Sunnudagur, 5. júní 2022
Fúkyrði, sjálfsálit og sannfæring
Þjóðmálaumræðan einkennist af æsingi, upphrópunum og fúkyrðaflaumi, skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir í Fréttablaðið.
Peter Hitchens, sem einu sinni var vinstrimaður, segir ástæðuna fyrir heift vinstrimanna þá að þeir séu sannfærðir um eigið ágæti annars vegar og hins vegar réttmæti málstaðarins.
Vinstristefna, hvort heldur kratismi eða sósíalismi, taldi sig kunna uppskriftina að framtíðinni. Þaðan kemur sannfæringin, að vita hvernig heimurinn á að vera. Ef uppskriftinni verður ekki fylgt, segja vinstrimenn, blasir við heimsendir. Ragnarök kapítalismans hét það fyrrum. Þegar sá heimsendir lét bíða á eftir sér fundu vinstrimenn nýja ógn, manngert veðurfar.
Vinstrimenn eru löngum flinkir í orðræðunni. Þeir setja saman tákn og texta með boðskapnum. Lítið dæmi er nýtt meint listaverk í fjörukantinum vestur í bæ, skammt frá JL-húsinu. í texta með verkinu er fjasað um súrnun sjávar. Dómsdagur er í nánd. Grétufræði gerð listræn. Á kostnað skattborgaranna, auðvitað.
Vinstrimenn eru gjarnan sérfræðingar á sviðum þar sem þekking er af skornum skammt. Þróun efnahagskerfa þóttust þeir sjá fyrir á 19. öld og á 21. öld hvernig veðrið verður eftir 50 ár. Samt þora ekki einu sinni veðurfræðingar að spá veðri nema nokkra daga fram í tímann. Litla þekkingu bæta vinstrimenn upp með sjálfsáliti og sannfæringu. Sé þeim andmælt er stutt í fúkyrðaflauminn.
Eins og dæmin sýna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 4. júní 2022
Víetnam og Úkraína
Norður-Víetnamar unnu ekki eina orustu gegn Bandaríkjamönnum í Suður-Víetnam á sjöunda áratug síðustu aldar. En allir sigrar Bandaríkjamanna komu fyrir lítið. Norður-Víetnamar unnu stríðið.
Í vestrænum fjölmiðlum, sjá t.d. hér, er gefið til kynna að Rússar séu í sömu sporum í Úkraínu og Bandaríkin í Víetnam fyrir hálfri öld. Ef þessi leið verður farin, segir leiðarahöfundur Die Welt, þýddi það óhemju mannfórnir.
Samjöfnuðurinn við Víetnam er langsóttur. Úkraína er að stórum hluta byggð Rússum, einkum austurhéruðin, þar sem bardagar eru harðastir. Stríðið í Garðaríki er borgarastyrjöld og væri innansveitarkróníka ef stjórnin í Kænugarði nyti ekki stuðnings vesturlanda.
Úkraínustríðið er 100 daga. Stoltenberg forstjóri Nató segir að stríðið gæti varað í einhver ár. Það er ólíklegt. Rússar eru við það að sigra austurhéruðin, Donbass, segir þýskur hernaðarsérfræðingur. Opin spurning er hvað verði eftir af úkraínska hernum. Tvennum sögum fer af herfræðinni. Ein er að stjórnin í Kænugarði sé tilbúin að fórna fremur mannskap en landi en hin að undanhaldið sé skipulagt og landi fremur fórnað en hermönnum.
Herirnir eru álíka stórir, hvor um 200 þús. Munurinn er sá að Rússar eiga til vara um eina milljón skráða hermenn. Úkraína er ekki með þá dýpt í mannafla.
Stjórnin í Kænugarði er vestrænt verkefni og hefur verið frá stjórnarbyltingunni 2014. Refsiaðgerðir vesturlanda gegn Rússland setja efnahagskerfi Evrópu og Ameríku í uppnám en virðast ekki knýja Rússa til uppgjafar. Þegar haustar verður spurt hversu miklar byrðar almenningur á vesturlöndum eigi að leggja á herðar sér til að Donbass-Rússar verði áfram innan landamæra Úkraínu.
Mestu mistökin, og meginástæða stríðsins sem nú er 100 daga, liggja í pólitík. Allt frá stjórnarbyltingunni 2014 og innlimun Krímskaga var hægt að semja án stórátaka. Tvo þurfti í þann friðartangó. En það var ekki dansað. Skotgrafir voru grafnar og heitstrengingar hafðar í frammi.
Að þessu leyti líkist Úkraína Víetnam. Ráðandi hugmyndafræði á vesturlöndum eftir seinna stríð var að sovésk-kínverskur kommúnismi ógnaði heimsbyggðinni. Víetnamstríðið var háð samkvæmt dómínókenningunni; félli Víetnam fær suðaustur Asía í heild sinni undir kommúnisma. Eftir það öll lönd í álfunni að Miðjarðarhafi og heimurinn í framhaldi. Í raun snerist Víetnamstríðið um að bændaþjóð vildi sitt eigið ríki.
Ríkjandi hugmyndafræði í dag er að Rússland, Pútín sérstaklega, vilji endurvekja Sovétríkin. Falli Úkraína færu Eystrasaltslöndin næst, og þar á eftir Pólland, undir Rússland. Í raun snýst Úkraínustríðið, séð frá sjónarhóli Rússa, um öryggi ríkisins. Úkraína sem Nató-land ógnar tilvist Rússlands. Pútín hefur aldrei sýnt áhuga að leggja undir sig smáríkin við Eystrasalt og enn síður Pólland.
Hugmyndfræði er sterkt afl, mótar stöðumat og aðgerðir. Hugmyndafræði vesturlanda gagnvart Rússlandi er röng, eins og hún var röng í Víetnam fyrir 60 árum.
![]() |
Hörðustu refsiaðgerðirnar til þessa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 3. júní 2022
Ál og fiskur, ánægja og öfund
Besta árið í sögu áliðnaðar er frétt sem vekur ánægju. Sambærilegar fréttir af góðri afkomu fiskveiða vekja ólund og öfund.
Almannagæði eru nýtt til álframleiðslu, orka fallvatnanna. Önnur almannagæði eru nytjuð af sjávarútvegi, fiskimiðin.
Hvers vegna veldur góð afkoma í einni grein ánægju en ólundin er ríkjandi vegna betra gengis annarrar atvinnugreinar?
Hefur það eitthvað með pólitík að gera?
![]() |
Spáir besta ári frá upphafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 2. júní 2022
Blaðamenn, óþurft og glæpir
Blaðamönnum fækkar jafnt og þétt. Það er ástæða sameiningar tveggja stéttarfélaga þeirra, Ff og BÍ. Upplýsingasamfélagið gerir blaðamenn óþarfa. Þeir hafa hvorki þekkingu né fagkunnáttu fram að færa sem eftirspurn er eftir.
Einu sinni svöruðu blaðamenn spurningunni ,,er þetta frétt." Ef já, þá varð úr frétt í fjölmiðli. Ef nei, þá engin frétt. Til að eitthvað yrði að frétt þurfti heimild. Sérgrein blaðamanna var heimildarýni.
Núna ræður umræðan á samfélagsmiðlum hvort eitthvað sé frétt eða ekki. Vinna blaðamanna fer í að þefa upp færslur á Twitter eða Facebook og gera úr þeim frétt. Heimildarýni er lítil sem engin. Í stað blaðamanna gæti sjálfvirkur teljari séð um að halda lista yfir flestar deilingar og mestan lestur á tilteknum færslum. Fréttin er sjálfssprottin, þarf ekki fæðingarhjálp blaðamanna.
Til að gera sig gildandi leiðast sumir blaðamenn á braut glæpa og siðleysis. Þeir skálda fréttir og taka bullukolla sem trúverðugar heimildir. Í refsikerfinu eru fjórir blaðamenn undir rannsókn fyrir aðild að byrlun og gagnastuldi. Heilir þrír fjölmiðlar eru undir í glæparannsókninni: RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar. Ef þessir fjölmiðlar væru lánastofnanir færu þeir í ruslflokk - enginn vildi ótilneyddur eiga við þá viðskipti.
Ríkisvaldið heldur lífinu í fjölmiðlum sem annars myndu ekki þrífast. Á meðan blaðamen eru sumpart óþarfir og að einhverju leyti lögbrjótar freistast ríkisvaldið til að halda uppi fjölmiðlum með almannafé. Nær væri að hætta öllum styrkjum og leggja niður RÚV. Blaðamennskan sinnti þá nauðsynlegum verkefnum en væri síður til óþurftar. Þaggað yrði niður í Glæpaleiti í eitt skipti fyrir öll.
![]() |
Grætur ekki titilinn og fagnar sameiningunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 1. júní 2022
Hvers vegna tapar Úkraína?
Úkraínu gengur illa í stríðinu við Rússa. Engar líkur eru að Nató-hermenn berjist við hlið Úkraínumanna. Vopnasendingar frá Ameríku og Evrópu komast seint og illa á austurvígstöðvarnar.
Stórskotalið gegnir lykilhlutverki. Fallbyssur og eldflaugar skjóta úr þriggja til 15 km fjarlægð á andstæðinginn. Þegar búið er ,,mýkja" andstæðinginn reynir fótgöngulið fyrir sér og freistar þess að hrekja óvininn af vígvellinum í krafti yfirtölu hermanna á vettvangi gegnumbrots. Myndbönd hafa sést sem minna á skotgrafahernað í fyrra stríði, fyrir rúmri öld.
Í þéttbýli er stundum barist húsi úr húsi. Oftar hörfar andstæðingurinn þegar hann skynjar að við ofurefli liðs er að etja. Í fáein skipti er herlið óvinarins umkringt og gefst upp, sbr. Marípupól.
Herir Úkraínu og Rússa eru álíka fjölmennir, um 200 þús. hjá hvorum aðila. Nær allur rússneski herinn er skipaður atvinnuhermönnum. Hluti úkraínska hersins er fenginn með herkvaðningu og er lítt reyndur í hermennsku. Mannfall er meira hjá Úkraínuher, líklega um 20 til 30 þús. en sennilega 10 til 15 þús. í her Rússa. Hvorugur stríðsaðili gefur upp tölur um eigið manntjón.
Rússar sækja fram hægt og sígandi en fátt er að segja af gagnsókn stjórnarhersins. Meginmunur virðist liggja í yfirburðum Rússa í stórskotaliði og flugvélastuðningi við árásir á jörðu niðri. Þá skiptir höfuðmáli að aðdrættir Rússa eru öruggari, birgðaleiðir eru styttri og tjón á flutningum töluvert minna en hjá Úkraínuher.
Vesturlönd gátu e.t.v. gert útslagið í upphafi átaka í lok febrúar. En nú er það um seinan. Þegar næg stríðsþreyta safnast upp hjá báðum aðilum verður gengið til samninga. Kannski í sumar en mögulega ekki fyrr en í haust. Þangað til ræður dauði og tortíming ferðinni.
![]() |
Ömurlegt að Evrópa fjármagni stríðsrekstur Pútíns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 31. maí 2022
Hve marga flóttamenn?
Hvað á Ísland að taka við mörgum flóttamönnum? Þrátt fyrir ómælda umræðu er hvergi að finna tilraun til að svara spurningunni. Hvað er eðlilegt að setja mikla fjármuni í að veita flóttamönnum þjónustu? Ekkert svar.
Í reynd snýst flóttamannaumræðan ekki um flóttamennina sjálfa. Umræðan er dygðaskreytni vinstrimanna og góða fólksins.
Löngu áður en sæi högg á vatni í flóttamannavanda heimsbyggðarinnar myndi íslenskt samfélag kikna undan vandanum.
Mennta- og heilbrigðiskerfið er nú þegar í erfiðleikum taka á móti útlendingum sem hingað sækja vinnu. En enginn ræðir þolmörkin.
Okkur er illa þjónað af stjórnmálamenningu sem forðast eins og heitan eldinn að tala um staðreyndir.
Forsætisráðherra segir einhverja koma hingað undir yfirskini flótta en eru í raun í leit að framfærslu.
Á meðan flóttamannaumræðan snýst um dygðaskreytni er ekki nokkur vegur að nálgast niðurstöðu.
![]() |
Lög um útlendinga staðist tímans tönn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 30. maí 2022
Sannmörkun falsfrétta
Sannmörkun er nýtt orð um fréttir og frásagnir sem teljast trúverðugar og sannar en eru rangar.
Þegar falsfréttir hafa náð tiltekinni útbreiðslu eru þær sannmarkaðar. Dæmi: yfirvofandi sigur Úkraínu í stríði við Rússa; veðurfar er manngert; kynin eru ekki líffræðilega ákveðin heldur félagslega.
Sannmörkun falsfrétta er ein helsta meinsemd opinberrar umræðu samtímans. Sést best á meðfylgjandi frétt sem boðar að gagnrýni á sannmörkun falsfrétta skuli bönnuð.
![]() |
Twitter í stríð gegn falsfréttum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 29. maí 2022
Hugmyndafræðin og Úkraína
Hvað græða vesturlönd ef svo ólíklega færi að Úkraína sigraði Rússland? Minna en ekki neitt. Pútin yrði velt úr sessi, óreiðuástand tæki við þar sem óljóst væri hver stjórnaði ríki með gnótt kjarnorkuvopna. Ástand í ætt við villta vestrið í kjarnorkuríki er martröð. Tap Rússa þýddi að ófriðarlíkur í heiminum ykjust stórlega.
Engin von er að rússneskur ósigur fæddi af sér lýðræði og stöðugleika þar eystra. Þannig gerast ekki kaupin á eyrinni.
Ef Úkraína tapar, sem er líklegri útkoma, yrði það niðurlægjandi fyrir vesturlönd. Líkt og tapið í Afganistan. Sumir segja að Pólland og Eystrasaltslönd yrðu næst á matseðli Pútin. En húsbóndinn í Kreml hefur ekki sýnt minnstu viðleitni að leggja undir sig Eystrasaltslönd. Þetta eru lítil ríki sem ógna ekki Rússlandi.
Úkraína ógnaði aftur Rússlandi með hugmyndum um að ganga í Nató. Allt frá Búkarest-fundi Nató árið 2008 svífur yfir vötnum innganga Úkraínu í Nató. Í 14 ár, eða fram að innrás Rússa 24. febrúar sl., var hægt að bera klæði á vopnin með yfirlýsingu um að Úkraína yrði ævarandi hlutlaust ríki utan hernaðarbandalaga.
Yfirstandandi stríðshörmungar í Úkraínu eru, í ljósi aðdraganda þeirra, ekki fagur vitnisburður um hæfni vestræna alþjóðakerfisins að leysa ágreining friðsamlega.
Hvers vegna þróuðust mál sem raun varð á?
Vestræn heimsskipan, sem grunnur var lagður að eftir seinna stríð og varð einráð við sigurinn í kalda stríðinu, með falli Sovétríkjanna 1991, virtist um aldamótin ætla að leggja undir sig heiminn.
Nató bólgnaði út í Austur-Evrópu, fékk til sín gömul bandalagsríki Sovétríkjanna. Samhliða stækkaði Evrópusambandið í austur. Í miðausturlöndum (Írak, Líbýa, Sýrland) og Afganistan var reynd vestræn umbreyting á múslímskum ríkjum. Umbreytingin mistókst vegna andstöðu heimamanna sem gripu til vopna.
Úkraína var vestrænt verkefni á landamærum Rússlands. Valdhafar í Moskvu máttu vita að þegar ekki þýddi lengur að ræða málin yrðu vopnin látin tala. Eins og í miðausturlöndum og Afganistan. Spurningin var aðeins hvor aðilinn yrði fyrri til. Svarið kom 24. febrúar. ,,Sannleikurinn í stríði birtist á vígvellinum," segir í þýskri umræðu. En það átti aldrei að koma til þessa stríðs.
Sigrandi hugmyndafræði, sú vestræna, þekkti ekki sín takmörk. Kennisetningin, um að vesturlönd byggju að alheimsuppskrift fyrir samfélagsskipan, stóðst ekki próf veruleikans. Það lá fyrir löngu áður en kom til stríðsátaka í Garðaríki.
Sigur vestrænnar hugmyndafræði í Úkraínu-Rússlandi fæli í sér óreiðuástandi í næst stærsta kjarnorkuríki veraldar. Vestrænt tap þar eystra er til muna betri kostur fyrir heimsfriðinn en sigur.
Hvað næst fyrir Úkraínu? Fyrrum forseti landsins stingur upp á að Pólland og Úkraína sameinist. Stríð búa til ný ríki með tortímingu á þeim sem fyrir eru.
Hvað næst fyrir vestræna hugmyndafræði? Tja, hugmyndafræði á síðasta söludegi fer á útsölu. Áhugaverðasta spurningin er: hvað kemur næst? Tilfallandi gisk er að það verði ekki aukið frjálslyndi. Tilboði um vopnum klætt vestrænt frjálslyndi var hafnað í Bagdad, Kabúl og Moskvu.
![]() |
Vill eyða pening í örugga skóla frekar en í Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 28. maí 2022
Kynami, vísindi og minnihlutafrekja
,,Kynami er sú hugmynd eða upplifun að einstaklingur sé ekki af því kyni sem viðkomandi fékk úthlutað við fæðingu og geta lyfjameðferðirnar leitt til kynleiðréttingaraðgerðar," segir í umfjöllun Stundarinnar um tansbörn. Í myrkri aktívisma og fákunnáttu, fullyrðir fyrirsögnin. Samkvæmt viðtengdri frétt er eitthvað enn ósagt um ,,upplifunarvísindi." Líklega að þau séu ritrýnd og staðfest að upplifun í dag verður sú sama og á morgun. Hvar værum við án blessaðra vísindanna?
Einu sinni voru börn spurð hvað þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór, segir þáttastjórnandinn Bill Maher og bætir við: það var verið að spyrja um starfsvettvang - ekki kyn. Eða kynjaupplifun.
Kynami er til, a.m.k. sem hugmynd, en ekki eru fréttir af meðvitundarama. Möguleikinn að fæðast með ranga meðvitund er þó til muna nærtækari en að fæðast með rangan líkama. Meðvitundin er margfalt flóknara fyrirbæri en líkaminn, óteljandi atriði eru breytingum undirorpnar. Til dæmis að upplifa eitt í dag og annað á morgun.
Hægt er að skilgreina virkni líkamans á líkan hátt og starfsemi véla. Líkamspartar eru aðgreinanlegir, lausnir á krankleika oftar tæknilegar en fræðilegar. Engum hefur enn tekist að útskýra meðvitundina á sambærilega vegu. Meðvitundin verður ekki smættuð í aðgreinda hluta. Mekanísk skilgreining á meðvitundinni er óhugsandi. Ekki heldur á upplifun.
Skrokknum má breyta á þennan eða hinn veginn en öllu snúnara er að ,,lagfæra" meðvitundina. Til að grípa inn í heilastarfsemina með lyfjum, skurði og geislum þarf afar sterk læknisfræðileg rök. En undir formerkjum kynama virðist leyfilegt að dæla lyfjum í líkamann og skera og sauma vegna ,,upplifunar". Allir eldri en tvævetra vita að upplifun í dag getur verið allt önnur á morgun. Gildir ekki síst um ungt fólk er þreifar sig áfram í lífinu.
Í menningu okkar er hverjum og einum heimilt að skilgreina sig á hvaða hátt sem vera skal. Umburðalyndið er með réttu kennt við frjálslyndi. Allur þorri manna gengur að umburðalyndinu vísu og abbast ekki upp á sérvisku eins og að kenna sig við sjöunda kynið eða telja sig komna af týndu ættkvísl Abrahams, svo dæmi sé tekið af handahófi. Einhverjir skilgreina sig sem Púlara aðrir sem FH-inga; þeir sem eiga mest bágt kallast vinstrimenn.
Iðulega gætir óþols af hálfu minnihlutahópa þegar almenningur heldur í sjálfsögð sannindi að kynin séu tvö og líffræðilega ákveðin. Minnihlutahópum finnst hvergi nærri nóg að Jón og Gunna umberi sérviskuna. Minnihlutahópurinn segist triggeraður og umbreytist í frekjukallinn sem krefst að allir játi eina skoðun á lífinu og tilverunni.
Ef freki minnihlutakallinn talaði einum rómi og segði sæmilega skýrt hver sé gildandi rétttrúnaður væri kannski hægt að efna til samtals í von um niðurstöðu - í það minnsta málamiðlun.
En það er ekki hægt. Einn minnihluti í dag er þrír minnihlutahópar á morgun. Svipað og hjá íslenskum vinstrimönnum. Ný sérviska þarf nýjan flokk.
Og af því að við erum að tala um pólitík. Framsóknarflokkurinn virðist hafa áttað sig á þversögn minnihlutafrekjunnar, að hún er marghöfða þurs og ekki samræðuhæf, á meðan Sjálfstæðisflokkur stundar friðþægingarstefnu. Árangurinn er sá að Framsókn nartar í hælana á Sjálfstæðisflokknum.
Hamingjuskipti gætu orðið á flokkunum tveim, haldi fram sem horfir. Borgaraleg lífsviðhorf, ólíkt vinstrisérvisku, hreyfa sig hægt en ekki með gassagangi. Vistaskipti eru til langframa.
![]() |
Þetta er rangt og ég biðst velvirðingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 27. maí 2022
RÚV heldur Kjarnanum á floti
Kjarninn hefur frá stofnun tapað um 60 milljónum króna, segir í meðfylgjandi frétt. Vinstrimenn halda útgáfunni á floti með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með beinum framlögum í formi hlutafjár.
Í öðru lagi með því að RÚV fjármagnar launa- og rekstarkostnað útgáfunnar. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri er á verktakalaunum hjá RÚV, kemur fram vikulega í hljóðvarpi undir yfirskini ,,fréttaskýranda."
Þá útvegar RÚV Kjarnanum ritstjórnarefni til að koma á framfæri í umræðunni. Alræmdasta dæmið er gögn sem stolin voru frá Páli skipstjóra Steingrímssyni. RÚV sá um skipulagningu en Kjarninn og Stundin að koma þýfinu í umræðuna.
Þórður Snær kallar það aðför að tjáningarfrelsinu að blaðamenn fái ekki friðhelgi til að fremja glæpi við öflun frétta. Maður með slíka afstöðu til fjölmiðlunar ætti kannski að snúa sér að öðru en blaðamennsku. En hjá vinstrimönnum helgar tilgangurinn meðalið. Ef byrlun og þjófnað þarf til að fá hráefni í hugmyndabaráttuna verður svo að vera, skítt með siðað samfélag.
Bandalag RÚV, Kjarnans og Stundarinnar, RSK-miðla, er ekki til að ná betri árangri að upplýsa almenning, skyldi einhver halda það. Tilgangurinn er að halda að þjóðinni pólitískri sýn vinstrimanna, að Ísland sé meira og minna ömurlegt samfélag.
![]() |
Hlutafé Kjarnans aukið um 25 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)