Stolnar stríðsminningar

Bretar minnast aldarafmælis orustunnar við Passchendaele, þar sem bandamenn, Bretar og Frakkar, börðust við Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöld.

Áður en yfir lauk, í nóvember, voru dauðir og særðir um hálf milljón. Orustan, líkt og margar aðrar á vesturvígstöðvunum í fyrra stríði, var tilgangslaus; víglínan breyttist sáralítið.

Bretar telja sig hafa fært fórnir í Passchendaele í þágu Frakka. Bretar tóku þátt í fyrra stríði til að hjálpa Frökkum, sem ólmir vildu stríða við Þjóðverja til að hefna tapsins frá 1870, en þá hirtu Prússar af þeim héruð og stofnuðu til þýska ríkisins.

Bretum sárnar að þeir fornu fjendur, Frakkar og Þjóðverjar, taka höndum saman að minnast Passchendaele til að auka vegsemd Evrópusambandsins.

Evrópusambandið er, þrátt fyrir allt, ekki stofnað fyrr en eftir seinna stríð. En sá sem fór með aðalhlutverkið var lítilsigldur liðþjálfi í fyrra stríði. Og hefðu Þjóðverjar unnið það stríð myndu þeir hafa stofnað Evrópusamband meginlandsþjóða - og ekkert pláss fyrir liðþjálfann Hitler í Evrópusögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bretar voru í bandalagi við gamlan erkifjanda, Frakka, og tóku þátt í Fyrri heimsstyrjöldinni í samræmi við það meginatriði margra alda afskipta þeirra af málum á meginlandinu að koma í veg fyrir að neitt eitt ríki fengi yfirburðaaðstöðu.  

Af sömu ástæðu studdi Churchill Stalín gegn Hitler, því að annars var hætta á að eitt stórveldi réðu öllu meginlandi Evrópu, allt frá Úralfjöllum til Atlantshafs. 

Þetta breytir því ekki að þegar menn minnast mannskæðustu orrustanna, aýnir það þröngsýni að aðeins tveir stríðsaðilar minnist geri það. 

Til dæmis voru orrusturnar við Somme og Verdun á sameiginlega ábyrgð stríðsþjóðanna, þótt Bretar berðust við Þjóðverja við Somme og Frakkar við Þjóðverja við Verdun. 

Það virðist til dæmis hafa gleymst, að til þess að hjálpa Vesturveldunum á Vesturvígstöðvunum, hófu Rússar mannskæða stórsókn á Austurvígstöðunum, - Brúsilov-sóknina, einu sóknina sem kennd var við hershöfðingja í stríðinu.

Sú sókn gekk að vísu vel í fyrst en átti eftir að verða Rússum svo dýrkeypt, að hún varð banabiti rússneska hersins í lokin.  

Ómar Ragnarsson, 2.8.2017 kl. 19:19

2 Smámynd: Gestur Páll Reynisson

Tóku Bretar ekki þátt í fyrri heimsstyrjöldinni til að gæta hlutleysis Belga?

Gestur Páll Reynisson, 6.8.2017 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband