Sterkur í trúnni, veikur á þjóðerninu

Ef maður er sterkur í trúnni er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af trú annarra, sagði Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti á stórum fundi í Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Meginboðskapur Obama var afneitun á herskárri þjóðernishyggju, samkvæmt endursögn Guardian.

Trú og þjóðerni skilgreina samfélög í meira mæli en margt annað, t.d. pólitísk sannfæring eða efnahagur.

En að vera sterkur í trúnni er með gagnólíka merkingu á vesturlöndum annars vegar og hins vegar á menningarsvæði múslíma. Sterkur í trúnni þýðir á vesturlöndum að maður hafi persónulega trúarsannfæringu og virði rétt annarra til stunda allt aðra trú en maður sjálfur. Í menningarheimi múslíma þýðir sterkur í trúnni að vera með þá sannfæringu að trúarleg gildi eigi að móta samfélagið. Þetta sýna óhrekjanleg tölfræðigögn.

Á vesturlöndum er það þjóðerniskennd sem heldur samfélögum saman fremur en trú. Þegar Obama lofar trúarsannfæringu en fordæmir herskáa útgáfu af þjóðerniskennd, án þess að halla orði að ofbeldishneigð trúarsamfélaga, gerir hann lítið úr vestrænum gildum. Enda er Obama dæmigerður vinstrimaður.


Skotland, Ísland og söguleg tækifæri til sjálfstæðis

Stjórnskipulega eru Skotar á líku róli og Íslendingar 1918 til 1944. Ísland var í þá tíð konungsríki, hliðsett Dönum, en með eigið þing og stjórnarráð.

Ísland fékk fullveldi 1918 vegna sögulegs tækifæris sem lok fyrstu heimsstyrjaldar færðu okkur. Þjóðríkjareglan var staðfest í Evrópu með þrýstingi frá Bandaríkjunum. Danir vildu fá ,,heim" dönskumælandi Þjóðverja og fóru fram á að landamæri ríkjanna yrðu færð í suður. Til að standa betur að vígi í samningaviðræðum um þýska Dani leyfðu Danir íslenskt fullveldi.

Skotar á hinn bóginn fengu fullveldi með samningum við bresku ríkisstjórnina - enginn stóratburður þar, aðeins langtímaþróun byggð á þjóðríkjareglunni. Skotland og England urðu eitt ríki með samningum 1707 eftir að hafa haft einn og sama konunginn í hundrað ár.

Skoskir þjóðernissinnar vilja fullt sjálfstæði frá breska konungdæminu líkt og íslenskir þjóðernissinnar á fyrri hluta síðustu aldar. Ísland fékk sjálfstæðið, líkt og fullveldið, þegar stóraburður skók heimsbyggðina. Seinni heimsstyrjöld 1939-1945 opnaði glugga sem Íslendingar nýttu sér. Nágrannar okkar, Grænlendingar og Færeyingar, voru ekki í stakk búnir að nýta sér tækifærið. Þeir eru stjórnskipulega á sömu slóðum og Ísland 1904-1918.(leiðrétt eftir ábendingu frá GMG).

Skoskir þjóðernissinnar töldu að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, byði upp á sögulegt tækifæri til sjálfstæðis. En tap í fyrstu þingkosningum eftir Brexit girðir fyrir möguleikga Skoska þjóðarflokksins að setja á oddinn kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.

Stjórnskipun ríkja taka helst ekki breytingum nema þegar stóratburðir knýja dyra. Brexit er, þrátt fyrir allt, ekki viðlíka atburður og styrjöld.


mbl.is Setur sjálfstæðismálin í salt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tístið og dauði litlu gulu hænunnar

Tíst er smáskilaboð, tvær til fjórar setningar, á samfélagsmiðli. Donald Trump Bandaríkjaforseti notar tístið til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Í viðtengdri frétt mbl.is er vitnað í tíst forsetans um að þolinmæðin gagnvart kjarnorkuveldinu Norður-Kóreu sé á þrotum.

Fyrir nokkrum dögum tísti forsetinn háðsglósu um andlitsaðgerð spjallþáttstjórnanda sem hafði gagnrýnt hann. Það tíst er leiðaraefni stærsta dagblaðs Bandaríkjann, New York Times, sem birtir leiðarann efst á forsíðu vefútgáfunnar.

Fyrir daga tístsins, og rafmiðla yfirleitt, var dæmisagan, allegorían, notuð til að koma siðferðilegum og pólitískum skilaboðum á framfæri. Dæmisögur Jesú boðuðu náungakærleik, Dýrbær Orwells er pólitísk dæmisaga og Flugnahöfðinginn eftir Golding útskýrði pólitík og siðferði. Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen er saga um trúgirni. Sagan um litlu gulu hænuna verðlaunaði iðni og setti ónytjunga í skammarkrókinn.

Í rit- og talmáli var efni dæmisagna heimfært upp á pólitískar og samfélagslegar aðstæður. Lesendur og áheyrendur vissu oftast hvað væri verið að fara og voru ýmist sammála eða ósammála líkingunni. Eins og gengur.

Tístpólitík rúmar hvorki dæmisögur né vísanir í þær. Tíst er smáskilaboð með fullyrðingum: ,,þolinmæðin á þrotun" - ,,misheppnuð andlitsaðgerð."

Efni dæmisagna býður upp á túlkun og staðfærslu. Tístið slengir fram staðhæfingum. Tístið og dauði litlu gulu hænunnar vitna um nýja tíma þar sem ígrundun lætur í minni pokann fyrir sleggjudómum.

 


mbl.is Þolinmæðin gagnvart N-Kóreu þrotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband