BBC og RÚV: samanburður á hamfarafrétt

Ísjaki losnaði frá Suðurskautslandinu. Fyrirsögn RÚV: Mestu breytingar sem orðið hafa í 10.000 ár. Fyrirsögn BBC: Risastór ísjaki klofnar frá Suðurskautslandinu.

Frétt RÚV gengur út á að hamfarir séu á næsta leiti. Millifyrirsögn eins og ,,hlýnandi veður" læða þeirri hugsun að lesanda að loftslagsbreytingum sé um að kenna.

Í frétt BBC segir: ,,We know that rifts like this periodically propagate and cause large tabular icebergs to break from ice shelves, even in the absence of any climate-driven changes."

Frétt RÚV vísar í BBC sem heimild, en þar er rætt við nokkra vísindamenn, sérfróða um Suðurskautið, og þeir eru varkárir í ályktunum. En RÚV sleppir öllu sem ekki fer saman við hamfarafrásögnina.

RÚV kallar til vitnis jarðeðlisfræðing á Veðurstofunni sem talar um ,,háværar viðvörunarbjöllur" til að gera frásögnina dramatíska.

BBC á hinn bóginn vitar í sérfræðinga sem hafa Suðurskautsísinn sem rannsóknarsvið: ,,At this stage we really don't know whether there is some larger-scale process that might be weakening this zone..."

Hvað gengur RÚV til?


ESB-sinnar í felum: næsta umræða 2030

Umræðan um ESB-aðild Íslands skilaði afgerandi niðurstöðu áramótin 2012/2013 þegar ESB-umsókn Samfylkingar frá 16. júlí 2009 var lögð á hilluna. ESB-sinnar eru í felum, koma helst fram í skoðanakönnunum eða nafnlausum pistlum.

ESB-sinnar, almennt og yfirleitt, voru ekki menn til að viðurkenna sig sigraða. Hvorki þegar umsóknin var dregin tilbaka né sumarið 2016 þegar Bretar ákváðu að ganga úr Evrópusambandinu.

Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi berst fyrir aðild að ESB. Ekki einu sinni Samfylkingin nennir að halda málinu á lofti.

Enginn veit hvað verður úr Evrópusambandinu eftir úrsögn Breta. Brexit tekur fyrirsjáanlega tvö til fjögur ár að verða að samningi. Ein fimm til tíu ár í viðbót leiða í ljós hvaða fyrirbæri ESB verður eftir Brexit.

Tímabær umræða um ESB-aðild Íslands rennur kannski upp í kringum árið 2030.


mbl.is Meirihluti andvígur inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump er póstmódern - vinstrimaður

Gáfuritið New Republic segir Trump fyrsta póstmóderníska forsetann. Boðskapur póstmódernisma er að sannleikurinn sé ekki til; aðeins sjónarhorn. Mitt sjónarhorn er jafngilt og þitt. Af því leiðir eru hugtökin satt og ósatt merkingarlaus.

Ritstjóri New Republic heimfærir póstmódernisma upp á Trump og hugtök nátengd honum, s.s. falsfréttir og valkvæðar staðreyndir.

Vandamálið er þetta: Trump er hægrimaður en póstmódernismi í pólitík er vinstristefna. Póstmódernísk pólitík verður til í framhaldi af uppgjöf vinstrimanna á vísindalegum sósíalisma Marx og Engels, eins og Stephen Hicks útskýrir í stuttri ræmu.

Ef greining New Republic heldur máli verður að líta á Trump sem áhrínisorð póstmódernisma. Og vandast þá málið. Hvernig á að afbyggja Trump?

Ágætis byrjun væri að innleiða á ný inn í pólitíska umræðu hugtökin sannindi og ósannindi. Heimspekingurinn Harry G. Frankfurt skrifaði tvo ritlinga áratug áður en Trump varð forseti, On bullshit og On truth.

Ritlingarnir tveir útskýra hvernig vaðall annars vegar og hins vegar misþyrming á sannleikshugtakinu leiða til póstmódernískra fyrirbæra eins og Trump.

Heimurinn verður óskiljanlegur ef við hættum að aðgreina sannindi og lygi. Hvert barn veit þetta þótt stjórnmálaumræðan gefi annað til kynna.

 


mbl.is Trump vissi ekki af fundinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband