Úr algleymi útrásar í algleymi ESB

Fyrirtæki, bankar, stjórnvöld og fjölmiðlar hlóðu undir útrásina sem átti að vera einskonar vegvísir fyrir framtíð Íslands. Útrásin var fjármögnuð með ódýru erlendu lánsfé og keyrð áfram af taumlausri græðgi. Blekkingin afhjúpaðist í bankahruninu. Núna á að selja Íslendingum aðra blekkingu.

Innganga í Evrópusambandið á að lækna helstu samfélagsmeinin á Íslandi. Rétt eins og útrásin átti að veita öllum auð og áhyggjulaust ævikvöld, gott ef ekki eilífan æskublóma líka.

Evrópusambandið er pólitísk bandalag meginlandsríkjanna sem eftir tvær heimsstyrjaldir vildu koma sér saman um fyrirkomulag er drægi úr hættunni á þeirri þriðju. Samþætting helstu efnahagsþátta var talin forsenda fyrir friðsamlegu samfélagi í álfunni.

Forræðishyggja óx í Evrópusambandinu og var hún rökrétt afleiðing af grunnforsendum samstarfsins; að tvinna saman efnahagslega hagsmuni aðildarríkjanna. Iðnríki með álíka innviði og sambærilegar hagsveiflur geta búið við sameiginlegt regluverk. Eftir því sem fjær dregur meginlandinu verður erfiðara fyrir þjóðríki að laga sig að stöðluðu gangverki Brussel.

Jaðarþjóðir Evrópu, s.s. Írland, Bretland og Svíþjóð hafa margvíslega fyrirvara á Evrópusambandinu. Jafnvel Danmörk, sem er útskagi Þýskalands, er ekki með myntsamstarfinu.

Forræðishyggjan í Brussel birtist í óvæginni valdapólitískri mynd árið 1970 þegar aðildarviðræður hófust við Breta, Dani, Íra og Norðmenn. Kortéri fyrir upphaf viðræðnanna var búin til sjávarútvegsstefna en hún hafði engin verið áður. Flumbrugangurinn var svo mikill að landbúnaðarstefna ESB var nánast afrituð og orðið sjávarútvegur settur í textann í stað landbúnaðar.

Þrátt fyrir hörmungarferli sjávarútvegsstefnunnar heldur Brussel ennþá í hana. Regluveldi eins og Evrópusambandið getur ekki látið af hendi vald sem það hefur einu sinni tekið sér.

Við eigum ekki að ganga Evrópusambandinu á hönd vegna þess að við eigum ekki heima þar. Við eigum ekki að framselja vald til Brussel vegna þess að þjóðin býr að þeirri reynslu að útlent vald hefur lítinn skilning á íslenskum aðstæðum.

Starfandi stjórnmálamenn á Íslandi ættu að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi vorum við ekki öll með í útrásarvitleysunni og berum þar af leiðandi hvorki pólitíska né siðferðilega ábyrgð á henni. Í öðru lagi erum við ekki öll í áfalli og höfum ekki sagt skilið við dómgreind okkar. Þegar moldviðrinu slotar verður horft til stjórnmálamanna sem stóðu keikir og létu ekki bábiljur blekkja sig þótt raddsterkur kór kyrjaði þær.


mbl.is Guðni vill skoða ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég hugga mig við það að ástandið verður þannig innan ESB þegar kemur að því að kjósa um það að engum manni dettur í hug að ganga þar inn.

Kreppan er bara rétt að byrja þar

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.11.2008 kl. 12:28

2 identicon

Maður viknar bara yfir því að sjá loks eitthvað skrifað af viti.

 Hafðu þakkir.

Steinþór (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:25

3 Smámynd: Bjarni Þór Hafsteinsson

Sæll

Ég held að hér séu að gerast atburðir sem eigi eftir að vekja athygli á heimsvísu. Fólk er ekki ennþá að átta sig á því hvað er um að ræða sem ESB, Bretar og Hollendingar eru að semja við okkur (stilla okkur upp við vegg) um.

Samkvæmt þessu er Íslenska ríkið að skrifa upp á skuldaviðurkenningu upp á 640 miljarða vegna Icesave reikinga. Hvernig fær ríkið tekjur til að geta staðið undir sínum skuldbindingum almennt? Jú með skattlagningu á tekjur einstaklinga. Sem sagt, þessi skuld er okkar almennings að greiða.

Landsbankinn sem bar ábyrgð á Icesave innlánsreikningum var einkafyrirtæki sem starfaði ekki í umboði ríkisins, hvaðþáheldur í umboði almennings á Íslandi. (Annað mál er að bankinn eins og sum ar aðrar fjámálastofnafnir var rekinn af þröngum hópi elítu sem gat fengið stórar upphæðir af lánsfé á lágum vöxtum og fært inná markaði er ríktu háir vextir, hirt vaxtamuninn og leikið milljarðamæringa).

Og hvað með þessar eignir sem sagt er að Landsbankinn eigi og geta komið á móti skuldum? Fullkomin óvissa ríkir um hvers virði þessar eignir eru og hverjar heimtur af þeim verða í framtíðinni. Bent hefur verið á allt eins sé líklegt að eingnirnar muni reynast lítils virði er á reynist. Að auki er ekki ólíklegt að það sé hvorki auðvelt né hreinlegt verk að halda lífi í eignum Landsbankans og hámarka virði þeirra.

Samt sem áður mun væntanlegt samkomulag um skuldarviðurkenningu ríkisins fela í sér að skuldin 640 Mi verði eign skattgreiðanda og það verði að koma í ljós hvað þrotabú Lansbankans mun geta gefið af sér. Þetta eiga að vera lok málsins jafnvel þótt Íslenska fjármálaútrásin hafi verið keyrð áfarm af græðgi fárra einstaklinga en aldrei verið í nafni vinnandi almennings á Íslandi.

Ljóst er að þær tölur sem hér eru á ferðinni eru allar úr takti við stærð og getu Íslenska hagkerfisins. Tala af stærðinni 600 Mi er skattpíning á þegna Íslands líklega marga áratugi fram í tímann, og jafnvel þó að eitthvað skili sér af eignum Landsbankans.

Það sem hér er á ferðinni snýst um mannréttindi. Ríkisstjórn Íslands hefur ekkert umboð til að skella þessari skuld á almennig og einhverja von um eignir Lansdbankans til hugsanlegrar tryggingar. Þessi banki starfaði ekki í nafni almennigs og er ekki á ábyrgð hans.

Ef þetta verður niðurstaða málsins er ljóst að gríðarleg óvissa mun skapast um langa framtíð á Íslandi, sjálfstæði þjóðarinnar og viðreysn efnahagsins. Þetta mun hleypa stax mjög illu blóði í þegna landsins að hafa slíka afarkosti hangandi yfir sér og sérststaklega yngri kynslóðina sem líklega mun strax sjá hag sínum best borgið með því að yfirgefa landið.

Lokaniðurstaða: Ríkisstjórn Íslands hefur ekkert umboð almennings til að samþykkja þessa skuldarviðurkenningu.

Varðandi lausn á deilunni við ESB, Breta og Hollendinga hlýtur það að vera skynsamlegt að viðurkenna það að allar innistæður viðskiptavina Landsbankans séu jafnréttháar, sama hvaða útibú er um að ræða og hvert þjóðerni viðskiptavinarins er. Innistæður almennt yrðu þá forgangskröfur í þrotabú bankans. Þetta þýddi að Íslenska ríkið myndi í raun afnema hina innlendu innistæðutryggingu sína og allir viðskiptavinir Landsbankans tækju á sig tjón í réttu hlutfalli við innistæður sínar. Ljóst er að þetta er ekki nákvæmlega tæknilega framkvæmanlegt svona þar er sumir viðskiptavinir LB eru nú þegar búnir að taka út sitt fé osfrv, en hugmyndafræðilega er þetta hægt. Það kæmi þá einhverskonar bakreikningur til Landsbankans eða ríkisins eftir því hvernig vinnst úr þrotabúi bankans. Þessi bakreikningur yrði viðráðanlegur fyrir Íslenska hagkerfið og sanngjarn. Málinu yrði þá lokið og engar risavaxnar skuldbindingar lagðar á Íslendinga til langrar framtíðar.

Ég vil sjá að það verði stofnuð hreyfing fólks hér á Islandi sem mun neita að borga skuldir sem það ber enga ábyrgð á.

VIÐ LÁTUM EKKI KÚGA OKKUR

Bjarni Þór Hafsteinsson, 15.11.2008 kl. 13:47

4 identicon

Rétt Páll. Fjölmiðlarnir sem lugu skipulega að þjóðinni enda í eigu auðmanna eru nú búnir að sameinast um nýtt trúboð, ESB-trúboðið. Það fer ótrúleg mötun og innræting fram í þessu samfélagi. Og þesu er troðið upp á mann, aldrei hef ég beðið um Fréttablaðið og Mogganum ætla ég að segja upp.

Þetta er algjört drasl.  Verst er þó trúboðið.

Karl (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 15:27

5 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Pæall.  Tek undir hvert orð hjá þér.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 15.11.2008 kl. 15:32

6 Smámynd: Gerður Pálma

Blessaður Páll,  

Ég verð hreinlegla hrærð við að lesa orð af viti um þessi mál, það er undravert að sama fólk sem hefur ýtt landinu í strand er sá hópur sem er að semja um leiðir úr vandanum. Þessi hópur hefur hugsanlega vilja til að gera vel en hefur því miður ekki nein tengst við hvað Ísland er hverjir búa þar og hvernig þarf að taka á málum þar.  Aðalstefna í atvinnumálum er álver fjármögnum með sölu á lýðræði landsins, allt í leyni á hinn bóginn Iceland Naturally, þetta er eins og mjólkin frá Kína, eitruð til þess að auka protínið.  Ríksstjórnin hefur ekki vilja eða nennu til þess að skoða öll þau tækifæri sem bíða landsmanna, nú er að vinna þau upp og kynna, síðan getum við brett upp ermarnar og hafist handa uppá nýtt. Búum vel um okkur og okkar.  Stofnum sjóði til aðstoðar því fólki sem missir sparifé vegna bankahrunsins.  Hafðu þakkir fyrir skrifin. Hvernig er hægt að vekja fólk til meðvitundunar um hvað málin snúast.  Hér í Hollandi er á hverju kvöldi um áttaleytið rúmur klukkutíma umræðuþáttur um þjóðmál, ekki rifrildi og dónaskapur, heldur heilbrigðar umræður, síðan er þessi þáttur endurtekinn sein ca.11efu leytið, þessi þáttur fær mjög mikla áhorfun og fólk veit hvað er í gangi, t.d. Icesave málið sem hér er talið hafa verið glæpastarfsemi en ekki bankastarfsemi.

Gerður Pálma, 15.11.2008 kl. 17:40

7 identicon

Sæll Páll.

Hafðu þökk fyrir þessa góðu grein.

Gunnar Guttormsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 23:45

8 identicon

Áróðurinn hefur verið linnulaus, sérstaklega núna síðustu vikurnar, og stór hluti þjóðarinnar trúir því að innganga í Evrópusambandið geri allt gott aftur. Þótt við fengjum einn eða jafnvel fimm fulltrúa í sambandið er í lögum þess að viðkomandi mættu ekki að berjast fyrir hagsmunum landsins, heldur bara sambandsins í heild. Og fleira og fleira. Þetta er skrímsli sem við eigum að forðast eins og heitan eldinn.

GH (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 01:01

9 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

ESB nei takk.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 16.11.2008 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband