7 vikna helför vinstriflokka

7 vikur eru til kosninga. Vinstriflokkarnir á alþingi, Píratar, Vinstri grænir, Samfylking og Björt framtíð, eiga tvöfalt verkefni fyrir höndum. Í fyrsta lagi að útskýra fyrir sínu fólki hvers vegna þeir eru fjórir en ekki einn.

Í öðru lagi að telja kjósendum trú um að betra sé að bjóða fram margklofið fremur en einn framboðslista. Kjósendur munu spyrja sig hvort ástæða sé að púkka upp á margklofna vinstrimenn þegar helstu tíðindi stjórnmálanna eru að smáflokkakraðakið á vinstri vængnum er meginfyrirstaðan fyrir því að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Í síðustu þingkosningum skein stjarna Vinstri grænna skærast í stjórnmálalitrófi vinstrimanna. Hending mun ráða hvaða vinstriflokkur þykir skástur 4. nóvember. Nema það slokkni á allri seríunni.


mbl.is Flestir stefna á fund fyrir kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóryrði Guðna Th. flýttu falli stjórnarinnar

Guðni Th. forseti þjónaði lýðveldinu illa þegar hann talaði eins og samfélagsmiðill við setningu alþingis fyrir fjórum dögum. Upphrópanir á borð við

Engu skipt­ir þó stuðst hafi verið við lög

og

Við óbreytt ástand verður ekki unað. Eft­ir óbreyttu verklagi verður ekki unnið.

töluðu beint til hávaðafólksins sem leitaði að ástæðu til að sprengja ríkisstjórnina. Það skiptir máli hvernig maður talar sem forseti.

Fræðimannsblók í háskóla getur leyft sér glennur á opinberum vettvangi. Ekki forseti.

 


mbl.is Kallaði ekki eftir nýrri stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsmiðlar, fjölmiðlar og öskurlýðveldið

Stjórnmálaumræðan breyttist með samfélagsmiðlum. Áður sáu almennir fjölmiðlar, einkum dagblöð og ljósvakamiðlar, til þess að tryggja lágmarksgæði umræðunnar. Verstu rit- og málsóðum var haldið utan síðna dagblaða og komust ekki í hljóðnemann.

Með samfélagsmiðlum komust þeir að sem áður töluðu í skúmaskotum. Margrét St. Hafsteinsdóttir lýsir fyrir okkur umræðunni og er það ófögur lesning.

Fjölmiðlar eru í samkeppni við samfélagsmiðla. Í vaxandi mæli taka fjölmiðlar upp vondu siðina, öskra fyrst og aðgæta eftirá hvort innistæða var fyrir upphrópuninni.

Verkalýðsfélagið Eining varð fyrir því að RÚV öskraði út í loftið í beinni útsendingu um mansal á veitingastað á Akureyri og notaði nafn Einingar sem skálkaskjól.

Í yfirlýsingu frá Einingu er RÚV líkt við óvandaðan samfélagsmiðil. Enda voru vinnubrögðin þau sömu og tíðkast á samfélagsmiðlum: innistæðulaust öskur.

Umræðan sem felldi ríkisstjórnina, um uppreisn æru barnaníðinga, byggði á þeim flugufæti að áratugagömul lög voru löngu orðin  úrelt. Um það voru allir sammála og vinna var hafin að breyta þessum lögum. En öskur samfélagsmiðla og fjölmiðla sá til þess að ríkisstjórnin féll.

Það er ekki hægt að tala um að lítil þúfa hafi velt þungu hlassi, heldur varð fjöður að heilu hænsnabúi í umræðunni. Enda keppast nú fjölmiðlar og viðkomandi stjórnmálamenn, sem tóku undir í öskurumræðunni, við að finna aðrar og merkilegri skýringar á falli ríkisstjórnar lýðveldisins.

En það blasir við að úrelt lög sem allir voru sammála um að skyldi afnema var efniviðurinn í öskrin sem felldu ríkisstjórnina. Í útlöndum er við orðin að óskiljanlegu öskurlýðveldi. Það er ekki vel gott.

 


mbl.is Íslensk stjórnmál í upplausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband