Samfélagsmiðlar og fjölmiðlar - skoðanir og staðreyndir

Samfélagsmiðlar eru vettvangur skoðanaskipta, það er eðli þeirra. Hver og einn á aðgang að samfélagsmiðlum og getur sagt sína skoðun á öllu milli himins og jarðar.

Fjölmiðlar eru mun eldri en samfélagsmiðlar og eiga samkvæmt viðurkenndum reglum blaðamennsku að flytja fréttir byggðar á staðreyndum en birta skoðanir með afmörkuðum hætti, t.d. á leiðarasíðum dagblaða og álitsgjafaeintali í sjónvarpi og útvarpi.

Siðareglur blaðamanna eru til að tryggja vönduð vinnubrögð. Stofnun sem beitir sér fyrir siðlegri blaðamennsku er Ethical Journalism Network. Aiden White forstöðumaður þar á bæ dregur saman 5 kjarnaatriði blaðamennsku, byggð á um 400 siðareglum. Kjarnaatriðin eru þessi

1. Nákvæmni, byggja fréttir á staðreyndum og fara rétt með.
2. Sjálfstæði, vera ekki málpípa.
3. Óhlutdrægni, segja frá báðum (öllum) hliðum máls.
4. Mannúð, upplýsa en ekki meiða.
5. Ábyrgð, leiðrétta og viðurkenna mistök.

Fjölmiðlar eru í samkeppni við samfélagsmiðla um athygli. Þess vegna hafa fjölmiðlar í auknum mæli látið viðurkenndar reglur um blaðamennsku lönd og leið.

Hér á Íslandi er beinlínis gert ráð fyrir að fjölmiðill eins og RÚV þverbrjóti siðareglur til að þjónusta tiltekna hagsmuni. Vinstrimenn líta svo á að RÚV sé pólitískt verkfæri þeirra. Og RÚV reynir að koma til móts við skjólstæðinga sína með hlutdrægum fréttum, núna síðast af Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum.

Samfélagsmiðlavæðing fjölmiðla er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Vestur í Bandaríkjunum er þessi þróun komin vel á veg, samanber fyrirlestur Abbie Boudreau sem rekur breytingu á fjölmiðlum síðustu 15 árin.

En það sem er sérstakt á Íslandi er að RÚV, sem er í opinberri eigu, og á samkvæmt lögum og starfsreglum að stunda vandaða fréttamennsku er leiðandi í samfélagsvæðingu fjölmiðla. RÚV brýtur reglur um nákvæmi, um sjálfstæði og um óhlutdrægni. Ekki annað slagið heldur reglulega. Og þegar RÚV er gagnrýnt sýnir stofnunin enga ábyrgð og neitar að viðurkenna mistök sín.

RÚV setur sig á háan hest og vill setja á dagskrá umræðu um siðferði í stjórnmálum á meðan RÚV er háborg siðlausrar blaða- og fréttamennsku hér á landi. Ósvífni RÚV þekkir engin takmörk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Að hafa skoðanir byggist einmitt á þessum 5. atriðum sem þú nefnir. Nafnorðið "Skoðanir" kemur af því að menn skoða málin frá öllum hliðum og ef því sem þau eru skoðuð af meiri vandvirkni þá hefurðu " Betri skoðanir".

Jósef Smári Ásmundsson, 8.10.2017 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband