RÚV ætlaði sér að fella Sigmund Davíð

Aðför RÚV að forsætisráðherra þáverandi, Sigmundi Davíð, var pólitísk. Allt frá alræmdu viðtali verktaka RÚV við Sigmund Davíð í ráðherrabústaðnum 11. mars tók fréttastofa RÚV að sér að halda ,,lífi” í málinu fram að útsendingu Kastljóss rúmum þrem vikum seinna.

RÚV hélt uppi raðfréttum af málinu í þessar þrjár vikur. Fréttaútsendingar RÚV þekja allan sólarhringinn og fá dreifingu í gegnum útvarp, sjónvarp og netsíðu. Vegna fyrirferðarinnar á fjölmiðlamarkaði er RÚV í stakk búið að leggja línurnar um fréttaefni hvers dags.  Með raðfréttum var skapað neikvætt andrúmsloft í kringum forsætisráðherra og sú mynd dregin upp hann væri skattsvikari, ósannindamaður og vanhæfur í embætti.

Blaðamenn breska dagblaðsins Guardian höfðu aðgang að sömu gögnum og RÚV. Þann 3. apríl fjallar blaðið  ítarlega um Wintris  og forsætisráðherrahjónin  og segir:

Guardian hefur ekki sé neinar sannanir fyrir skattaundanskotum, undabrögðum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.(The Guardian has seen no evidence to suggest tax avoidance, evasion or any dishonest financial gain on the part of Gunnlaugsson, Pálsdóttir or Wintris.)

Niðurstaða Guardian er algerlega í mótsögn við áróðursherferðina sem þjóðarfjölmiðillinn á Íslandi keyrði í þrjár vikur. Blaðamenn Guardian eru yfirvegaðir, sanngjarnir og stunda hlutlæga fréttamennsku. Fréttamennskan á Efstaleiti er af allt annarri gerð.

Í framhaldi af fyrirsátinni í ráðherrabústaðnum birti Anna Sigurlaug færslu á fésbók sinni um Wintris. Í færslu frá 15. mars sagði hún m.a. um Wintris

KPMG hefur haldið utan um skattamálin fyrir mig og mér hefur frá upphafi verið mjög mikilvægt að þau séu í fullkomnu lagi. Það var því aldrei frestað neinum skattgreiðslum eða neitt þess háttar þó að möguleikar væru til þess samkvæmt lögum.

Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fygldi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið.


Ef RÚV stundaði heiðarlega fréttamennsku hefði stofnunin sagt frá viðbrögðum Önnu Sigurlaugar og tilgreint hvers vegna þau væri komin til. Fréttastofan vissi fullvel hvers vegna Anna Sigurlaug birti þessa færslu; það var vegna fyrirsátar verktaka RÚV í ráðherrabústaðnum. En fréttastofan var ekki að reyna að upplýsa heldur vekja grunsemdir og ala á tortryggni. Fréttir RÚV af Wintris-máli Önnu Sigurlaugar og Sigmundar Davíðs næstu daga voru allar því marki brenndar að sýna hjónin í neikvæðu ljósi.

Þingmenn stjórnarandstöðu spiluðu vitanlega með RÚV og voru uppfullir af reiði, eins og Helgi pírati sagði í fréttum.

Fyrstu dagana eftir færslu Önnu Sigurlaugar reyndi RÚV að finna heppilega skotlínu á þau hjónin. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, var kallaður í viðtal mánudaginn 21. mars. Þá sagði Árni Páll að ,,stóra spurningin" væri ,,hvort forystumenn deildu ekki kjörum með þjóðinni." Árni Páll sagði ekki eitt aukatekið orð um mögulegt vanhæfi forsætisráðherra í viðtalinu. Fimmtudagskvöld í sömu viku finnst RÚV kominn tími á annan snúning á forsætisráðherra og kallar Árna Pál enn á ný til vitnis. Fréttafyrirsögnin er:,, Allt bendi til vanhæfis forsætisráðherra.”  Á mánudag dettur Árna Páli ekki í hug vanhæfi. RÚV klukkar Árna Pál á fimmtudegi í sömu viku og vill fá yfirlýsingu um vanhæfi. Árni Páll spilar með. Annars kæmist hann ekki í viðtal á RÚV. Nú skyldi hamrað á vanhæfi. Seinna, þegar áróðri RÚV um vanhæfi var hnekkt, kaus RÚV að ljúga með þögninni.

RÚV ól á tortryggni á milli ríkisstjórnarflokkanna með hönnuðum fréttum þar sem orð viðmælenda voru afflutt til að þjóna tilganginum. Dæmi um það er hádegisfrétt föstudaginn langa, 25. mars. Þar endursagði fréttamaður RÚVorð þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Brynjars Níelssonar, þannig að hann virtist vilja kalla til þingflokksfund sjálfstæðismanna til að ræða fjármál forsætisráðherrahjónanna. Það væri stórpólitískt ef stjórnarþingmaður óskaði eftir þingflokksfundi undir þessum kringumstæðum. Það eitt að kalla saman slíkan fund er yfirlýsing um vantraust. Í inngangi fréttarinnar segir orðrétt:

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Wintris-málið sé óþægilegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, sérstaklega í ljósi samninga við kröfuhafa og afnáms hafta. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þurfi að funda um málið og fá allar staðreyndir upp á borð áður en hægt sé að taka afstöðu til þess. (leturbreyting pv).

Þetta er beinlínis rangt. Brynjar óskaði ekki eftir þingflokksfundi. Brynjar var í sumarbústað þessa páskahelgi og hann sá sig knúinn að birta bloggfærslu strax eftir hádegisfréttir til að taka af öll tvímæli vegna matreiðslu fréttamannsins á viðtalinu.  Brynjar skrifar:  

Vitnað var í mig í fréttum RÚV fyrr í dag vegna eigna eiginkonu forsætisráðherra og krafna hennar í slitabúin. Mér fannst það ekki mikil frétt enda sagði ég ekkert annað en sem öllum er ljóst. Umræðan um málið er óþægileg fyrir ríkisstjórnina. Stjórnarflokkarnir komast því ekki hjá því að fara yfir málið og ræða það, sérstaklega ef fram kemur vantrauststillaga á þinginu.

Ég hef ekki opinberlega tekið efnislega afstöðu til málsins enda veit ég ekki allar staðreyndir þess. Mér finnst hins vegar afar langsóttar kenningar um vanhæfi ráðherrans. Þá er ekki hægt að halda því fram að ráðherrann hafi misfarið með vald í framgöngu sinni gagnvart slitabúunum, hvað þá að aðrir hagsmunir hafi ráðið en almannahagsmunir, sem er auðvitað aðalatriðið. Ég get hins vegar alveg skilið óánægju margra að þessar hagsmunaupplýsingar hafi ekki legið fyrir. Ég vil hins vegar taka það fram, ef einhver skyldi vera í vafa eftir fréttina, að ég er mikill stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar sem og forsætisráðherra enda hefur þessi ríkisstjórn unnið þrekvirki í stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar.

Þessa eindregnu stuðningsyfirlýsingu Brynjars við forsætisráðherra hafði RÚV að engu enda var dagskipun á fréttastofunni að keyra málið áfram þannig að Sigmundur Davíð væri sekur maður og nyti ekki trausts, ekki einu sinni hjá samstarfsflokknum í ríkisstjórn.

Loksins, loksins þegar Kastljósþátturinn var sýndur sunnudaginn 3. apríl var allt til reiðu að greiða forsætisráðherra náðarhöggið. Í inngangi  tengdi Helgi Seljan Sigmund Davíð við Pútín Rússlandsforseta og það gaf tóninn. Fyrirsátinni í ráðherrabústaðnum  var gert hátt undir höfði og klippt þannig til að forsætisráðherra kom sem verst út. Vitanlega kom hvergi fram að viðtalið var fengið með lygum og blekkingum.

Í hádegisfréttum daginn eftir, mánudaginn 4. apríl, tilkynnti RÚV að bein útsending yrði frá mótmælum sem boðuð höfðu verið á samfélagsmiðlum á Austurvelli síðdegis sama dag. Til mótmælanna var boðað eftir Kastljósþáttinn. Þjóðarfjölmiðillinn tók þannig fullan þátt í hámarkinu á múgæsingunni sem stofnunin kynti sleitulaust undir í rúmar þrjár vikur.

Lögin um RÚV segja um markmið stofnunarinnar að hún skuli ,,stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.”

Það stuðlar ekki að lýðræðislegri umræðu að standa fyrir aðför að stjórnvöldum og svo sannarlega eykur það ekki félagslega samheldni. Forsætisráðherra og eignkona hans brutu engin lög. Ekkert stjórnvald, svo sem skatturinn eða umboðsmaður alþingis, lögregla eða ríkissaksóknari, sáu ástæðu til að efna til rannsóknar á fjármálum Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar. Enda ekkert tilefni til. Anna Sigurlaug fékk föðurarf og geymdi peninginn á erlendum bankareikningi. Það er allt og sumt. En með því að efna til moldviðris, sem stóð yfir í þrjár vikur, tókst að láta líta svo út að forsætisráðherrahjónin væru stórglæpamenn.

RÚV nýtti sér almennt vantraust til stjórnmálanna og bjó til atburðarás sem leiddi til afsagnar forsætisráherra 5. apríl. RÚV stundaði siðlausa fréttamennsku til að koma pólitísku höggi á Sigmund Davíð þáverandi forsætisráðherra.


mbl.is Tóku ekkert tillit til upplýsinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Mér varð flökurt þegar ég sá Kastljós um daginn með sömu stjórnendur og unnu að stjórnarbyltingunni í vor.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.8.2016 kl. 10:22

2 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Mikið er það nú upplifunin að lesa þetta huglæga mat höfundar á því þegar siðferðislega svik SDG komu upp, tengist konu hans náttúrulega ekki neitt, hann sjálfur kaus að draga hana í svaðið með sér, að mínu mati.

Hitt er annað, sem er gott fyrir höfund, að hann getur párað sem hann vill um RÚV og starfssemina þar. Höfundur sjálfur veit það að nú getur ekki þetta sama fólk, starfsfólk RÚV getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, enda vann höfundur að því í samstarfið við stjórnarformann RÚV, þann sama og stýrði OR þegar Sjálfsstæðismönnum hafði næstum því tekist að koma OR í hendur einkaaðila, að starfsfólk RÚV megi ekki tjá sig á samfélagsmiðlum. Því er það höfundi til minnkunar að ráðast, sí og æ, á fólk sem ekki getur varið sig, að minu mati. Höfundur ætti að vera maður meir og óska eftir því að fá að taka málið upp við RÚV á þeirra velli, í hjóð- eða sjónheimum. Það ætti höfundi að vera í lófa lagið ef hann kýs alvöru umræðu um málið. Á meðan það gerist ekki verður hönd sjálfs höfundar hollust. Hann sækir sína fró yfir því að hatas við RÚV og starfsemi þess hér í skúmaskoti. 

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 11:23

3 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

það er ótrúlegt með þig Páll, þú virðist hata þá sem færa þér sannleikann, en átt það til að mæra þá sem færa þér lyginaa. Hvað veldur?

Jónas Ómar Snorrason, 27.8.2016 kl. 14:03

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Væri gaman að vita hvort að menn haldi þá að það hafi verið haldnir fundir í RÚV með útvarpsstjóra og fréttastjóra og þar hafi menn sagt; "Fellum helv... hann Sigmund Davíðo" ?  Og með á fundinum hafi verið einhverjir vondir útlendingar sem voru reiðir út í Sigmund Davíð?

Halló er menn ekki í lagi hér! Halda menn að það væri þá ekki einhver búinn að leka því í fjölmiðla eða halda menn að allir í RÚV séu í samsæri gegn honum?

Magnús Helgi Björgvinsson, 27.8.2016 kl. 14:57

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ríkisútvarpið sem varð að RUV, er orðið ríki eiginhagsmuna og vinstrimanna. 

Framboð til alþingis sem ekki boða lagfæringar á þessu máli fá ekki atkvæði mitt og að líkindum  þá hrósa happi vinstri menn sem mig þekkja.

 Í kosningum þá vegur þungt að hafa öflugan fjölmiðil með sér og það er ekki bráðónítt að hafa stuðning efnaðasta og öflugasta fjölmiðil landsins kostaðan af okkur landsmönnum öllum nema skattsvikurum.     

Hrólfur Þ Hraundal, 27.8.2016 kl. 15:09

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vissulega má deila um aðferðina, og ef það er rétt að fréttamenn hafi valið að líta framhjá upplýsingum sem skipta máli, þá er það auðvitað mjög slæmt. Reyndar eru slík vinnubrögð því miður allt of algeng í fjölmiðlum á Íslandi og langt frá því að einskorðast við þetta tiltekna mál.

Eftir stendur hinsvegar það sem enginn hefur hrakið, og fyrrverandi forsætisráðherra ekki heldur reynt að þræta fyrir, að hann og maki hans áttu hagsmuni bundna við slitabú föllnu bankanna. Sömu slitabúin og hann gaf kosningaloforð um að hann myndi kreista út úr hundruðir milljarða til að nota í leiðréttingu á skuldum heimilanna. Afraksturinn varð innan við 80 milljarðar sem var svo mjög misskipt milli einstakra heimila í flókinni og ógegnsærri framkvæmd sem var sérhönnuð fyrir bankana öðrum fremur.

Augljóslega hefði það sett trúverðugleika slíkra fyrirætlana í allt annað samhengi ef kjósendur hefðu verið upplýstir um það fyrir kosningar að viðkomandi einstaklingur og fjölskylda hans væru í hópi kröfuhafa þessara slitabúa. Kröfuhafa sem hann kallaði sjálfur hrægamma. Að skýra ekki frá því er hvorki verra né betra heldur en þau vinnubrögð fjölmiðlamanna að líta framhjá og skýra ekki frá upplýsingum sem skipta máli fyrir almenning. Með því gaf hann líka sjálfur þennan höggstað á sér, því miður.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.8.2016 kl. 15:11

7 Smámynd: Jón Bjarni

Kastljósmenn hafa aðra sögu að segja.. ER ekkert erfitt að vera svona litaður af flokkslitnum Páll?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/27/lykilspurningum_aldrei_svarad/

Jón Bjarni, 27.8.2016 kl. 15:16

8 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Hrólfur; "Ríkisútvarpið sem varð að RUV, er orðið ríki eiginhagsmuna og vinstrimanna. ", þá má fljótt skipast veðrið ef það tekst að snúa stofnun sem einatt var kennd við og stýrt af flokki kenndan við bláa litinn frá því 1990, að það takist á einu kjörtímabili að gera heila stofnun að ríki kennda við e-ð sem sumir vilja kenna við vinstri. 

Kannski er bara farið að vinna fólk hjá RÚV, sem einmitt Sjálfsstæðisflokkurinn gerði að ohf,  sem hefur sjálfsstæðar skoðanir og þorir að fara eftir þeim, kannski ólíkt áður.

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 15:32

9 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Hér er svo höfundi snýtt rækilega af starfsfólki RÚV; þið munið, þessu vonda "góða" fólki sem dirfist að hafa aðrar skoðanir á samfélaginu en höfundur og hinir í Flugvallarsamsóknarbrotinu. 

Sjá hér:https://www.facebook.com/kastljos/posts/977740969039291

Ágæti höfundur, vantar þig pappír.... ?

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 15:39

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 15:39

10 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Ég get nú ekki orða bundist yfir skrifum Sigfúsar Ómars Höskuldssonar hér að ofan. Ég vona sannarlega að hann óski sér meira réttlætis í sínum málum en hann lætur þeim Sigmundi Davíð og Páli höfundi þessa bloggþráðar í té.

Það vill svo til að undirritaður hefur kafað djúpt í þau málefni sem hér eru til uræðu. ég tel því afar ótviturlegt af Sigfúsi að kveða upp svona þunga dóma í málefni sem hann hefur greinilega ekki kynnt sér að neinu leyti. Lítum á fullyrðingar Sigfúsar. Hann segir:

„þegar siðferðislega svik SDG komu upp, tengist konu hanns náttúrulega ekki neitt, hann sjálfur kaus að draga hana í svaðið með sér, að mínu mati.“

Þetta er einkar upplýsandi um vinnubrögð Sigfúsar. Það efni sem kastljós fjallaði um, var leit Önnu Sigurlaugar, þáverandi sambýliskonu SDG, að heppilegu fyrirkomulagi til að geyma og ávaxta þá fjárhæð sem hún fengi líklega greidda á árinu 2008, eða eftir nokkra mánuði. Í kastljósinu var sagt frá þessri Tilraun Önnu og þess getið að fjármálaráðgjafi hjá Landsbankanum í Luxumburg, hefði ráðlagt henni að stofna félag á Tortóla, þar sem alltaf væri auðvelt að komast að fjármagniu.

Spyrja má, fyrir þá sem ekki hlusta á efni þess máls sem þeir vilja fella dóma um, hvers vegna Anna hafi valið Landsbankann í Lúx, til að leita aðstoðar.  Svarið við því kom líka fram í kastljósinu. Hún leitaði til þessa banka af því að hann „var bankinn hennar“ þar sem hún var búsett á Bretlandi og var ekkert á leiðini að flytja til Íslands. Flest venjulegt fólk hefði líklega gert eins og hún, að leita til viðskiptabanka síns með svona erindi

Á þessum tíma var fjárhagur SDG og Önnu Sigurlaugar fullkomlega aðskilinn og svo hefur einnig verið eftir giftingu þeirra árið 2010. Eignir þeirra eru algjörlega aðskildar og hefur hvorugt þeirra íhlutunarrétt í eignir hins aðilans.

Hvernig SDG hefði átt að draga Önnu Sigurlaugu niður í svað væri fróðlegt að heyra útskýringar Sigfúsar á. Svo vill nefnilega til að HVERGI í skjalaskiptum Landsbankans í Lúx, við lögfræðistofuna Mossack Fonseca, sem skjölin er frá; hvergi í þessum skjölum er að finna eina einustu undirritun SDG um að hann blandi sér í málið. Starfsmaður Landsbankans orðar það í svari til lögfræðistofunnar um hvort Anna Sigurlaug hafi haft með sér lögfræðing. Svar bankamannsins var að Anna hefði verið ein, en að vísu hefði eiginmaður hennar verið með henni, en engin afskipti haft af því sem Anna var að gera.

Gögn Panamaskjalanna sýna að Landsbankinn og lögfræðistofan Mossack Fonseca gengu frá öllum pappírum svo Anna gæti yfirtekið félagið Wintris Inc, sem lögfræðistofan hafði stofnað. Ekkert varð hins vegar af frágangi skjala til slíkrar yfirtöku áður en bankahrunið skall á. Eftir hrunið var stofnaður nýr Landsbanki, sem vildi ekki fara sömu leið og fjármálaráðgjafi gamla Landsbankans ætlaði að láta Önnu fara. Vildi Landsbankinn því losa sig við ábyrgðina af stofnun félagsins og skrifaði bréf til Mossack Fonseca og Önnu Sigurlaugar, þar sem tilkynnt var um að Landsbankinn fæli Mossack Fonseca alla umsýslu félagsins Wintris, sem lögfræðistofan átti í raun, því aldrei hafði verið gengið frá kaupum eða yfirtöku Önnu Sigurlaugar á félaginu. Þetta var snemma árs 2009.

Á svipuðum tíma er Önnu greiddur arfurinn og hún þá búin að skipta um viðskiptabanka, Arfurinn er því lagður inn í Credit Zuisse bankann í London, þar sem Anna bjó þá. Anna samdi einnig við þann banka um að annast, vörslu, rekstur og ávöxtun sjóðsins og samdi jafnframt við KPMG á Íslandi um að annast fyrir sig eftirlit og skattframtöl, því hún átti alltaf lögheimili á Íslandi.

Eftir því sem gögnin sýna, virðist SDG ekki hafa vitað, fyrr en starfsmenn RÚV voru að undirbúa þáttinn, að talið væri að hann ætti aflandsfélag á Tortóla. Engar heimildir hafa fundist fyrir því að SDG hafi nokkurn tíman átt opinn bankareikning á Tortóla.

Það er einstaklega lýsandi fyrir rökræna skoðanamyndun mikils fjölda landsmanna að í umræddum kastljósþætti var ekki lagt fram eitt einasta skjal sem sannaði nein  þau ásökunaratriði sem haldið var fram. Ég tók afrit af þessu kastljósi og ritaði Saksóknara ríkisins bréf, með tæpum 20 atriðum þar sem RÚV braut stjórnarskrá, almenn lög, lög stofnunarinnar, reglugerðir eða siðareglur starfsmanna. AÐ svo mikill fjöldi sem raun bar vitni um, skyldu í einum 40 mínútna sjónvarpsþætti vera blinduð af tæpum 20 alvarlegum lagabrotum, þykir mér mikið meira umhugsunarefni en það hvort SDG hafi átt aflandsfélag á stað þar sem hann átti ekki einu sinni bankareikning.

Guðbjörn Jónsson, 27.8.2016 kl. 17:19

11 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það mætti alveg velta því fyrirsér, hversvegna Sigfús  Ómar fær óðan hnerra af orðum mínum. 

En blár litur er merki sjálfstæðis en sá rauði er merki hafta. 

Hrólfur Þ Hraundal, 27.8.2016 kl. 17:24

12 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Ágæti Guðbjörn, við vitum þau sem vilja vita, að þú og margir hér eru hluti af stuðningsmannasveit SDG; sem er fínt fyrir hann.

Það kann vel að vera að þú hafir e-ð til þíns máls, ætla ekki að elta ólar við þín skrif. 

Hitt stendur eftir, og það sem angrar mig mest í tengslum við þetta mál, að hafi SDH átt í þessu félagi sem svo hann selur konu sinni á eina krónu, og það félag hafi átti kröfu í einn að föllnu bönkunum, þá var ljóst að þegar þingmaðurinn SDG fór ítrekað í pontu og spurði þáverandi Forstætisráðherra um hverjir væri kröfuhafar í íslenska banka, þá hefði hann auðvitað átt að gera grein fyrir sinn aðstöu. Bara það sýnir mér, að SDG var ekki samkvæmur sjálfum sér.

Hvað varðar um meinta "árás" Kastljós, þá er ég því ekki sammála en fagna því að SDG mun nú líklega hverfa af sviðsljósi stjórnmálanna. Íslenskt samfélag á mun betra en slíkan stjórnmálamann sem leiðtoga þjóðar, tek það skýrt fram að ég þekki ekki til mannsins persónulega og dæmi hann ekki sem slíkan en sem stjórnmálamann er hann óhæfur. Enda eru 600 milljóna króna reikningur sem ríkið þarf að greiða eftir eitt pirringskastið dæmi um vont dagsverk. 

Hrólfur, hvað gera þá litblindir...

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 17:42

13 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ég sá einhvers staðar að það væru 30% líkur á að tengja megi íslenskan ráðherra við skattaskjól með einhverjum hætti. En í Evrópu allri væru líkurnar aðeins 0.03% Þetta segir mér að það á ekki undir neinum kringumstæðum að vera hægt að nefna nafn forsætisráðherra landsins í sömu andrá og alræmt skattaskjól.. Menn geta svo endalaust velt sér upp úr einstökum atriðum og hvort einhver lög voru brotin eða ekki. Það kemur málinu bara nákvæmlega ekkert við. Lygin, undirferlið og ómerkilegheitin mun alltaf standa upp úr.   

Atli Hermannsson., 27.8.2016 kl. 18:15

14 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Nú hefur Pall ýtt á viðkvæman blett hjá samfylkingardelunum. Herdeildin mætt og hafnar öllum rökum eins og fyrri daginn. Kastað er upp ásökun um skort á siðferði enda nægilega óljóst hugtak til að hægt sé að setja ný viðmið hvenær sem hentar. Og nú er það orðin glæpur að kafa oní og kynna sér málin, þ.e. Ef málið snertir Sigmund Davíð.

RÚV braut reglu um hlutlægni þegar það gerði ekki grein fyrir hvernig svikist var að SDG. Einnig, eins og þetta viðtal við eiginkonu hans sýnir, þegar það lét vera að geta um greinargerð þeirra hjóna.

RÚV er ekki valkostur heldur nauðungar miðill og því eiga landsmenn rétt á að umfjöllun hans sé hlutlaus.

Ragnhildur Kolka, 27.8.2016 kl. 20:29

15 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Kolka, hvað og hverjir eru "samfylkingardelunum" og hver hefur enn og aftur misst sig við lyklaborðið ? Veit Kjartan af þessum fýluköstum þínum ?

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 22:34

16 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Kolka mætti lesa málgagn sitt og þeirra fáu sem enn styðja Valhallargengið, betur ; http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/04/hafna_fullyrdingum_sigmundar/

Þessi staðhæfing Kolku er því, sem fyrr, röng " Einnig, eins og þetta viðtal við eiginkonu hans sýnir, þegar það lét vera að geta um greinargerð þeirra hjóna."

Sigfús Ómar Höskuldsson, 27.8.2016 kl. 22:38

17 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Nú er að sjá hvað saksóknari gerir eftir að hann fékk afrit af Kastljósi og bréf með ábendingum um 20 alvarleg lagabrot Rúv. 

Helga Kristjánsdóttir, 28.8.2016 kl. 00:14

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvaða lagabrot gætu það eiginlega verið?

Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2016 kl. 00:54

19 Smámynd: Már Elíson

Hafi "RÚV" (Hver er "RÚV" ?) ætlað sér að fella gullskeiða-siðleysingjann SDG, þá voru það klókindi ársins sem ber hreinlega að þakka. Einfaldlega vegna þess að svona menn eru óæskilegir í siðmenntuðum þjóðfélögum, og hvað þá í æðstu embættum. Svona menn eru svældir frá í öllum siðmenntuðum löndum og jafnvel ekki siðmenntuðum (sjá t.d. S-Ameríku) - En hvað þá með BB, sem er búinn að teygja anga síns eins og krabbamein um allt þjóðfélagið ? - Reyndar bíð ég þá eftir því að "RÚV" taki á öllum leynifélögum BB sem blómstra í þjóðfélaginu ákkúrat núna. (bílaleiga Blue car, öflugt rútufyrirtæki...o.fl. o.fl. - Á ekki bara að ráðast í það ? - Þar verður lagleg ormagryfja opnuð.

Már Elíson, 28.8.2016 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband