjum. Hann nýtur þess að Ísland er réttarríki. Friðhelgi og mannréttindi nota sumir til að koma höggi á menn og fyrirtæki sem ekkert hafa til saka unnið annað en að sinna sínum störfum.
Í Namibíu hefur uppljóstrarinn játað á sig stórar sakir og á ekki auðvelt með að ferðast þangað suður án vandræða. Játningar Jóhannesar voru eina fóður RÚV til seinni atlögu að Samherja, eftir að fyrri árásin, kölluð Seðlabankamálið, rann út í sandinn.
Nú þegar frásögn Jóhannesar tekur stakkaskiptum mætti búast við að RÚV láti alþjóð vita og sinni þar með skyldu sinni. En nei, ekki orð frá RÚV um sinnaskipti aðalheimildarmanns stærsta fréttamáls síðustu ára. Ekki frekar en að Efstaleiti greini frá því að enginn aðili tengdur Samherja fékk á sig ákæru í svokölluðu Namibíumáli.
RÚV bíður og vonar að tíminn sópi Namibíumálinu undir teppið. En teppið á fréttadeildinni getur ekki hulið óhreinindin. Þá er reynt að hylja ósómann á annarri deild.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)