Málþófið kemur stjórnarandstöðunni í koll

Skilaboð stjórnarandstöðunnar til þjóðarinnar eru þau að ekkert er mikilvægara í íslenskum stjórnmálum en að ræða frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. Tvær vinnuvikur þingmanna hafa farið í að ræða frumvarpið og sér ekki fyrir endann á umræðunni. Málþófið, sem stjórnarandstaðan kallar umræður, stóð fram á nótt.

Stjórnarandstaðan hlýtur að treysta blint á skammtímaminni fólks og að kjósendur verði búnir að gleyma í maí hvaða pólitískar áherslur stjórnarandstaðan hafði í janúar. Hitt er óvíst að stjórnarandstaðan nái vopnum sínum í tæka tíð fyrir kosningabaráttuna og takist að móta málefnagrunn sem vænlegur er til árangurs.

Með því að taka frumvarpið um Ríkisútvarpið í gíslingu ætlaði stjórnarandstaðan að píska upp svipaða stemmningu í þjóðfélaginu og hún gerði gegn fjölmiðlafrumvarpinu fyrr á kjörtímabilinu. Með hávaða á Alþingi og fjölmiðlabumbuslætti Baugsmiðla átti að fá þjóðina til að trúa því að heimsendir væri í nánd ef frumvarpið um Ríkisútvarpið yrði samþykkt.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að hernaðaráætlunin mistókst, en líklega sú helst að þjóðin lætur ekki plata sig tvisvar með sama áróðursbragðinu. Þingforsetar meirihlutans sitja núna glottandi dag og nótt yfir þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem standa í biðbröð við ræðustólinn sem enginn veitir athygli.

Á þessum tíma í kosningabaráttunni reyna stjórnarandstöðuflokkar að finna höggstað á sitjandi ríkisstjórn og búa sér til málefnastöðu. Venjuleg þingstörf eru árangursrík aðferð til þess að þreifa fyrir sér með ólík mál. En þegar aðeins eitt mál er á dagskrá, sem í ofanálag er lítt áhugavert fyrir almenning, er stjórnarandstaðan að tapa tíma.

Ríkisstjórnarflokkarnir hagnast á málþófinu. Ráðherrar hafa næg tækifæri til að fara með sín mál til almennings á meðan þingmenn andstöðuflokkanna láta kvörnina mala án þess að nokkur taki eftir.

Stjórnarandstöðunni hlýtur að líða eins og fíflinu sem var att á foraðið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kannski þeir telji sig geta bæt upp það að þeir störfuðu aðeins í 181 dag á síðasta ári.

Kannski er sorglega staðreyndin bara sú að Íslenskir stjórnmálamenn eru löngu komnir úr tengslum við almenninginn í landinu.

Hannes Þórisson.

Hannes Þórisson (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 11:53

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Stjórnarandstaðan á að nýta sinn andmælarétt eins lengi og þurfa þykir og fylgja sinni eigin samvisku.Það er meira en hægt er að segja um ríkisstjórnina,þar gildir flokksaginn,einn fyrir alla hversu heimskulegt sem málefnið er.

Kristján Pétursson, 18.1.2007 kl. 13:13

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Líða eins og fíflinu sem att var á foraðið? Nei, fíflinu leið illa. Enginn etur stjórnarandstöðunni út í foraðið. Hún veður sjálfviljug.

Hlynur Þór Magnússon, 18.1.2007 kl. 16:53

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Stjórnarandstaðan hefur orðið sér til ævarandi skammar með andófi sínu að þessu sinni.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.1.2007 kl. 17:00

5 identicon

Stjornarandstaðan er ekki að nýta enhvern andmælarétt með blaðri um allt og ekkert.  Ríkisstjórn hvers tíma styðst við meirihluta þingmanna og mál eiga að fá eðlilega meðferð og atkvæðagreiðslu, punktur.  Allt annað er bull og bullarar eru ekki hafandi í neinni vinnu, út með þetta lið og setjum klárar reglur um ræðutíma.  Mörg mál eru í biðstöði hjá þinginu meðan svona er, þetta er heimskulegt eins og það er.

Engilbert Gíslason (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 23:07

6 identicon

Ég vil nú vitna í orð össurar leyfum lýðræðinu að ráða og láttum þetta bíða farm yfir kosningar. Þetta voru hans orð en hvernig er það ég er ný kominn til landsins eftir nám erlendis situr þessi ríkisstjórn á ólýðræðislegum forsendum?  Voru ekki kosningar fyrir 3 og hálfu ári? Eigum við ekki að bíða fram á þar næstu kosningar er það ekki enn lýðræðislegar eða eftir 12 ár þá eru við sko að tala um lýðræði maður.

Ég er bara sáttur með þetta málþóf þá eru þessu pésar ekki að gera neitt annað af sér á meðan. 

Atli Ó. (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 00:30

7 identicon

Nú er stjórnarandstaðan komin upp að vegg, leggur fram tilboð um gildistöku laganna og þá skuli frumvarpið í gegn.  Eins og oft áður hefur verið ætt áfram án fyrirhyggju og nú eiga stjórnarsinnar að bjarga stjórnarandstöðunni úr þeirri sjálfheldu sem þeir eru búnir að koma sér í. Réttast væri að leyfa þeim bara að góla áfram engum til gagns en þeim sjálfum til ævarandi minnkunar

Jóhann Jóhannsson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 06:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband