Að drepa og deyja fyrir málstað

Hermennska, bæði í reglulegum herjum, meðal skæruliða og uppreisnarmanna, felur í sér að vera tilbúinn að deyja fyrir málstaðinn. Í sumum tilfellum setja hermenn í skæruliðaherjum og uppreisnarliði jafnframt fjölskyldu sína í hættu.

Rannsókn sem gerð var á hermönnum í Írak sýndi að málstaðurinn skipti mestu máli í hvatalífi þeirra báru vopn og voru tilbúnir að fórna lífinu. Málstaðurinn er helgur og óumsemjanlegur.

Fyrr á tíð var það kallað að berjast fyrir kóng og föðurland, sem hvorttveggja var sveipað helgiljóma. Nafnið á málstaðnum kann að breytast en hvatir, sem virkjaður eru til að fá mann til að drepa annan, eru í raun sambærilegar.

Tilgangurinn helgar meðalið. Í nafni hugmynda, trúarlegra eða pólitískra, ganga menn til verka að drepa og deyja. Hvorttveggja í senn er það ósköp aumkunarvert en um leið fjarska mannlegt.


Mótmæli í hruni og góðæri

Ef Flokkur fólksins færi fylgi út á mótmæli er það andóf af öðru tagi en það sem skilaði Pírötum og Vinstri grænum stuðningi á síðasta kjörtímabili.

Á síðasta kjörtímabili voru eftirmál hrunsins í forgrunni umræðunnar. Dómsmál yfir banka- og fjársýslufólki, skuldaleiðrétting heimilanna, gjaldeyrishöftin og loks alræmdur fréttaflutningur af Panamaskjölum, sem felldi ríkisstjórnina.

Umræðan á yfirstandandi kjörtímabili, sem raunar er nýhafið, er af öðrum toga. Á síðasta kjörtímabili voru enn sterkar efasemdir um að Ísland myndi klára sig úr hruninu. Tortryggni gagnvart stjórnvöldum stóð djúpt. Í dag er engum blöðum um það að fletta að bullandi góðæri er í landinu og okkur tókst bæði efnahagslega, félagslega og pólitískt að komast úr hrunmenningunni. Svona nokkurn veginn sem heildstætt samfélag.

Meginstraumar umræðunnar núna eru tvíþættir. Í fyrsta hvernig við skiptum góðærinu á milli okkar og í öðru lagi hvernig við komumst hjá því að góðærið snúist upp í kreppu þegar innstreymi gjaldeyris minnkar.

Það er ekki líklegt að almenn óánægja skili Flokki mannsins tveggja stafa tölu í fylgiskönnun. Sértækari mál búa að baki en uppgjöfin sem einkenndi óánægjustuðninginn sem vinstriflokkarnir mældust með síðasta kjörtímabil.


mbl.is Flokkur fólksins höfði til óánægðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árás sem forvörn: Kim spilar upp í hendurnar á Trump

Yfirvofandi stríð við Norður-Kóreu þjónar hagsmunum Trump Bandaríkjaforseta ágætlega. Forsetinn fær á sig kastljós sem leiðtogi lýðræðisríkja gegn hráu valdaskaki kommúnista.

Haldi Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu áfram að hrella nágranna sína með eldflaugaskotum og tilraunum með kjarnorkusprengjur kemur að því að árás á Norður-Kóreu verði nauðsynleg forvörn.

Norður-Kórea getur ekki hótað slíkri árás enda vitað fyrirfram að landið tapar stríðinu, hefjist það á annað borð.

Bandaríkin og nágrannar Norður-Kóreu hafa lengi búið við Kim Jong-un og félaga og geta eflaust lengi enn þreytt þorra og góu. Óvíst er með úthald Norður-Kóreu þegar harkalegri viðskiptaþvinganir taka að bíta.

Komi til stríðs á Kóreuskaga þurfa Bandaríkin ekki að hafa áhyggjur af langvinnum átökum í eftirleiknum. Auk Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eru þrír aðilar sem eiga beinan hlut að átökunum, allt nágrannar: Rússland, Kína og Suður-Kórea.

Ef og þegar þolinmæðina þrýtur verða nánast tilbúnir samningar um hvað eigi að gera við hræið af kommúnistaríkinu.

En, vel að merkja, stríð á Kóreuskaga myndi kosta ógrynni mannslífa. Vonandi vinnur þolinmæðin þrautir allar, Kim haldi aftur af sér og að gikkfingur Trump sé ekki snöggur.


mbl.is Fáir góðir möguleikar í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband