Grefur Sjálfstæðisflokkurinn sér gröf Alþýðuflokksins?

Alþýðuflokkurinn gerði inngöngu í Evrópusambandið að stefnumáli sínu fyrir kosningarnar 1995. Jóhanna Sigurðardóttir hafði klofið flokkinn árinu áður og stofnað Þjóðvaka. Spillingarstimpillinn var fastur á flokknum; Guðmundur Árni Stefánsson varð að segja af sér ráðherradómi vegna óreiðumála úr bæjarstjóratíð sinni.

Þegar öll spjót stóðu á formanni flokksins, Jóni Baldvini Hannibalssyni, ákvað hann að gera inngöngu í Evrópusambandið að baráttumáli flokksins. Jón Baldvin hefur verið ævintýramaður í pólitík allt frá barnsaldri þegar hann ásamt karli föður sínum Valdimarssyni klauf vinstrimenn í fylkingar á sjöunda áratugnum. Feðgarnar bera ekki einir ábyrgð á klofningi vinstrimanna, margir lögðu þar hönd á plóg.

Í sögulegu samhengi er vert að minnast þess að Hannibal, faðir Jóns Baldvins, var einn örfárra Íslendinga sem vildi ekki lýðveldisstofnun 1944. Innganga í Evrópusambandið eru svik við lýðveldið og hugmyndina um fullvalda Ísland.

Eftir kosningarnar 1995 var Alþýðuflokkurinn á hraðri leið á ruslahaug sögunnar. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sýni skapfestu og tiltrú á land og þjóð eða er komið að skapadægri móðurflokks íslenskra stjórnmála?


mbl.is Hafa ekki tíma fyrir truflun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varðandi Guðmund þá var óreiðan var aðallega úr ráðherratíð hans, Listahátíð Hafnarfjarðar o.fl. var meira svona skraut á þá köku...

Gestur Páll (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 16:17

2 identicon

Innganga í Evrópusambandið eru *ekki* svik við lýðveldið og hugmyndina um fullvalda Ísland.

Núverandi staða er það hins vegar.

Uni Gislason (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 18:48

3 identicon

Því miður var spillingarstimpill á Alþýðuflokknum ,    Guðm. Árni einn af tveimur ráðherrum sem hefur þurft að segja af sér.Hann hlýtur að hafa gert eitthvað mjög svakalegt af sér samanborið við það að eitt stk. þjóðfélag var sett á hausinn og engin hefur sagt af sér þess vegna ,það hlýtur að hafa verið eithvað gígantiskt ,    Kannski Chernobyl-slysið?

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 19:12

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rangt að svonefndir "lögskilnaðarmenn" hafi verið andvígir lýðveldisstofnun, heldur vildu þeir að lýðveldið yrði stofnað eftir að hernámi Danmerkur lyki og þessar þjóðir gætu gengið frjálsar frá því.

Líkast til hefði lýðveldið þá verið stofnað 17. júní 1946 og þingræðisstjórn ríkt í landinu í stað utanþingsstjórnarinnar 1944.  

Ávirðingar Guðmundar Árna man varla nokkur maður lengur en þær tengdust mannaráðningum í ráðuneytinu.

Bankahrunið mikla er hins vegar þegar komið á spjöld sögunnar sem einn af stórviðburðum Íslandsssögunnar.  

Ómar Ragnarsson, 15.12.2008 kl. 00:08

5 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þeir eru allir spilltir, sama hvaða flokki þeir tilheyra. Mannaráðningar eru alltaf pólitískir bitlingar, sama hvaða flokki menn tilheyra. Engum dettur í hug að segja af sér, sama hvaða flokki þeir tilheyra. Það lítur út fyrir að alþingi Íslendinga samanstandi nánast eingöngu af síkópötum, siðlausu fólki!

Páll Geir Bjarnason, 15.12.2008 kl. 05:54

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sammála greinarhöfundi. Innganga í Evrópubandalagið verður að teljast fullkomin svik við lýðveldið og hugmyndina um fullvalda Ísland.

Jón Valur Jensson, 15.12.2008 kl. 09:20

7 Smámynd: Kári Harðarson

Mikið leiðist mér þessi röksemd að innganga í Evrópubandalagið sé svik við fullveldið.

Orðið "Fullveldi" er þreytt klisja, eins og orðið "Frelsi" sem bandaríkjamenn þreytast aldrei á að juðast á.  Hvernig væri að skilgreina orðið fyrst, þið Bjartar í Sumarhúsum?  Eigum við ekki bara að loka á öll samskipti við útlönd?

Kári Harðarson, 15.12.2008 kl. 10:36

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Kári, þetta snýst alls ekki um það. Ísland var fullvalda 1935, hafði þá samskipti og viðskipti við umheiminn, einnig 1950, 1970, 1980 o.s.frv. án þess að missa í neinu af fullveldi sínu, með yfirráðum yfir löggjöf sinni og t.d. fiskveiðilögsögu, hver sem hún hefur verið á hverjum tíma (3, 4, 12, 50 og 200 mílur).* Nú er hins vegar annað uppi á tengingnum – tillaga ykkar evrókratanna um að undirselja landið erlendu yfirvaldi, bæði í löggjafar- og sjávarútvegsmálum, svo að eitthvað sé nefnt. Þið viljið fá lög hingað á færibandi frá Brussel eins og Þjóðverjar fá, þið viljið fela embættismönnum og æðstu stofnunum EB að stjórna sjávarútvegsmálum og endurskoða reglurnar eins og þeim eða stórþjóðunum hentar. Þið hafið engan skilning, skiljið ekki, að með "inngöngu" (innlimun) værum við að gefa út óútfylltan víxil, því að við hefðum enga tryggingu fyrir því að okkar hagsmunir yrðu virtir til langframa – allar undanþágur frá grunnlögum EB og reglugerðum væru einungis tímabundnar og yrðu felldar niður án þess að við hefðum um það nokkurt neitunarvald. Svo mikið áttirðu þó að vita!

* Sjá einnig þennan texta í hinni frábæru bók Ragnars Arnalds, sem fjallar í kjarnanum um Ísland og ESB, um gildi og nauðsyn sjálfstæðis okkar: Sjálfstæðið er sívirk auðlind, (Rv. 1998, 160 bls.), á bls. 16 (leturbr. jvj):

  • “Efnahagsbandalag Evrópu, EBE, var stofnað með Rómarsáttmálanum árið 1957 og þátttöku Vestur-Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar. Í byrjun 7. áratugarins hófust þreifingar um inngöngu nokkurra fleiri ríkja í EBE.
  • Setjum nú svo að Ísland hefði þá gengið í EBE eins og sumir mæltu með. Hvaða áhrif hefði það haft á íslenskt þjóðlíf?
  • Óhætt er að fullyrða, að ekki hefði komið til útfærslu landhelginnar í 50 mílur árið 1972 eða í 200 mílur árið 1975. Íslendingar hefði mátt þakka fyrir að halda 12 mílna mörkunum óskertum, en forysturíki EBE voru frá öndverðu í hópi þeirra ríkja á alþjóðavettvangi sem kröfðust þess að landhelgismörk væru dregin 3–4 mílur frá landi.”

Jón Valur Jensson, 15.12.2008 kl. 15:06

9 Smámynd: Kári Harðarson

Gott svar, þarna gerðir þú mig hræddan.  Ég á fá svör við þessu:  Hvað væri landhelgin stór í dag ef við hefðum verið í svona bandalagi ?

Minn áhugi á að ganga í bandalagið núna stjórnast af því, að ég sé ekki hvernig við getum búið við verri stjórn en við höfum í dag, að erlendir búrókratar geti ekki verið verri en gegnspillt stjórnmálamannastétt.

Einnig af því að kvótinn er þegar farinn til auðmanna sem ég á enga samleið með og þeirra hagsmunir eru ekki mínir.

Er þá ekki eins gott fyrir mig sem neytanda að njóta kostanna af því að vera í bandalaginu?

Það getur samt verið að með inngöngu værum við að fara úr öskunni í eldinn.  Höldum áfram að ræða um þetta.

Kári Harðarson, 15.12.2008 kl. 15:42

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Kári. Ég var þá upptekinn og síðan í útréttingum og við fleira bundinn fram yfir kvöldmat, þótt ég færi þá aftur að hyggja að svörum á ýmsum vefslóðum og loks þessari. Losna væntanlega til að svara þér eftir hálftíu.

Jón Valur Jensson, 15.12.2008 kl. 20:45

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Með hangandi haus ætla ég að reyna að svara þér, Kári. Spurningar þínar eru tvær.

  1. "Hvað væri landhelgin stór í dag ef við hefðum verið í svona bandalagi?" – Vel má vera, að hún væri 200 mílur, eins og víðast hefur orðið reglan á síðustu áratugum, en það væru ekki okkar 200 mílur, heldur allra í EB sem vildu í hana komast. Stórþjóðir eins og Þjóðverjar og Bretar (þeir síðarnefndu meðlimir EBE frá 1973, árinu eftir útfærslu landhelgi okkar í 50 mílur) ásamt Belgum o.fl. hefðu ekki gefið okkur eftir á bandalags-vettvangi það, sem þær börðust hart fyrir í eiginhagsmunaskyni í alþjóðadiplómatík og alþjóðastofnunum og Bretar jafnvel með hervaldi. (Þetta er stutt svar, sem ég læt nægja að sinni.)
  2. "Er þá ekki eins gott fyrir mig [Kára] sem neytanda að njóta kostanna af því að vera í bandalaginu?" (þ.e. af því að þú "sé[rð] ekki hvernig við getum búið við verri stjórn en við höfum í dag, að erlendir búrókratar geti ekki verið verri en gegnspillt stjórnmálamannastétt," og: "Einnig af því að kvótinn er þegar farinn til auðmanna sem [þú, Kári] á[tt] enga samleið með og þeirra hagsmunir eru ekki [þ]ínir." –– Ég vil byrja á því að draga í efa þessar forsendur þínar og raunar afsanna þær og vona að það hljómi ekki hrokafullt af minni hálfu. Byrjum á því síðastnefnda. (A) Þó að kvótinn sé meðfram farinn til auðmanna (en líka ýmissa sem eiga í almenningshlutafélögum, fyrir utan alla sem eiga sjálfir lítinn kvóta beinlínis), þá eru þetta þó íslenzk fyrirtæki, sem eru með (NB: ég segi ekki: "eiga") veiðiheimildirnar, fyrirtæki sem eru með íslenzkt starfsfólk og fjölda afleiddra starfa í landi, bæði við uppskipun, þjónustu og viðhald, ásamt fiskvinnslu í landi og öllum margfeldisáhrifum þessa, og fyrirtækin öll borga skatta og útsvar eins og líka þessir starfsmenn allir. Framleiðsluvaran er mestöll seld til útlanda, og það skilar okkur gjaldeyri, næstum 11 sinnum meiri en útflutningsverðmæti annarra atvinnugreina á hvern starfsmann, þ.e.a.s.: hver meðalstarfsmaður í sjávarútvegi og landbúnaði aflaði þjóðinni árið 2007 rúmlega 18,2 millj. kr. í gjaldeyristekjur, en útflutningsverðmæti annarra atvinnugreina á hvern starfsmann var einungis rúmlega 1,7 millj. kr. – Hvernig í ósköpunum á svo að vera hægt að segja mér, að engu máli mundi skipta fyrir okkur, þótt Bretar eða Spánverjar eða einhverjir aðrir gerðu út hingað skip til veiða innan 200 mílnanna og landa síðan aflanum í sínum eigin löndum, án nokkurra gjalda hingað, launa, skatta eða afleiddra starfa o.s.frv.? (Bið þig að líta vel á blálitaða tengilinn, neðarlega þar, eftir þetta merki: *.) –– (B) Samanburður þinn á spillingu hér og í Brussel/EB er ekki byggður á neinum öruggum reynsluvísindum. Spilling er mikil í EB; og Acton mælti: Allt vald spillir – algert vald gjörspillir. Bókhald EB hefur ekki fengizt endurskoðað í 12 ár, og þar er víða pottur brotinn og dæmin líka um valdfrekju og yfirgang, einkum gagnvart stökum þjóðum (eða þjóðfulltrúum) í bandalaginu (eitt nýlegt HÉR!). Okkur Íslendingum hefur ekki vegnað bezt undir erlendum yfirráðum – er það ekki ljóst? Og framkoma EB gagnvart okkur, þjóðinni, íslenzkri alþýðu, í Icesave-ábyrgðarmálinu, sem EB vildi ekki fá skorið úr um fyrir óvilhöllum rétti, – er hún ekki nógu frek og yfirgangssöm til að fá neinn til að hika við "inngöngu"? –– Þess vegna segi ég, Kári: Nei, það er af m.a. þessum veigamiklu, framtöldu ástæðum EKKI eins gott fyrir þig sem neytanda að njóta kostanna af því að vera í bandalaginu. Þar fyrir utan fengi Ísland vegna mikillar fjarlægðar, flutningskostnaðar og lítils markaðar aldrei "meðalverð EB" í matvælum og ekki einu sinni EB-meðalverð matvæla í löndum í NV-Evrópu.

Læt þetta snöggsoðna svar nægja í bili. Með góðri kveðju. 

Jón Valur Jensson, 15.12.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband