Blogg: Öryggisventill eða aftökupallur?

Í þjóðfélaginu er réttmæt reiði, sem fyrst og fremst beinist gegn þeim sem útrásarauðmönnum sem eru valdir að hruninu en einnig gegn stjórnvöldum sem í einn stað skópu útrásinni skilyrði en í annan stað létu undir höfuð leggjast að reisa fjárplógsmönnum skorður.

Reiðin í þjóðfélaginu fær meðal annars útrás á blogginu. Líkt og á árdögum blaðaútgáfu á Íslandi er drjúgur hluti bloggsins nafnlaus. Þeir sem skrifa undir dulnefni eru ómarktækari en hinir sem skrifa undir nafni. Til að skrif undir dulnefni fái athygli þarf annað tveggja að koma til, eftirtektarverð ritfærni eða áhugaverðar upplýsingar. Ef hvorugu er til að dreifa eru launmálin aðeins vitnisburður um hugarástand.

Útrásarmaðurinn Lýður Guðmundsson og Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra sammælast um gagnrýni á nafnlaus skrif í netheimum. Báðir ættu að láta það ógert því hvorugur hefur efni á því.

Lýður er úr innsta kjarna auðmannanna sem bera ábyrgð á hruninu. Fjöldi fólks líður önn vegna Lýðs og félaga; fólk missir húsin sín, atvinnu sína, börn horfa á foreldra sína örvinglast vegna þess að endar ná ekki saman, lífeyrir aldraðra er skertur og svo má áfram telja. Til að bæta gráu ofan á svart er búið að draga orðspor þjóðarinnar ofan í svaðið, þökk sé Lýði og kumpánum.

Björn ber sinn hluta ábyrgðarinnar, þótt hún sé minni og afmarkaðri. Hann lagði pólitíska grunninn fyrir útrásinni með frjálshyggjuboðskap handa atvinnulífi sem kunni ekki með að fara og sat í ríkisstjórn sem einkavæddi opinberar eigur hraðar og verr en efni stóðu til.

Í augum Lýðs og Björns er bloggið aftökupallur, þótt hvorugur noti það orð, þar sem nafnleysingjar gera hróp að auðmönnum og pólitískum ábyrgðaraðilum hrunsins. Nærtækara er að líta á bloggið sem öryggisventil fyrir réttmæta reiði.

Ekki síst er bloggið vettvangur til að ræða og færa í orð reynsluna af hruninu og reifa lærdóma sem má af því draga. Lýður mun aldrei skilja þetta hlutverk bloggsins, enda einfaldur maður krónu og aura, en þegar Björn vaknar í fyrramálið sér hann eftir því að hafa skrifað þessi orð í kvöld:

Lýður snerist einnig gegn þeim hér í netheimum, sem ráðast að mönnum í skjóli nafnleyndar. Sú gagnrýni hans er bæði tímabær og réttmæt. Þessar nafnlausu svívirðingar eru sama eðlis og árásir skemmdarvarga á eignir manna í skjóli myrkurs. Þeirra, sem skemma eignir er leitað, hinir, sem skemma mannorð manna, ærast séu þeir gagnrýndir.  

Öskur í bloggi og málning á vegg eru gagnólíkir hlutir, Björn Bjarnason, og eigur og mannorð sömuleiðis.

 


mbl.is Tekur undir ummæli Lýðs um árásir í netheimum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill. Ég hefi fundið það á eigin skinni að það létti mikið á mér þegar ég fór að taka þátt í bloggi, þótt enn sem komið er sé ég bara í athugasemdunum. Ég hef mikið verið að pæla hvort það sé ekki í eðli okkar að vilja réttlæti og að ef stjórnvöld sjái ekki til þess þá muni borgararnir vera í fullum rétti til að sækja það sjálfir.. kannski þessvegna sem fólk almennt virðist ekki fordæma málningu auðmannabíla og hús.

Villi (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 00:33

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þú verður öflugri með hverri færslu (sem ekki inniheldur ESB ;)

Hún er hárrétt hjá þér lýsingin á þeim nafnlausu, sem mega gjarnan vera nafnlausir ef þeir sýna háttvísi og eru málefnalegir.  Flestir nafnlausir, hafa nefninlega skapað sér sitt nikknafn fyrir hvoru tveggja, þó aðrir kunni ekki að hemja sig, eins og gengur í leikskólum, skólum, fyrirtækjum og alþingi.

Tek hjartanlega undir þessa færslu og megi Björn einbloggari skammast sín.

Bloggarar undir nafni eða ekki, endurspegla hið forna "sófasamfélag" sem virtist aldrei ná eyrum kumpána eins og Birni og Lýð, þar til nú og þá emja þeir eins og stungnar grísir.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.8.2009 kl. 00:37

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sammála.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 27.8.2009 kl. 02:12

4 identicon

Þú ferð á kostum.  Frábær pistill, takk!

Lesandi (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 02:27

5 identicon

Vel mælt

Vilhjálmur (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 04:59

6 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Góður pistill. Ef fólk fengi ekki útrás fyrir reiði sína á bloggi, undir nafni eða ekki, þá væri ástandið líklega stórum verra hér í samfélaginu, meira um skemmdarverk og læti. En Lýður Björn fattar það ekki því hann vill ekki að fólk tjái reiði sína yfir höfuð, blogg eður ei. Það er svo fjári óþægilegt að vera skammaður, líka þegar mar er sekur.

Margrét Sigurðardóttir, 27.8.2009 kl. 05:52

7 identicon

BB og félgar vilja hafa dæmið eins og fyrir netið, halda hverjum og einum út af fyrir sig að væla + að halda fólki í algeru myrkri með hvað er að gerast.
Maður hefði talið að maður eins og bb sem hefur verið lengi á netinu, að sá hinn sami sem hefur verið lengi í stjórnmálum, átti sig á að svona tal er út í hött. 
Það er ekki fjarri lagi að tala um klerka í íslam eða álíka þegar þetta lið tekur undir ritskoðun... eins og mbl gerir afar oft líka

DoctorE (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 07:47

8 identicon

Þetta er góður pistill hjá þér Páll.  Vissulega eru sumir ljótari en aðrir í athugasemdum í skjóli nafnleysis.  Skrif Björns anga aðeins af þessu taktleysi sem ríkir hjá ráðamönnum mörgum hverjum. Þeir virðast ekki átta sig á hvað fólk er að upplifa, þessa  niðurlægingu og sorg við að missa jafnvel allt sitt. Það hefur eðlilega áhyggjur af velferð sinni og sinna nánustu. Sér engan veginn fram úr vandanum. Venjulegt fólk á Íslandi í dag.  Það má niðurlægja fólk á suma vegu en ekki aðra.  Vaxandi örvænting fær útrás í mikilli reiði.

NN (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 07:50

9 identicon

Góður pistill,   þekki þessa menn tæpast nema af afspurn, en ég var svo heppinn fyrir mörgum árum að kynnast Bjarna Benediktsyni, og útfá þeim hugleiðingum datt mér þetta í hug, varðandi Björn,

Virðist oft vera í vörn

sýnist vegvillt stjarna

fátt finnst mér lýsa að Björn

sé fruma úr skjóðu Bjarna

Robert (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 08:28

10 identicon

Hverjir eru verstir? (Gælunöfn)?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 16:05

11 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Fínn pistill. Lifi málfrelsið.

Baldur Fjölnisson, 27.8.2009 kl. 16:58

12 identicon

Hundalógík af ódýrustu sort.

Sjáið til (þið getið kallað mig IP Hilmar eins og þekkt málpípa SF sem er illa við mig og nafnleysið) að franska byltingin var ekki framin af fólki sem hélt nafnskírteinum fyrir framan sig.

Við getum útvíkkað þetta, engar byltingar hafa verið framdar af fólki sem heldur á nafnskírteinum. 

Þeir sem hafa þessa skoðun sem Björn og Lýðurinn viðra, er yfirleitt fólk sem er uppblásið af eigin mikilvægi. 

Og ástandið í dag býður ekki upp á breytingar með einhverri kurteisi, til þess er valdaelítan, útrásardruslurnar og gangsteragengin í skilanefndunum of spillt. 

Hilmar (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 17:08

13 identicon

Ég get ekki fallist á þessi rök hjá þér Páll. Bull undir nafni er jafn ómerkilegt og nafnlaust bull og ber merki um hugarástand jafn mikið hjá báðum. Það skiptir nákvæmlega engu máli fyrir þau rök sem eru sett fram hver setur þau fram. Einungis styrkur rakanna og gildi upplýsinganna sem koma fram skiptir máli. Við getum alveg eins sannreynt nafnlausar upplýsingar og þær sem koma fram undir nafni. Við gleymum þessu ansi oft. Gott dæmi er að við teljum tök hagfræðings merkilegri en rök einhvers annars - án þess að skoða rökin per se. Og þetta gerist þrátt fyrir að nánast allir hagfræðingar hafi gert í buxurnar í góðærinu og í formála kreppunnar.

Annað sem er mikilvægt er að ef nafnlaust blogg verður bannað, þá verður sett fyrir leka frá bönkunum og fleiri mikilvægum stöðum að hluta. Það er raunveruleg ástæða þess að sumum er illa við bloggið og óheft málfrelsi óháð nafni. Það er engin trygging fyrir því að neitt gerist í málum eða þau verði rannsökuð án leka. Þess vegna skiptir leki miklu máli og án nafnlauss bloggs fækkar leiðum til að koma leka á framfæri. Það eru alltaf einhverjir sem vilja takmarka málfrelsi og þeir hafa alltaf sömu ástæðurnar fyrir því: Eigin hagsmuni - peningalega eða pólitíska.

Árni (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 17:37

14 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Jamm, þeir vilja að þeir og þeirra jábræður og önnur gögn sem sem stýrast af "réttri" partílínu, stjórni innrætingunni. Hægri kommúnistar virðast oft vera enn verri að þessu leyti en vinstri kollegar þeirra. Annars einkennist þetta væl í BíBí eins og raunar öll hans skrif af vanmáttarkennd, hann hefur aldrei haft neina nothæfa hugmyndafræði og er án raunverulegrar menntunar, langheilaþveginn af bandar. raðlygurum og krónískt slasaður á höfði úr kalda stríðinu. Eymdarbloggið hans myndi strax skána mikið hefði hann rænu á að bjóða stöku sinnum góðum gestabloggurum á borð við Pál V. að setja inn pistla, tala nú ekki um ef hann þyrði að leyfa athugasemdir um sín aumingjalegu skrif.

Baldur Fjölnisson, 28.8.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband