Skoðanakúgun og hatursorðræða

Frelsi til að hafa skoðanir á mönnum og málefnum er hornsteinn vestrænna samfélaga. Gagnrýnin hugsun fær ekki þrifist án skoðanafrelsis.

Hugtakið ,,hatursorðræða" er notað af fólki sem vill gera sumar skoðanir ólögmætar. Sjálft hugtakið er fordómafullt. Skoðanir fólks mótast af mörgum tilfinningum; ást, hatri, ótta, minnimáttarkennd, hroka, samúð, hugleysi, dirfsku, spéhræðslu, lífsgleði og svo framvegis.

Að gefa sér að tilteknar skoðanir mótist af hatri og þær skoðanir eigi að banna er yfirlætisfullt svo ekki sé meira sagt.

Það er ekki hægt að binda í lög hvaða tilfinningar fólk eigi að hafa. Á hinn bóginn er hægt að banna tilteknar skoðanir. Nýlega voru felld úr gildi lög sem bönnuðu guðlast. Dómsmálaráðherra, sem þá var þingmaður, benti á tvískinnung þeirra sem vilja afnema bann við guðlasti en banna aðrar skoðanir vegna þess að í þeim sé ,,hatursorðræða". Hvað er guðlast annað en hatur á guði?

Þeir sem nota hugtakið ,,hatursorðræða" eru í raun að biðja um skoðanakúgun. 

 


mbl.is „Stórhættulegt samfélagsmein“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandarískt heimilisböl; Pútín eignast vin í Macron

Talsmaður Trump Bandaríkjaforseta segir deilu Katar við fjögur arabaríki vera heimilisvanda araba. Nær væri að tala um bandarískt heimilisböl þar sem allar fimm þjóðirnar eru bandamenn Bandaríkjanna, Katarar ekki síst.

Á sama tíma eignast Pútín Rússlandsforseta vin í starfsbróður sínum í Frakklandi, Macron, í málefnum miðausturlanda. Samkvæmt Newsweek vill Macron vinna með Pútín við að uppræta samtök herskárra múslíma sem staðið hafa fyrir hryðjuverkum í Frakklandi síðustu misseri.

Bandaríkin og Nató, þar með talið Frakkland, vildu til skamms tíma steypa Assad Sýrlandsforseta af stóli. En Rússland er bakhjarl Assad.

Bandarísk stefnumótun í miðausturlöndum er lömuð, ekki síst vegna þess að Donald Trump forseti á í vök að verjast vegna ásakana um að hann sé strengjabrúða Pútín.

Kunnáttumenn í alþjóðamálum, til dæmis Stephen F. Cohen, telja, líkt og Macron Frakklandsforseti, að Pútín og Rússland ættu að vera bandamenn í málefnum miðausturlanda. En ráðandi viðhorf í Washington er að Pútín sé með horn og klaufar. Það eykur heimilisbölið.


mbl.is Katarar hafna öllum kröfunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn: samnefnari fyrir vantraust

Viðreisn er flokkur stofnaður á grunni vantrausts. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn þurfti á öllu sínu að halda - í ólgu eftirhrunsins - ákváðu nokkrir sjálfstæðismenn að stofna Viðreisn. Meðal þeirra voru fyrrverandi formaður, Þorsteinn Pálsson, og varaformaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, var sjálfstæðismaður til áratuga.

Og hver var ástæða vantrausts viðreisnarmanna? Jú, stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum. En hvað hefur reynslan sýnt? Jú, að stefna Sjálfstæðisflokksins var hárrétt. Ef Ísland væri aðili að Evrópusambandinu væru öll viðskipti okkar við Bretland í uppnnámi vegna Brexit. Ísland yrði að treysta á að Brussel tryggði okkar viðskipti við Bretland. Hvaða líkur eru á að Brussel tæki mark á íslenskum hagsmunum í Brexit-viðræðum? Engar.

Brexit felur í sér að Evrópusambandið er orðið að félagsskap meginlandsríkja Evrópu. Ísland sem eyland á Norður-Atlantshafi væri þar eins og krækiber í helvíti.

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreinsnar kvartar undan tortryggni og reiði innan Sjálfstæðisflokksins. Við hverju bjóst hann? Grunnhugmyndin með stofnun Viðreisnar er dómgreindarlaust rugl, eins og reynslan sýnir svart á hvítu. Á að treysta dómgreindarlausu fólki?

Almenningur treystir ekki Viðreins, svo mikið er víst. Ítrekaðar skoðanakannanir sýna að flokkurinn myndi þurrkast út af þingi yrði kosið núna.

Sjálfstæðismenn treysta ekki Viðreisn, almenningur ekki heldur. Og nú bætast við talsmenn annarra stjórnmálaflokka sem segjast ekki treysta fulltrúa Viðreisnar í nefnd um sjávarútvegsmál.


mbl.is Ósætti innan veiðigjaldanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband