Föstudagur, 24. júní 2022
Iðnaðarstríð í Úkraínu, vestrið tapar stórt
Árleg framleiðsla Bandaríkjanna af sprengikúlum fyrir stórskotalið er notuð í Úkraínu á hálfum mánuði af Rússum. Segi og skrifa: á tveim vikum nota Rússar sama magn af sprengjum í fallbyssur sínar og Bandaríkin framleiða á einu ári.
Upplýsingarnar koma fram í samantekt konunglegrar breskrar stofnunar á sviði varnarmála, RUSI. Stofnunin er aldagömul og virt. Einn stofnenda var Wellington, sá sem sigraði Napóleon í Waterloo. Það er ekki líklegt að RUSI birti fleipur.
Höfundur samantektarinnar, Alex Vershinin, segir vígvöllinn á úkraínsku sléttunum iðnaðarstríð. Sá sigrar sem framleiðir og flytur á víglínuna meiri búnað s.s. skotfæri og birgðir. Í upphafi stríðsins voru 200 þús. rússneskir hermenn á móti 250 þús. úkraínskum. Síðan hefur stjórnin í Kænugarði kvatt til vopna um 450 þús. hermenn. Samt eru Rússar á sigurbraut þrátt fyrir að vera til muna liðfærri.
Ástæðan er að Rússar eiga verkfærin, vopn og skotfæri. Í ofanálag eyðileggja Rússar birgðaflutninga með flugskeytum og flugvélaárásum. Úkraínumenn geta miklu síður hoggið skörð í birgðahald óvinarins. Atvinnuher Rússa slátrar Úkraínuher.
Úkraínumenn hafa viðurkennt að um helmingur af stórskotaliði þeirra í upphafi átaka í lok febrúar er ónýtur. Fáeinar fallbyssur og hreyfanleg eldflaugakerfi frá vesturlöndum breyta ekki neinu sem nemur. Sérfræðingar segja Rússa með tífalda og upp í tvítugfalda skotgetu í stórskotaliði og vígvallareldflaugum í samanburði við Úkraínuher. Stríðið á sléttum Garðaríkis er fyrst og fremst háð með þungavopnum. Flestir deyja án þess að sjá óvininn. Dauðinn kemur með fallbyssukúlu eða eldflaug.
Ekki er nokkur lifandi leið að Úkraínuher snúi taflinu sér í vil að óbreyttum forsendum.
Það er ábyrgðarhluti af vestrænu stjórnmálaelítunni og fjölmiðlum á þeirra vegum að halda þeirri hugmynd á lofti að Úkraína geti sigrað. Það eru einfaldlega ekki til byssur og skotfæri á vesturlöndum til að standast Rússum snúning. Úkraínskir hermenn eru fallbyssufóður, deyja í fullkomnu tilgangsleysi í gjörtöpuðu stríði.
Á sléttum Garðaríkis taka heimsmálin stakkaskiptum. Þegar lærdómurinn af tapinu sækir vesturlönd heim verður það sársaukafullt. Rússar niðurlægja vestrið í staðbundnum átökum. Kínverjar standa álengdar. Heimurinn allur er undir og horfurnar eru slæmar fyrir vesturlönd.
![]() |
Segir Rússa eiga heitt sumar í vændum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 23. júní 2022
Heppileg kreppa
Hækkandi vextir hægja á hagkerfinu sem er á fullum dampi. Atvinnuleysi er við 4%. Verðbólgan er að hluta til innflutt en að öðru leyti sökum þenslu á fasteignamarkaði - sem aftur er afleiðing ósjálfbærs hagvaxtar.
Í haust eru kjarasamningar lausir. Alltaf er betra að semja þegar slær í bakseglin. Í bullandi þenslu eru væntingar óraunhæfar.
Íslendingar ferðast til útlanda eins og enginn sé morgundagurinn, skuldlitlir og áhyggjulausir. Eftir huggulegt sumar taka við verkefni haustsins, sem er að leggja línurnar í kjaramálum þjóðarinnar.
Vonandi helst kreppan nokkra mánuði enn. Raunsæi fylgir þegar mittisólina þarf að herða eilítið.
![]() |
Þróttur í íslensku hagkerfi þó útlitið sé svart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. júní 2022
Engin loftslagsvá - ný bók
Eftir hundrað á verður ekki talað um loftslagsvá, segir sænski loftslagsvísindamaðurinn Lennart Bengtsson í viðtali við Die Welt. Bengtsson gaf nýlega út bókina Hvað verður um loftslagið? (Vad händer med klimatet).
Die Welt er fremur þekkt fyrir að taka undir með þeim sem telja jörðina brátt óbyggilega vegna manngerðs veðurfars. Til að fullvissa lesendur sína um að Bengtsson sé vísindamaður sem beri að taka af fullri alvöru vitnar Die Welt í loftslagsvísindamanninn og Nóbelsverðlaunahafann Klaus Hasselmann sem lofar Bengtsson í bak og fyrir.
En hvað segir Bengtsson í viðtalinu? Jú, til dæmis að hlýnun jarðar undanfarið sé að mörgu leyti blessun, einkum fyrir þá sem búa á norðlægari breiddargráðum. Betri uppskera í landbúnaði og huggulegri lífskjör bjóðist á kaldari slóðum. Ef og þegar Norður-Íshafið opnast fyrir siglingar hafi það jákvæð efnahagsleg áhrif. Fólk deyi miklu oftar úr kulda en hita.
Aðspurður segir Bengtsson að loftslagsvísindin geti fátt sagt um möguleg áhrif hlýnunar á samfélagshætti manna. Aðrar breytur en loftslag skipti meira máli, s.s. stríðsrekstur og efnahagsstjórnun. Hlýnunin gerist hægt og fyrirsjáanlega verði hægt að bregðast við óþægindum. Tíminn til stefnu sé nægur.
Þá vekur Bengtsson athygli á að vísindin viti ekki enn sem komið er hvernig náttúrulegir ferlar breyta loftslagi jarðar. Til dæmis kunna menn ekki skýringar á litlu ísöldinni, 1350-1850. Litla ísöldin er feimnismál í umræðunni. Náttúrulegar breytingar á loftslagi jarðar eru reglan en ekki undantekning. Tímabilið fyrir litlu ísöld er kallað miðaldahlýskeiðið, 900-1300. Þá var töluvert hlýrra á Grænlandi en það er í dag, eða sem nemur 1,5 C.
Þegar Bengtsson er spurður um samlanda sinn, Grétu Thunberg, helsta spámann hamfarahlýnunar svarar hann að þekking sé besta vörnin gegn loftslagsangist. Gréta hætti í skóla til að boða fagnaðarerindið um heimsendi - ekki á forsendum þekkingar heldur trúarhita. Bengtsson óttast að pólitísku hamfaratrúarbrögðin fæli fólk frá vísindum. Það er einkenni samtímans. Háværir aðgerðasinnar kæfa þekkingu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 21. júní 2022
Guðmundur Árni sem formaður Samfylkingar
Samfylkingin var stofnuð um aldamótin til að verða hinn turninn í íslenskum stjórnmálum. Núna er Framsókn hinn turninn en Samfylkingin lággróður í skugga Pírata.
Ástæðan fyrir eymd Samfylkingar er tilraunastarfsemi. Í ríkisstjórn Geirs H. Haarde (2007-2009) var flokkurinn 21. aldar Alþýðuflokkur, hækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á fyrstu árum flokksins reyndi hann að verða kaþólskari en páfinn, kom sér upp auðmönnum eins og Jóni Ólafssyni og Baugsfeðgum. Í ríkisstjórn Jóhönnu Sig. (2009-2013) reyndi flokkurinn fyrir sér sem ESB-flokkur. Óþarfi að fjölyrða um þá tilraun, mistök frá upphafi til enda.
Formenn ráða ekki fylgi flokka en þeir eru nauðsynlegir til að fylkja liði, vera oddvitar og talsmenn fyrir það erindi sem stjórnmálafl þykist eiga við samtíma sinn. Formaður er ímynd málefna sem flokkurinn stendur fyrir. Fráfarandi formaður er röndóttur sprellikarl. Við hæfi og árangurinn eftir því.
Næsti formaður Samfylkingar gæti gert flokkinn að því sem hann átti að verða við stofnun. Gelgjuskeiðið yrði að baki. En til þess þarf skipstjóra sem kann pólitísk siglingafræði. Kristrún er óreynd og Dagur fullreyndur.
Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gerði gott mót í síðustu kosningum. Hann er hokinn reynslu og veitir Samfylkingunni kjölfestu sem flokkurinn þarf. Guðmundur Árni er ekki upphlaupsmaður. Unggæðisháttur Samfylkingar seinni árin lýsir sér í samkeppni við Pírata. Fyrirsagnir eru fremur mælikvarði á ótrúverðugleika en vísbendingar um tiltrú kjósenda.
Einn aðalvandi Samfylkingar er að Vinstri grænir eru trúverðugra stjórnmálaafl. Til að verða stjórntæk þarf Samfylkingin að fullorðnast. Án fullveðja formanns er það tæpast hægt.
![]() |
Kristrún og Dagur helst nefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. júní 2022
Namibíumálið og glæpurinn gegn Páli skipstjóra
RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar, bjuggu til Namibíumálið á grunni upplýsinga frá Jóhannesi Stefánssyni, fyrrum starfsmanns Samherja í Namibíu. RSK-miðlar töpuðu Namibíumálinu í fyrrahaust þegar dómstóll í Namibíu vísaði frá ákærum á hendur Samherjamönnum. Ekkert er að frétta af þeim anga Namibíumálsins sem er til rannsóknar hér heima.
Namibíumálið snýst um meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra aðila. Jóhannes heldur fram þessum ásökunum en þær eru óstaðfestar og ósannaðar. Öll gögn málsins hafa verið lögð fram en það er ekkert að frétta.
Allar líkur eru á að ásakanir Jóhannesar haldi ekki. En af pólitískum ástæðum, hér á Íslandi og í Namibíu, eru málin ekki felld niður. Athygli vakti að þegar namibísk sendinefnd kom til Íslands um daginn hitti Jóhannes ekki Namibíumennina, sem hann þó segist í bandalagi við. Jóhannes vill undir engum kringumstæðum fara til Namibíu. Uppljóstrarinn er í felum frá raunheimum. Til hans sést aðeins á samfélagsmiðlum.
Páll Steingrímsson skipstjóri hjá Samherja gagnrýndi málflutning RSK-miðla. Í framhaldi skipulögðu RSK-miðlar aðför að Páli. Skipstjóranum var byrlað. Á meðan hann var á gjörgæslu var síma hans stolið og hann afritaður á Efstaleiti.
Glæpurinn gegn Páli skipstjóra er sjálfstætt sakamál, algerlega óháð Namibíumálinu. Fjórir sakborningar eru í byrlunar- og símastuldsmálinu, svo vitað sé, allt blaðamenn á RSK-miðlum. Líkt og uppljóstrarinn Jóhannes eru blaðamennirnir í felum frá raunheimum, neita að mæta í yfirheyrslu, sjást aðeins í fjölmiðlum.
Kjarninn birti frétt um helgina þar sem látið var líta út eins og Namibíumálið og glæpurinn gegn Páli skipstjóra væru eitt og sama refsimálið. Ekkert er fjarri sanni. Páll skipstjóri kom hvergi nærri Namibíumálinu. Jóhannes Stefánsson hefur aldrei borið sakir á skipstjórann. Eina ,,afbrot" Páls er að taka þátt í opinberri umræðu um óvandaðan fréttaflutning RSK-miðla. Blaðamannaböðlarnir tóku til sinna ráða og skipulögðu aðför að heilsu og eigum skipstjórans.
Frétt Kjarnans er tilraun til að fela glæpi blaðamanna RSK-miðla gegn Páli skipstjóra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 19. júní 2022
Ekki hægt að fæðast í röngum líkama
Staðhæft er að sumir fæðist í röngum líkama. Að ,,kona" fæðist í líkama karls og öfugt; ,,karl" í kvenlíkama. En það er ekki hægt. Ástæðan er eftirfarandi.
Við barnsfæðingu verður til einstaklingur heill og óskiptur. Meðvitundin og líkaminn eru eitt. Hvernig einstaklingurinn vex og dafnar er háð erfðum annars vegar og hins vegar atlæti. Aðeins andvana fæddir eru án meðvitundar. Lifandi fædd börn eru ein óskiptanleg heild, líkami og meðvitund. Hvorugt getur án hins verið.
Einstaklingurinn er annað tveggja karlkyns eða kvenkyns. Í örfáum tilvikum, vel innan við 1% lifandi fæddra, eru kyneinkenni óræð. Þau tilvik eru læknisfræðilegt úrlausnarefni.
Til að einstaklingur fæðist í röngum líkama þarf meðvitundin að verða óháð líkamanum. En meðvitund utan líkama er ekki til. Meðvitundin gerir fólk lifandi. Án meðvitundar er maðurinn sofandi/meðvitundarlaus eða hreinlega dauður.
Meðvitundin skapar upplifun. Einhver getur verið tík án þess að vera geltandi; annar ljónstyggur en samt ekki ferfætlingur. Maður getur verið lúsiðinn en ekki skordýr.
Mörgum finnst líkami sinn ekki nógu stæltur eða grannur; brjóstin of lítil eða manndómurinn væskilslegur. Óánægja með líkamann og líkamsparta er viðtekinn þáttur í menningunni og snar þáttur í efnahagskerfinu. Margvísleg fegrun, húðflúr, líkamsrækt, megrun og lýtalækningar velta milljörðum.
Fullorðið fólk má gera hvað það lystir við líkama sinn, tortíma honum ef því er að skipta. En það er ábyrgðarhluti af fólki, sem á að heita fullorðið, að telja ungmennum trú um að hægt sé að fæðast í röngum líkama.
Löngun til að vera annað kyn en manni var úthlutað við fæðingu er allt annað. Drengur getur hagað sér eins og stúlka og stúlka eins og drengur. Hlutverkaleikur er barnagaman sem sumir vaxa ekki upp úr. Það hafa alltaf verið til kvenlegir karlar og karlmannlegar konur. En hugmyndafræðin, blekkingin, um að fæðast í röngum líkama fær sumt ungt fólk til að gangast undir óafturkræfar aðgerðir og lyfjameðferð. Löngun er ein í dag en önnur á morgun. Ekki síst hjá ungu fólki. Óafturkræf inngrip í líkamann vara fyrir lífstíð.
Þeir sem telja sjálfum sér trú um að vera í röngum líkama eru í reynd að segja meðvitundina og líkamann sitthvað. Ef meðvitundin er ekki líkamleg og náttúruleg hlýtur hún að vera yfirnáttúrleg, guðleg. En þá færi meðvitund aldrei í rangan líkama. Guð, samkvæmt skilgreiningu, gerir ekki mistök.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 18. júní 2022
Úkraína í ESB, eftir tap gegn Rússum
Úkraína getur ekki barist við Rússa án aðstoðar frá ESB og Bandaríkjunum. Vesturveldin sannfærðust í vor að Úkraína mun tapa. Vestræn aðstoð gæti framlengt stríðið en ekki breytt óhjákvæmilegri niðurstöðu.
Heimsókn leiðtoga stærstu ESB-ríkjanna, Þýskalands, Frakklands og Ítalíu, til Kænugarðs var með tvöföld skilaboð, segir þýskur sérfræðingur hjá Die Welt.
Í fyrsta lagi að vesturveldin myndu áfram senda Úkraínu vopn. Í öðru lagi að Selenskí forseti yrði að semja við Rússa og sætta sig við að Úkraína tapi landi. Selenskí yrði að ná friði í sumar. Evrópa er á barmi efnahagskreppu. Ófriðurinn dýpkar kreppuna.
Tilboð ESB um að gera Úkraínu að formlegu umsóknarríki gefur Úkraínu von um að þegar friður kemst á gæti landið orðið ESB-ríki. Okkur er alveg sama, segir Pútín. Sennilega þykist hann vita að fremur lítið verði eftir að Úkraínu þegar líður á árið.
Stjórnvöld í Kænugarði hafa tvo mánuði til að landa friðarsamningum. Ef þeir standa sig verður hægt að sækja í sjóði Brussel. Ef Selenskí og félagar þverskallast verður dregið úr stuðningi.
Stjórnin í Kænugarði algerlega háð vestrænum stuðningi. Í reynd leppstjórn Bandaríkjanna og ESB. Látið er eins og fullvalda ríki eigi hlut að máli. En það er innrásarher í landinu og án vestræns stuðnings er allt glatað.
Úkraínumenn gáfu út í upphafi stríðs 24. febrúar að sérhver tomma af úkraínsku landi sem færi undir Rússland væri tap. Heimsókn vestræna þríeykisins til Kænugarðs þýðir að Úkraína verði að segja skilið við allnokkrar tommur af landi. Valkosturinn er að rússneski björninn hirði allt.
Í mars voru samningaviðræður milli Kænugarðs og Moskvu. Vesturveldin stöðvuðu þær með heimsókn Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Betur að marsviðræður hefðu skilað vopnahléi. Minna land hefði tapast og fleiri væru á lífi. Boris hélt í skyndiheimsókn til Kænugarðs í gær, í kjölfar ESB-þríeykisins, og bauðst til að þjálfa úkraínska hermenn.
Úkraínsk yfirvöld segja að á hverjum degi falli 200 til 500 hermenn þeirra. Best þjálfuðu hermennirnir láta jafnt og þétt undan siga og raðirnar þynnast dag frá dagi. Bresk þjálfun á nýliðum valdur ekki straumhvörfum.
Straumhvörf í stríðinu á sléttum Garðaríkis geta aðeins orðið með tvennum hætti. Í fyrsta með pólitík, þ.e. vopnahléi og friðarsamningum. Í öðru lagi á vígvellinum. Þar tapar Úkraína jafnt og þétt. Engar líkur eru á að það breytist í bráð. Tíminn vinnur með Rússum, ekki Selenskí og félögum.
![]() |
Möguleg aðild Úkraínu að ESB komi Rússum ekki við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 17. júní 2022
Lýðveldið, Framsókn og 16. júlí
Við fögnum lýðveldinu 17. júní. Í dag er það 78 ára. Sumir vinstrimenn vildu ekki stofna til þess 1944. Ekki frekar en þeir vildu fullveldi 1918. Þeim leið betur sem Stór-Dönum en Íslendingum.
Í dag eru vinstrimenn á flótta. Helstu tíðindin á vígaslóðum stjórnmálanna er sókn Framsóknar. Þríeykið sem skipar herráðið, Sigurður Ingi, Lilja og Ásmundur Einar, skrifar grein í Morgunblaðið um samhengi fullveldis og Framsóknar.
Síðasta stórárás vinstrimanna á lýðveldið var gerð 16. júlí 2009 er sitjandi ríkisstjórn Jóhönnu Sig, eina hreina vinstristjórn sögunnar, fékk samþykkta ESB-umsókn á alþingi Íslendinga.
16. júlí er ofbeldisdagur í íslenskri sögu. Þann dag 1627 gekk óþokkalýður á land í Vestmannaeyjum, á Ræningjatanga, og drap, brenndi og hneppti fólk í þrældóm. Ekki voru það fylgismenn Marx heldur Múhameðs er voru þar að verki.
Það er framsóknarlegt að hafa fullan fyrirvara á boðskap útlendra spámanna. Síðast þegar sæmilega tókst til, á alþingi árið 1000, var sérstakur gaumur að gefinn að því hvort hinn nýi siður, kristni, félli sæmilega að viðurkenndum háttum landsmanna, heiðni.
Sigurður Ingi þess tíma, kallaður Þorgeir Ljósvetningagoði, fann þá málamiðlun að menn skyldu taka kristni formsins vegna en máttu bera heiðni í hjarta sér og stunda heima fyrir blót, útburð og hrossakjötsát.
Engri framsóknarmennsku var til að dreifa rúmu hálfu árþúsundi síðar, þegar landsmenn skiptu úr einni kristni í aðra. Siðaskiptin voru djöfulgangur. Fyrsta frjálsræðishetjan, Jón Arason og synir hans Björn og Ari, allt framsóknarmenn, voru teknir af lífi án dóms og laga af stór-dönsku leiguþýi.
Eftir fall feðganna var fátt um innlendar varnir gegn alþjóðahyggju nýaldar. Vinstrisinnaðar háskóladeildir í Evrópu kenndu að galdrar væru helsta meinsemd mannanna, líkt og amerískar háskóladeildir kenna í dag að kynin séu ýmist þrjú, fimm eða seytján. Ósköpin bárust að strönd ísa kalda lands með svokölluðum menntamönnum, auðvitað. Þar eð engir framsóknarmenn voru til andmæla létu 25 alþýðufræðarar lífið, flestir á báli. Var sprekið þó af skornum skammti í skóglausu landi. Útlenda trúarspekin krafðist aftur lífláts með brennslu.
Allt er þetta saga sem endurtekur sig að breyttu breytanda. Lærdómurinn er að stíga skal varlega til jarðar er spámenn hefja upp raust sína. Sannleikurinn liggur í litlu atriðunum, í hversdagslífinu. Framsókn er þar á heimavelli.
Gleðilega þjóðhátíð, bæði framsóknarmenn og aðrir.
![]() |
Þjóðhátíðardegi fagnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 16. júní 2022
Hvað er kona? Hvað er vitsmunavera?
Sumarsmellur heimildamynda er Hvað er kona? Jú, það er flókið mál að skilgreina það sem eitt sinn voru sannindi öllum kunn. Áður en menningarmarxisminn kenndi okkur að kona sé hver sá sem segist vera kona. Karl getur orðið kona með yfirlýsingunni einni saman. Orð sem áður hafði merkingu verður innihaldslaust.
Ef kona er orðið óljóst hugtak er skammt í að vafi leiki á skilgreiningu tegundarinnar, homo sapiens. Samkvæmt viðtengdri frétt segist hugbúnaðarverkfræðingur hjá Google hafa búið til vitsmunaveru, forrit með mennska greind.
Forrit og menningarmarxismi eiga það sameiginlegt að vera mennsk afurð. Maðurinn sjálfur, tegundin, er aftur ekki mennsk afurð í sama skilningi. Samkvæmt viðurkenndri líffræði, fyrir daga menningarmarxisma, er maðurinn afurð þróunar. Darwin útskýrði samhengið um miðja 19. öld. Þar áður notuðu menn trúarskilgreiningar.
Þegar það er á huldu hvað ofureðlilegt fyrirbæri eins kona sé verður vafa undirorpið hvað hinn viti borni maður sé fyrir nokkuð. Og höfum við forrit sem er ,,eins og maður" er nærtæk ályktun að maðurinn sé í reynd ekkert annað en hlutur, sem má farga að vild.
Menningarmarxismi, stundum kallaður ,,woke", er fyrirbæri sem þarf að kveða í kútinn. Áður en það er um seinan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 15. júní 2022
Stundin, ekki-fréttin um 750 m.kr. arð
Höskuldur Höskuldsson eigandi Lyru tók sér 750 milljón króna arð úr fyrirtækinu eftir vel heppnuð viðskipti við Landspítala.
Morgunblaðið og Fréttablaðið segja frá.
Stundin segir ekki neitt. Er útgáfan þó áhugasöm þegar grætt er á viðskiptum við Landspítala. Fyrir ári gerði Stundin númer úr fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem seldi spítalanum þjónustu - fyrir smápeninga í samanburði við Höskuld.
Þó er Stundin komin með rannsóknaritstjóra, Helga Seljan. Ekkert að frétta þegar sumir græða á viðskiptum við Landspítala en fréttaefni þegar aðrir maka krókinn.
Samkvæmt hluthafalista Fjölmiðlanefndar er stór hluthafi Stundarinnar Höskuldur Höskuldsson. Skyldi þó ekki vera sami Höskuldur og malar gull á viðskiptum við Landspítala?
![]() |
Tveggja milljarða afgangur hjá Lyru vegna faraldurs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)