Uppreisn æru, fórnarlömb og réttarvitund

Ríkið hvorki gefur né tekur æru manna. Ærunni tapa menn af verkum sínum. Ríkið á hinn bóginn setur lög um æruvernd og meiðyrðamál eru reist á þeim grunni. Og dæmdir menn geta sótt um uppreisn æru - ekki til að fá hana tilbaka, heldur fá annað tækifæri til að haga sér innan ramma laganna.

Tilgangurinn með dómum, sem eru þyngri en fjársektir, er útskúfun úr samfélaginu til lengri eða skemmri tíma. Menn tapa frelsi sínu með fangelsisvist eða búa við skert mannréttindi, eins og að fá ekki að gegna tilteknum störfum.

Æskilegt er að þeir sem fá dóm fyrir að valda öðrum miska eigi möguleika á að komast aftur inn úr kuldanum. Það samræmist réttarvitund okkar að menn sem brjóta af sér fái annað tækifæri.

En fórnarlömbin eiga líka sinn rétt. Það gengur ekki að dæmdir menn fái sjálfkrafa annað tækifæri án tillits til hagsmuna brotaþola.

Fórnarlömbin ættu að hafa eitthvað um það að segja hvort afbrotamaður fái uppreisn æru. Þar skiptir eðli brotsins máli. Fjárhagslegt tjón er slæmt, líkamlegur og andlegur miski er verri og morð verst.

Ferli sem veitir uppreisn æru ætti að taka mið af hagsmunum fórnarlamba. Það er auðvelt að gera það ,,vélrænt" - t.d. með valkvæðum umsögnum eða vitnisburði. Brotaþola yrði gerð grein fyrir að brotamaður sæktist eftir uppreisn æru og boðið að gera athugasemd. Þær athugasemdir væru hluti af málsmeðferðinni.

Æruna fá menn ekki frá ríkinu. Þar gildir orðsporið. Ríkisuppreisn æru er aftur formleg leið að gefa brotamönnum annað tækifæri. En fórnarlömb brotamanns eiga að hafa eitthvað um það að segja hvort og hvenær ríkisuppreisn æru er veitt.

 

 


mbl.is Ferlið sagt vera allt of vélrænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég er ekki viss um að það eigi að vera undir brotaþola komið hvort eða hvenær sakamaður fær uppreist æru. Dómurinn sem viðkomandi hlýtur á að greiða skuld viðkomandi fyrir verknaðinn. Það er betra að uppreist æru sé háð tiltölulega föstum skilyrðum sem ganga jafnt yfir alla eða í það minnsta háð fastskorðuðum skilyrðum. Og það er mannúðlegri að gefa fólki tækifæri til að taka sig á. 

Í Bandaríkjunum situr refsidómur ævilangt á brotamönnum sem gerir þeim erfitt að hefja nýtt líf að lokinni afplánun. Jafnvel fyrir smávægileg brot. Menn fá hvergi vinnu (jafnvel að snúa hamborgurum) og leiðast að endingu aftur til að gerast brotlegir. Dómurinn gerir því ekki upp skuldina nema að hluta.

Útrásarvíkingarnir sem hlutu hér dóma eru þó betur settir, að lokinni afplánun munu þeir hvergi vera gjaldgengir "up front" í banka-/fjarfestingageiranum þó svo forsetinn veiti þeim uppreist æru. Þeir munu þó geta starfað á bakvið eða rekið sín eigin fyrirtæki en það mun alla tíð vera fylgst með þeim.

Ragnhildur Kolka, 19.7.2017 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband