Heimsfrásögnin er týnd, líka íslenska neðanmálsgreinin

Þeir sem komust til vits og ára síðari hluta síðustu aldar bjuggu við trausta frásögn af heiminum. Frásögnin var um baráttu vesturs og austurs, kapítalisma og kommúnisma. Oft er frásögnin kennd við kaldastríðið eða tveggja póla heim Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Fall Berlínarmúrsins 1989 gróf undan ráðandi heimsfrásögn áratuganna á undan. Engin ný heimsfrásögn leysti þá gömlu af hólmi. Hægt er að nefna nokkrar sem koma til álita; Evrópusambandið (hvort það stenst eða leysist upp); pólitísk og hernaðarleg spenna í Austur-Evrópu, uppgangur öfgamúslíma fyrir botni Miðjaðarhafs og viðsjár Kína og Japan í Asíu. Engin þessara frásagna er enn nógu altæk til að verða að heimsfrásögn.

Íslendingar áttu sína neðanmálsgrein við heimsfrásögnina á tímum kalda stríðsins. Stjórnmál og mannlíf að nokkur leyti hverfðist um afstöðuna til herstöðvarinnar á Miðnesheiði og aðildar Íslands að Nató. Brottfall heimsfrásagnarinnar hafði gagnger áhrif á íslensku neðanmálsgreinina. Dæmi: á tímum kalda stríðsins var náið bandalag með Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki. Í dag eru þessir flokkar eins og hundur og köttur. Vg, Alþýðubandalagið, var alltaf stærri en kratar vegna andófsins gegn hernum. Núna er Vg hreinn minnipokaflokkur, þótt formaður flokksins sé margfalt kjósendavænni en formaður Samfylkingar.

Við fall gömlu heimsfrásagnarinnar skrifaði lítt þekktur bandarískur embættismaður, Francis Fukuyama, bók um endalok sögunnar.  Meginkenning bókarinnar var að nýja heimsfrásögnin yrði vestrænt lýðræði og markaðsbúskapur. Fukuyama varð stórstjarna út á bókina. Þegar hann lítur tilbaka, 25 árum eftir að bókin kom út, játar hann að sögunni lauk ekki með endalokum kalda stríðsins. Lýðræði og markaðsbúskapur urðu ekki sigrandi fullhugar 21. aldarinnar - urðu ekki nýja og endanlega heimsfrásögnin - en eru þó skástu sniðmátin fyrir mannfélagið.

Skortur á heimsfrásögn gerir pólitík kvikari, bæði alþjóðastjórnmál og innanlandsstjórnmál, þar sem saklausir neistar geta kveikt bál - ekki vegna ásetnings heldur óðagots.

Helstu sögulegu hliðstæður við alþjóðastjórnmál nú um stundir eru aðstæður í kringum aldamótin 1900 þegar Evrópa var í þeim hamskiptum að losna við gömlu valdastéttina, aðalinn, og íklæðast múglýðræði. Allur almenningur gladdist svo innilega ágústdagana 1914 þegar loksins, loksins eitthvað spennandi gerðist með því að stríð braust út enda trúði fólk að stríðið yrði nett og skemmtilegt og búið fyrir jól.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Einu sinni var drottning í ríki sínu,stríðsglöð með afbrigðum. Augun gneistuðu af frekju og drambi svo glöggt mátti sjá grilla í hyldýpið á bak við þau,leiðin að sjálfinu ógurlega. Frh.hjá þeim næstu- Eitthað,bara eitthvað verður að setja hér neðanmáls.Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 16.8.2014 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband