Stjórnarkreppa leysir Icesave

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á Icesave-samkomulaginu. Þegar það liggur fyrir að bresk og hollensk yfirvöld samþykkja ekki fyrirvara Alþingis á ríkisábyrgðinni er aðeins eitt að gera. Ríkisstjórnin þarf að segja af sér og þar með er Icesave-málið komið á upphafsreit; við gerum nýja samninga við Breta og Hollendinga. Aðstæður eru ólíkt betri að gera samninga núna þegar ekki er yfirvofandi bankahrun á Vesturlöndum vegna óvissu um ríkisábyrgðir á innlánsreikningum.

Í útlöndum skilja menn stjórnarkreppur og veita tilhlýðilegt svigrúm í kjölfar þeirra.

 


mbl.is Hollendingar bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Réttlát lausn og lagalega kórrétt er sú ein að hafna hinni frekjulegu Icesave-rukkun Breta og Hollendinga vegna einkaskulda einkafyrirtækis.

Í 1. lagi höfum við ekki tekið neitt lán hjá Bretum og Hollendingum, og það stendur ekki til. Hvernig er hægt að kalla tilhæfulausan okursamning, þar sem ekki er greiddur túskildingur með gati út, "lánssamning"?!

Í 2. lagi áttum við aldrei að borga Bretum og Hollendingum neitt. Tilskipunarákvæði Evrópubandalagsins frá 1994 um tryggingasjóði innistæðueigenda er þannig í þýðingu: "Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögmæt yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð um stofnun eða opinbera viðurkenningu eins eða fleiri kerfa sem ábyrgjast innistæðurnar eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja skaðbætur eða vernd innistæðueigenda samkvæmt skilyrðum sem þessi tilskipun skilgreinir." - Með orðunum "eitt er fleiri kerfi, sem ábyrgjast ..." er átt við tryggingasjóði innistæðueigenda. Þetta er lagalegur grundvöllur sakleysis okkar/ísl. ríkisins í málinu.

Í 3. lagi hefur Gunnar Tómasson verið að birta mjög merkar upplýsingar, sem sýna, að leið Bretanna að þessu marki sínu að fjárkúga okkur er vörðuð lögbrotum á lögbrot ofan, sbr. HÉR í vel rökstuddri aths. 20.9 2009 kl.15:36. Hér má sjá styttri texta frá honum, sem ég fann á Málefnin.com (http://www.malefnin.com/ib/lofiversion/index.php/t118175.html ), þ.e. bréf hans til íslenzkra þingmanna, allt þar á íslenzku, og ég vona, að það hjálpi enn fleiri lesendum -- og stjórnvöldum í framhaldi (því að þau hafa nú verið einna tregust í þessu máli) -- til að átta sig á þeim staðreyndum, sem við eigum að vera óhrædd við að benda á og skírskota til og hamra á í réttarvörn okkar. Guði sé lof fyrir hinn skýrt hugsandi og glögga Gunnar Tómasson, og hér er þetta bréf hans:

"Ágætu alþingismenn.

Í Icesave-lánasamningi Bretlands og Íslands segir m.a.:

"Breski tryggingasjóðurinn hefur greitt út tryggingar til meirihluta innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingasjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og í staðinn hafa þessir innstæðueigendur Landsbankans í London framselt breska tryggingasjóðnum þessar kröfur."

Hér er farið með rangt mál.

(a) Umræddar greiðslur voru að frumkvæði brezka tryggingasjóðsins án heimilda í viðkomandi tilskipun Evrópusambandsins (Directive 94/19/EC) og án samþykkis Tryggingasjóðs innstæðueigenda sem var skylt að fylgja lögboðnu ferli 4. gr. laga nr. 98/1999:

"Viðskiptavinir aðildarfyrirtækis skulu senda sjóðnum kröfur sínar skriflega ásamt þeim gögnum sem sjóðurinn metur nauðsynleg. Sjóðurinn tekur ákvörðun, í samráði við Fjármálaeftirlitið, um lengd þess frests sem viðskiptavinir aðildarfyrirtækis hafa til að gera kröfu á sjóðinn. Fresturinn má þó ekki vera styttri en fimm mánuðir í því tilviki þegar viðskiptavinir aðildarfyrirtækis eiga kröfu á sjóðinn í tengslum við viðskipti með verðbréf en eigi lengri en tveir mánuðir þegar innstæðueigendur eiga kröfu á sjóðinn. Ákvörðun um lengd frests skal auglýst í Lögbirtingablaðinu og dagblöðum."

(b) Fjármálaeftirlitið gaf út formlegt álit sitt um greiðsluþrot Landsbankans þann 27. október 2008 í samræmi við Directive 94/19/EC að slíkt skyldi gert innan þriggja vikna frá greiðsluþroti (6. október 2008). Innstæðueigendur Landsbankans í London áttu því engar lögformlegar kröfur á Tryggingasjóð innstæðueigenda til að framselja brezka tryggingasjóðnum fyrr en í fyrsta lagi tveimur mánuðum síðar, eða 27. desember 2008.

Lagalegar forsendur fyrir kröfu brezka tryggingasjóðsins á Tryggingasjóð innstæðueigenda vegna ‘framsals’ viðkomandi krafna innstæðueigenda Landsbankans í London eru því ekki til staðar.

Í lánasamningi landanna er lágmarksupphæð innstæðutrygginga samkvæmt Directive 94/19/EC, Є20.887, talin jafngilda £16.873, og endurspeglar það gengisskráningu Seðlabanka Íslands þann 27. október 2008. Brezkir viðsemjendur íslenzku samninganefndarinnar virðast því hafa gert sér far um að hlýða ákvæðum Directive 94/19/EC þar sem því var við komið.

© Skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lögum nr. 98/1999 eru skilgreindar í íslenzkum krónum. Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er "ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenzkum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi", segir í athugasemdum við viðkomandi lagafrumvarp.

Í lánasamningi Bretlands og Íslands eru krónuskuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skilgreindar í sterlingspundum. Það jafngildir því að þær séu bundnar við dagsgengi erlends gjaldmiðils, sem er óheimilt að íslenzkum lögum. Hér er um afdrifaríkt lögbrot að ræða, sbr. 12.4% hækkun höfuðstóls brezka lánsins vegna gengisfalls krónunnar frá 27. október 2008 til 21. ágúst 2009.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur."

Og því er við að bæta, að ekki aðeins höfðu lögfræðingar þessa lands tekið undir með Gunnari Tómasyni eða öllu heldur ýmsum kjarnaatriðum í málflutningi hans, heldur voru líka lögfræðistofur erlendis (Mishcon de Reya, Schjödt) sem bentu á, að ekkert var það í ESB-lagaverkinu sem með neinum áþreifanlegum hætti bæri þessi merki, að þar væri íslenzkur almenningur eða ríkissjóður okkar skyldaður til að borga fyrir einkaskuldir einkafyrirtækisins Landsbankans. Þeim vitnisburði erlendra lögfræðistofa stungu hins vegar Össur og Steingrímur undir stól,* unz upp komst um það athæfi þeirra (sem varðar við 2. málslið 91. gr. alm. hegningalaga) og þeir flýttu sér að birta álitin. Þeir hafa verið í eilífu klúðri síðan, en nú er tækifærið einmitt komið til að losa okkur með öllu við ísklafann ægilega, eða eins og Anna Margrét Bjarnadóttir segir að gefnu tilefni: 'Frábært tækifæri til að borga ekki Icesave' = http://annamargretb.blog.is/blog/annamargretb/entry/950258/.

* Bæta má við: Þeir héldu því líka jafnhliða fram, að engir lögfræðingar erlendis væru sammála lögfræðingunum hér heima (Stefáni Má Stefánssyni og mörgum öðrum) um þetta mál! - Merkilegt hvernig Össur og Steingrímur komast upp með þetta og geta haldið áfram að tala gleiðbrosandi og óaðkrepptir af neinum samvizku-spurningum blaðamanna mánuðum saman þrátt fyrir alvarlegt skrök að þjóðinni!

Jón Valur Jensson, 21.9.2009 kl. 17:32

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ríkisstjórnin er með rýflegan meirihluta og getur gert hvað sem hún vill.

Sigurður Þórðarson, 21.9.2009 kl. 17:44

3 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Góður Guð, forði okkur frá því að fá íhaldið og Framsókn aftur í stjórn.  Ég meina Aldrei!

Ingibjörg Friðriksdóttir, 21.9.2009 kl. 18:32

4 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Ég styð þessa tillögu, og mæli með því að til viðbótar verði ESB-umsóknin dregin til baka.  Siggi, það er ekki nóg að hafa ríflegan meirihluta ef hver höndin er upp á móti annarri, og enginn sammála um nokkkurn hlut.  Ég man nú ekki betur en að DS hafi haft ríflegan meirihluta, og ekki hafði það nú mikið að segja.

Sigríður Jósefsdóttir, 21.9.2009 kl. 18:51

5 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hætt er við að ekki fyndist neinn endir á slíkri stjórnarkreppu, hvorki með eða án kosninga.

Héðinn Björnsson, 22.9.2009 kl. 14:02

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Annars neita ég því harðlega að Holland og Bretland eigi að hafa neitt vald til að valda stjórnarkreppu á Íslandi og finnst eðlilegast að þeim verði látið eftir að sækja rétt sinn umfram ríkisábyrgðarfrumvarpið án þess að það hafi nein áhrif á núverandi ríkisstjórn.

Héðinn Björnsson, 22.9.2009 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband