Fjölmenningu var hafnað í kristnitöku

Ásatrúarmenn líkt og aðrir trúarhópar haga sinni tilbeiðslu eftir eigin hentisemi í samræmi við trúfrelsi stjórnarskrárinnar sem er afurð frönsku byltingarinnar. Kristni, á hinn bóginn, er sá siður sem íslensk menning er fléttuð saman við í þúsund ár. Í umræðu um kirkjuheimsóknir barna, sem eru liður í að kynnast menningararfinum, er haldið fram þeirri bábilju að í nafni fjölmenningar skuli taka fyrir slíkar heimsóknir.

Íslendingar höfnuðu hugmyndinni um fjölmenningu við kristnitökna fyrir rúmum þúsund árum. Sumir lögðu til að kristnir og heiðnir skyldu hvorir búa að sinni trú. Skynugur maður heiðinn var fenginn til að kveða upp úr. Þorgeir Ljósvetningagoði vissi að tvennir trúarsiðir væru ávísun á tvenn lög sem aftur leiddi til ófriðar. Í Bretlandi og á meginlandi Evrópu gera múslímar kröfu um að trúarlög þeirra byggð á Kóraninum, sharía-lög, fái viðurkenningu. Slíkt fyrirkomulag er uppskrift að innanlandsófriði.  

Niðurstaða Þorgeirs var að láta öfgamenn fjölmenningar ekki ráða ferðinn heldur setja einn sið, kristni, þó með víðtækri heimild heiðinna til að blóta á laun, eta hrossakjöt og bera út börn.

Íslendingar, ólíkt flestum þjóðum, tóku upp kristin að mestu án ofbeldis, þökk sé innsæi goðanna sem fóru með trúarlegt sem veraldlegt vald hér á landi á þjóðveldisöld. Málamiðlun goðanna var rúm, kirkjuskatturinn, tíund, var t.a.m. ekki lögfestur fyrr en hundrað árum eftir kristni, en samt afgerandi; allir skyldu skírast.

Sumar þjóðir kunna ekki sinn Þorgeir og búa við samfélagsókyrrð vegna þess að fjölmenningu var ekki hafnað í tæka tíð.

Hér eru lykilatrið úrskurðar Þorgeirs

„En nú þykkir mér þat ráð,“ kvað hann, „at vér látim ok eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, ok miðlum svá mál á milli þeira, at hvárirtveggju hafi nakkvat síns máls, ok höfum allir ein lög ok einn sið. Þat mun verða satt, er vér slítum í sundr lögin, at vér munum slíta ok friðinn.

En hann lauk svá máli sínu, at hvárirtveggju játtu því, at allir skyldi ein lög hafa, þau sem hann réði upp at segja.

Þá var þat mælt í lögum, at allir menn skyldi kristnir vera ok skírn taka, þeir er áðr váru óskírðir á landi hér. En of barnaútburð skyldu standa in fornu lög ok of hrossakjötsát. Skyldu menn blóta á laun, ef vildu en varða fjörbaugsgarðr, er váttum of kæmi við. En síðar fám vetrum var sú heiðni af numin sem önnur.


mbl.is Frumflytja heiðið jólalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sæll Páll!

Hver er stefna framsóknar-flokksins þíns í byggingu nýrrar mosku í rvk?

Jón Þórhallsson, 21.12.2014 kl. 11:38

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Jón,  stefna Framsóknarflokksins, varðandi byggingu mosku í Reykjavík er alveg á hreinu, en því miður eru vinstri villingarnir, sem eru í meirihluta ekki stjórntækir.............

Jóhann Elíasson, 21.12.2014 kl. 12:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rangt þegar sagt er að því sé "haldið fram að taka skuli fyrir" heimsóknir í kirkjur. Deilan stendur um það hve stórt hlutverk prestarnir eigi að hafa í fræðslunni í heimsöknunum og hve stórt og hvers eðlis hlutverk prestanna eigi að vera. 

Ómar Ragnarsson, 21.12.2014 kl. 15:16

4 Smámynd: Odie

Það gleymist í þessari sögu að konungur nokkur hafði tekið gísla og beitt þeim í hótunum þeim ef íslendingar tækju ekki upp nýjan sið.

Að auki vill gleymast hvernig kristnitakan í evrópu átti sér stað.  Hún minnir  á ISIS aðferðina.  Drepa þá sem ekki vilja trúa.  Þetta vissu Íslendingar vel.

Odie, 21.12.2014 kl. 17:15

5 Smámynd: Kommentarinn

Ég get ekki sagt að þér takist Páll að færa rök fyrir því að fjölmenningu hafi verið hafnað við kristnitöku. Þvert á móti er ljóst að ekki var tekin nein afstaða til þess.

Í öðru lagi er ákvörðun sem tekin var fyrir þúsund árum ekki merkilegt innlegg til átta okkur á því hvernig við eigum að haga málum okkar í dag. Sem betur fer þróast siðferði samfélagsins með tímanum og það sem þótti æskilegt fyrir þúsund árum er það ekki endilega í dag.

Gott dæmi um það er hversu mikið siðferðisboðskaðurinn í biblíunni breytist milli gamla og nýja testamentsins. Í þykir siðferðisboðskapur gamla testamentsins á köflum hræðilegur enda er guð gamla testamentsins líkari djöflinum en guði. Gott siðferði í bronsaldar hirðingjasamfélagi miðausturlanda á þessum tíma er eitthvað allt annað en gott siðferði í dag. Munurinn á siðaboðskap nýja testamentsins og nútímans er ekki eins mikill en þó nokkur.

Samfélag er ekki hægt að byggja á mörg þúsund ára skræðum. Við viljum ekki stöðnun heldur framfarir. Siðfræði er vísindagrein og vísindi eru í stöðugri þróun. Trúarbrögð eiga ekki einkarétt á góðu siðferði þó trúmenn séu því ósammála.

Kommentarinn, 21.12.2014 kl. 20:06

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Norðmenn halda mikið upp á Stiklastað og orrustuna þar, að ekki sé nú minnst á Ólaf konung sem hafi í raun skapað einingar- og þjóðartilfinningu Norðmanna. Þar gnæfir stór stytta af konungi á hesti með Biblíuna í annarri hendi en sverð í hinni. 

Ómar Ragnarsson, 21.12.2014 kl. 22:20

7 Smámynd: Skeggi Skaftason

Endemis rugl. Árið 1000 var trúfrelsi afnumið á Íslandi, trúfrelsi var svo aftur innleitt á Íslandi árið 1874. Páll Vil. virðist sakna þeirra tíma þegar hér var trúaránauð og öllum skipað að hugsa eins.

Skeggi Skaftason, 22.12.2014 kl. 11:22

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Dr. Össur/Skeggi ! 

Þú veist manna best, eða átt að vita, akademiskar kröfur til skrifa og því undarlegt að sjá slíkan sleggjudóm. Skiljanlegt kann slíkt að vera í óundirbúinni ræðu á Alþingi hjá þér enda alþekkt ýmislegt sem miður hefur farið í málflutningi þínum þar um árin - en hér þar sem þú ættir að hafa smá ráðrúm til umhugsunar áður en þú sendir skrifin inn á síðuna,þá er það stórundarlegt !

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.12.2014 kl. 13:08

9 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Ómar.

Er þetta ekki skrifað :  Stiklarstað ?

Annars er ekki alveg hægt að sjá samhengi í þessu sem þú nefnir um styttuna um Ólaf konung við það sem Páll skrifar.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.12.2014 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband