Blaðamenn verða fjölmiðlar - og heimtufrekjan vex

Allir geta orðið blaðamenn, starfið er ekki lögverndað og hver sem er má titla sig blaðamann. Það er ekki nýtt. Aftur er nýtt að hver sem er getur orðið starfandi blaðamaður á fjölmiðli. Með því að stofna blogg eða heimasíðu. Einn blaðamaður, hvort heldur skrifandi eða óskrifandi, getur þannig orðið fjölmiðill.

En sumum er það ekki nóg. Þeir vilja að einhverjir borgi þeim að vera blaðamenn, ef ekki einkaaðilar þá ríkið. Kjarninn er félag nokkurra blaðamanna sem vilja fá ríkispeninga í áhugamálið sitt. Sigurjón M. Egilsson, sem rekur Miðjuna, heggur í sama knérunn og kallar það ,,þöggun" ef stjórnmálamaður vill ekki tala við hann eða einkaaðili ekki borga honum kaup.

Sigurjón segir ástandið ,,afleitt fyrir fjölmiðlun á Íslandi."

Nei, ástand fjölmiðlunar á Íslandi um þessar mundir er giska gott. Ofgnótt er af framboði og peningum er dælt inn í greinina. Núna síðast hálfum milljarði í Vefpressuna.

Í landi blaðamannafjölmiðla verður þorri blaðamanna að sætta sig við að stunda sína iðju fyrir eigin reikning. Hér ræður lögmálið um framboð og eftirspurn.

 

 


Einkarekstur eykur oflækningar

Oflækningar eru stundaðar af einkarekinni læknisþjónustu hér á landi, að því er fram kemur hjá landlækni. Ástæða oflækninganna, sem eru óþarfar aðgerðir er jafnvel valda heilsutjóni, er sú að einkalæknisþjónusta er borguð af ríkinu - en ekki sjúklingum - og ríkið greiðir fyrir afköst.

Einkarekstur í heilbrigðisgeiranum er meira og minna byggður á blekkingum. Það eina sem er ,,einka" við þennan rekstur er gróðinn sem fer í vasa einkaaðila. Ríkið borgar fyrir þjónustuna.

Almenn samstaða er hér á landi um að allir eigi kost á heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Einkarekstur í þessum geira á ekki við nema á afar skýrt afmörkuðum sviðum, t.d. fegrunaraðgerðum og augnaðgerðum þar sem markmiðið er að leysa fólk undan því að nota gleraugu/linsur.

Einkarekstur í almennum lækningum veldur oflækningum og er sóun á almannafé.


Góða fólkið sem skammast sín að vera Íslendingar

Eftir hrun var ,,ónýta Ísland" óopinbert slagorð góða fólksins. Það vildi afnema stjórnarskrá lýðveldisins, pakka fullveldinu saman og senda það til Brussel. En hrunið var ekki meira en svo að við réttum úr kútnum, þökk sé krónunni, sem góða fólkið hatast við.

Ísland býður þegnum sínum upp á öfundsverð lífskjör. Þess vegna kemur hingað fólk að vinna og setjast að. En sumir koma í leit að fríu fæði, húsnæði og dagpeningum. Og góða fólkið rekur upp ramakvein þegar útlendingum er vísað úr landi eftir að sýnt er fram á að viðkomandi eigi ekkert erindi hingað.

,,Ég skammast mín að vera Íslendingur" heitir herferð góða fólksins, sem nú stendur yfir á samfélagsmiðlum með dyggri aðstoð fjölmiðla sem reglulega birta fóður fyrir þá góðu að kjamsa á. Þetta nýja tilbrigði við ,,ónýta Ísland" er sumpart keyrt áfram af fólki sem beðið hefur skipbrot í lífinu.

Sumir í háværasta hluta góða fólksins eiga að baki persónulegt gjaldþrot, alkahólisma og brotnar fjölskyldur. Til er fólk sem ,,afrekar" allt þrennt. En samt gólar það á torgum samfélagsmiðla um að þjóðin eigi að skammast sín.

Fólk með ömurlegan æviferil á það til að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um mistökin í lífinu. Þetta fólk þiggur með þökkum hjartnæmar hannaðar sögur af flóttamönnum í bágindum, otar þessum sögunum framan í þjóðina og segir hrokafullt: þið eigið að skammast ykkar.

Vellíðunin, sem misheppnaður einstaklingur finnur fyrir, þegar hann hreykir sér í hlutverki mannvinar bætir upp vanlíðan ömurlegrar ævi.

 


Bloggfærslur 9. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband